Fréttir

Bindisamningar líkamsræktarstöðva – ástæða til að vera vakandi

Eflaust munu ófáir leggja leið sína í líkamsræktarstöðvar á nýju ári með fögur fyrirheit um nýjan og heilbrigðari lífsstíl. Fyrir kappsama iðkendur er ódýrast að kaupa árskort eða kort með langan binditíma og því ekki að furða að margir velji þann kost.

Samningum þarf oftast að segja upp
Mikið er kvartað til Neytendasamtakanna vegna bindisamninga líkamsræktarstöðva. Þeim þarf yfirleitt að segja upp skriflega en margir halda eðlilega að árskort gildi einungis í eitt ár. Mörg dæmi eru um að mánaðarleg greiðsla hafi verið dregin af kreditkorti svo mánuðum og jafnvel árum skipti án þess að neytandinn átti sig á því. Eitt versta dæmið er af eldri konu sem keypti ársáskrift í nóvember 2010 og ákvað að hætta í febrúar 2011. Hún lét starfsmann í afgreiðslu vita og taldi sig þar með hafa sagt upp samningnum. Starfsmaðurinn benti konunni ekki á að hún þyrfti að segja upp skriflega. Mánaðargjald var tekið af korti konunnar fram til mars 2017. Líkamsræktarstöðin var ekki fáanleg til að endurgreiða konunni hluta af greiðslunum en bauð henni kostnaðarlausa áskrift í eitt ár sem hún þáði ekki.
 
Skoðaðu kreditkortayfirlitið!
Það er á ábyrgð neytenda að tryggja að þeir séu ekki að greiða fyrir þjónustu sem þeir eru búnir að segja upp. Litið er svo á að greiðsla fyrir þjónustu sé sama og samþykki og því er lagalegur réttur fólks til að krefjast endurgreiðslu yfirleitt ekki til staðar. Algengt er að fólk setji ýmsar greiðslur á kreditkort enda er það að mörgu leyti þægilegt og jafnvel hagkvæmara en að greiða með greiðsluseðli. Þá eru dæmi um að fólk gefi upp debitkortanúmer og er þá dregið beint af reikningi viðkomandi. Það virðist hins vegar stundum farast fyrir að skoða rafræna reikninga og yfirlit en það er mjög mikilvægt að fólk fari reglulega yfir stöðuna og hvort einhver þjónusta hangi inni sem búið er að segja upp.

Viðskiptavinir látnir vita
Þegar gildistími korts rennur út þarf fyrirtæki að hafa fyrir því að færa áskriftina yfir á nýtt kort. Líkamsræktarstöðin Bára hefur alltaf samband við sína viðskiptavini þegar gildistími korts rennur út til að kanna stöðuna. Slík vinnubrögð eru fyrirmyndar.
 
Passið að uppsögn sé skrifleg
Fyrirtækið Reebok Fitness fer fram á að uppsögn berist í gegn um heimasíðu fyrirtækisins og hafa margar kvartanir borist vegna þess. Dæmi eru um að uppsögn hafi ekki farið í gegn og að viðskiptavinir lendi í vanda vegna þess. Það er mjög hæpið að fyrirtæki geti krafist þess að uppsögn sé aðeins tekin gild ef hún er framkvæmd á tiltekinn hátt. Það nægir því að uppsögn sé sannanleg og það getur verið skrifleg uppsögn eða send með tölvupósti.

Fréttir í sama dúr

Breytingar á búvörulögum gegn stjórnarskrá

Aðalfundur Neytendasamtakanna 2024

Ályktanir aðalfundar

Bílastæðamál fyrir Hæstarétt

Baráttan um bílastæðin

Neytendablaðið er komið út

Takk fyrir áhugann!

 Þetta vefsvæði er kostað af árgjöldum félaga í Neytendasamtökunum.

Ef þú ert ekki þegar í samtökunum biðjum við þig að íhuga að ganga í þau. Árgjaldið er 7.900 kr.