Fréttir

Creditinfo á svig við starfsleyfi?

Meðferð Creditinfo á viðkvæmum persónuupplýsingum um fjárhag einstaklinga gæti farið  á svig við lög og starfsleyfi fjárhagsupplýsingafyrirtækisins, að mati Neytendasamtakanna og VR. Hafa samtökin því sent Persónuvernd erindi þess efnis og óskað eftir flýtimeðferð. Breytingarnar hafa haft stórkostlegar, víðtækar og skyndilegar afleiðingar fyrir 40% Íslendinga samkvæmt fréttaflutningi. Fjöldi fólks hefur misst lánsheimildir og lánstraust hjá lánveitendum, ekki vegna breytinga á eigin högum, heldur vegna breytinga hjá Creditinfo. Fyrirtækið gætti ekki meðalhófs í aðgerðum sínum, veitti fólki ekki upplýsingar um þær fyrirfram, né gaf kost á andmælum. 

Neytendasamtökin og VR kalla eftir því að stjórnvöld hafi eftirlit með og láti gera úttekt á virkni lánshæfismats Creditinfo. Neytendasamtökin hafa lengi bent á að ekkert eftirlit er með því hvernig   lánshæfismat er reiknað út og hvaða breytur stjórni því nákvæmlega hvers vegna  tiltekinn aðili fellur um flokk svo dæmi sé tekið, nú eða færist upp um flokk. 

Við nýlegar breytingar Creditinfo færðust að sögn 40% þjóðarinnar um lánshæfisflokk. Það eitt og sér gefur tilefni til að ætla að pottur sé brotinn í gerð lánshæfismats hjá Creditinfo. Úr því fæst ekki skorið nema með úttekt óháðs aðila og virku eftirliti. Þá virðist fólk ekki hafa verið látið vita um að það yrði fært á milli flokka nú þegar Creditinfo ákveður að breyta um verklag. Fyrir marga neytendur getur það haft alvarlegar afleiðingar að færast niður um lánshæfisflokk. Benda samtökin á að framúrskarandi fyrirtæki hefði sýnt þá kurteisi að láta fólk vita með góðum fyrirvara og gefið fólki kost á að andmæla.

Neytendasamtökin og VR vekja athygli á að nýlega sektaði Persónuvernd Creditinfo, sem var gert að greiða tæpar 38 milljónir króna fyrir að hafa skráð fólk ranglega á vanskilaskrá. Neytendasamtökin og VR eru að kanna bótarétt þess fólks og hvetja fólk sem var skráð að vanskilaskrá vegna smálána að setja sig í samband við Neytendasamtökin (ns@ns.is). 

Samkvæmt 2. mgr. 12. greinar reglugerðar 606/2023 um vinnslu upplýsinga um fjárhagsmálefni og lánstraust ber fyrirtækinu að veita upplýsingar um vægi einstakra breytna við útreikning á líkindum í skýrslu um lánshæfi hans og þau rök sem liggja þar að baki. Því benda samtökin fólki á að biðja um þessi gögn. Hægt er að senda álíka bréf og þetta til creditinfo@creditinfo.is:

Góðan dag
Ég óska eftir öllum upplýsingum sem Creditinfo notar til að reikna út lánshæfismat mitt, þar með talið upplýsingar um vægi einstakra breytna við útreikning á líkindum í skýrslu um lánshæfi mitt og þau rök sem liggja þar að baki. (Þar sem ég samþykki ekki skilmála á vef Creditinfo, óska ég eftir að fá gögnin og rökstuðninginn send á lögheimili mitt.)
Virðingarfyllst,
(Nafn, kennitala)

Uppfært 1.12.2023: Neytendasamtökin hafa fengið upplýsingar um að í svari Creditinfo sé fólki beint á lokað vefsvæði Creditinfo, þar sem fyrirtækið vill fá heimild til að afla viðbótargagna. Þeim sem ekki vilja undirgangast skilmála Creditinfo er bent á að óska eftir að fá send gögnin á lögheimili sitt. Til dæmis með því að svara slíkum pósti með eftirfarandi:

„Þar sem ég samþykki ekki skilmála á vef Creditinfo, óska ég eftir að fá gögnin og rökstuðninginn send á lögheimili mitt.“

Neytendasamtökin og VR hvetja neytendur að afla allra gagna sem þau geta og vista, þ.m.t. um eldri skráningu á vanskilaskrá (ef við á), afrit af hinu nýja lánshæfismati (og eldra), öllum samskiptum við Creditinfo o.s.frv. Telji neytendur á sér brotið geta þeir leitað til Neytendasamtakanna með því að senda umræddu gögn til skoðunar.

Sé þessi vinnsla Creditinfo ekki óheimil munu Neytendasamtökin beita sér fyrir reglugerðar- og lagabreytingum eftir því sem við á. Þá minna samtökin á að vinnsla lánshæfismats þarf að vera málefnaleg og gefa rétta mynd af lánshæfi. Lækkun lánshæfis sem byggir ekki á réttlátum, málefnalegum og áreiðanlegum gögnum gefur ekki rétta mynd af stöðu og lánshæfi. 

Fréttir í sama dúr

Opnunartími yfir hátíðirnar

Droppshipping – ekki er allt sem sýnist

Afstaða stjórnmálaflokkanna til neytendamála

Breytingar á búvörulögum gegn stjórnarskrá

Aðalfundur Neytendasamtakanna 2024

Ályktanir aðalfundar

Takk fyrir áhugann!

 Þetta vefsvæði er kostað af árgjöldum félaga í Neytendasamtökunum.

Ef þú ert ekki þegar í samtökunum biðjum við þig að íhuga að ganga í þau. Árgjaldið er 7.900 kr.