Dómur hefur nú fallið í máli hins danska smálánafyrirtækis eCommerce 2020 ApS gegn Neytendasamtökunum og Breka Karlssyni, og ummæli sem féllu í tölvupósti til þriðja aðila dæmd dauð og ómerk. Ekki var fallist á kröfur fyrirtækisins um bætur fyrir miska eða skaða og málskostnaður felldur niður og Neytendasamtökin og Breki því sýknuð af því. Dóminn má finna hér.
„Dómsorð:
Eftirfarandi ummæli stefnda, Breka Karlssonar, í garð stefnanda, eCommerce 2020 ApS, sem féllu í tölvuskeytum hans til Quickpay ApS, 6.ágúst 2020 og Clearhaus A/S, 20. ágúst 2020, skulu dæmd dauð og ómerk:
- „the loans have been deemed illegal in Iceland.“
- „whose only operation is illegal predatory lending.“
- „those loans have been ruled illegal in Iceland by both courts and the Consumer surveillance agency.“
- „illegal transfers.“
Stefndu, Breki Karlsson og Neytendasamtökin, eru sýkn af fjárkröfum stefnanda annars vegar um greiðslu miskabóta og hins vegar um kostnað af birtingu dóms.
Stefndu eru einnig sýknir af varakröfu stefnanda um viðurkenningu á óskiptri skaðabótaskyldu þeirra.
Málskostnaður milli aðila fellur niður.“
Hin ómerku ummæli féllu í tölvupósti til tveggja greiðslumiðlana í viðleitni Neytendasamtakanna til að láta þær vita að þær væru mikilvægur hlekkur í smálánakeðjunni á Íslandi, sem gerði mögulegar úttektir af reikningum fólks. Fjölmargir höfðu sett sig í samband við samtökin og óskað eftir aðstoð við að stöðva, það sem þau töldu óheimilar úttektir. Í mörgum tilfellum virðist sem reikningar hafi verið tæmdir með aðferðum sem samtökin töldu ekki standast. Enda náðu samtökin í flestum tilfellum að aðstoða fólk við að fá endurgreitt það sem tekið hafði verið út, í samstarfi við bankana. Tölvupósturinn var þannig tilraun til að grípa þau sem ekki settu sig í samband við Neytendasamtökin.
Neytendasamtökin tilkynntu Fjármálaeftirlitinu og Neytendastofu um þessar úttektir og óskuðu eftir því að þessar eftirlitsstofnanir fjölluðu um þær. Því miður vísuðu stofnanirnar einungis hvor á aðra og þæfðu málið án þess að taka það til efnislegrar skoðunar. Þannig stóðu neytendur uppi varnarlausir, og eru í raun ennþá varnarlausir gegn úttektum sem þeir telja óheimilar af bankareikningum á Íslandi.
Vegna þessa úrræðaleysis eftirlitsstofnana á Íslandi gripu Neytendasamtökin til þess ráðs að senda tölvupóst til greiðslumiðlananna Quickpay ApS og Clearhaus A/S. Pósturinn rataði greinilega á borð smálánafyrirtækisins eCommerce 2020 sem, ákvað að stefna fyrir einstök ummæli sem í honum féllu. Í dómnum er þó ekki tekið á lögmæti skuldfærsla út af reikningum neytenda sem að mati Neytendasamtakanna eru ólögmætar heldur eru orð smálánafyrirtækisins um að þær séu lögmætar talin góð og gild.
Segja má að dómurinn banni fólki að hafa þá skoðun að starfsemi smálánafyrirtækja brjóti í bága við lög. Engu breyti þótt fyrir liggi fjöldi ákvarðana um ólögmæti slíkrar starfsemi hér á landi. Dómurinn gangi út frá því að það smálánafyrirtæki sem um ræðir hafi í meginatriðum náð að aðlaga lán sín að fyrri úrskurðum og markmiði Neytendasamtakanna hafi þar með verið náð. Inn í þessa breytu vantar þó að Neytendasamtökin töldu þessi lán ólögmæt löngu áður en farið var að úrskurða um þau. Það hefði verið bagalegt að fá svona dóm þá, áður en úrskurðaraðilar hófu að dæma þau ólögmæt. Það hafi ekki mátt hafa þá skoðun.
Neytendasamtökin og Breki hafa ekki tekið ákvörðun um hvort dómnum verði áfrýjað. Í áralangri baráttu Neytendasamtakanna við smálánaóáranina hefur margt áunnist. Smálán sem í boði eru á Íslandi bera ekki lengur ólöglega háa vexti, en á hinn bóginn getur kostnaður við vanskil verið nær takmarkalaus. Þannig þarf að breyta innheimtulögum, setja hámark á innheimtukostnað og tryggja raunverulegt eftirlit með öllum innheimtuaðilum, en eins og Neytendasamtökin hafa bent á er eftirlit með innheimtustarfsemi lögmanna í skötulíki. Þá geta neytendur ekki treyst því að óprúttnir aðilar láti ekki millifæra af reikningum almennings ótilteknar upphæðir. Þessu þarf að breyta og munu Neytendasamtökin halda ótrauð áfram að berjast fyrir því, sem og bættum rétti neytenda í hvívetna.