Lög um fjarsölu ekki virt
Í júní 2022 gerði sölumaður rafhjóla, ætluðum eldri borgurum, sér ferð í öryggisíbúðir aldraðra. Níræður maður keypti hjól á staðnum sem hann staðgreiddi. Strax kom í ljós að maðurinn hafði hvorki líkamlega né vitsmunalega getu til að nota hjólið og þótti ljóst að hann gæti valdið sjálfum sér og öðrum skaða. Aðstandendur voru látnir vita og strax degi eftir kaupin höfðu þeir samband við seljanda og tilkynntu að fallið yrði frá kaupunum. Seljandi hafnaði því alfarið.
Réttur til að falla frá kaupum
Þegar neytandi kaupir vöru eða þjónustu utan fastrar starfstöðvar seljanda er skilarétturinn mun ríkari en ella. Þetta á til dæmis við þegar vara eða þjónusta er keypt í gegnum síma, á netinu eða þegar sölumaður fer á stúfana líkt og í þessu máli. Kaupandi á þannig alla jafna rétt á að hætta við kaup án nokkurra skýringa innan 14 daga frá kaupum, og fá endurgreiðslu.
Málið vinnst fyrir kærunefnd
Aðstandendur mannsins voru að vonum ósáttir með viðbrögð seljanda og leituðu til Neytendasamtakanna. Niðurstaða samtakanna var að réttur mannsins til að falla frá kaupunum væri afdráttarlaus. Seljanda varð þó ekki haggað og var málið því sent fyrir Kærunefnd vöru- og þjónustukaupa. Nefndin komst að þeirri niðurstöðu að kaupandi hefði lögum samkvæmt rétt til að falla frá kaupum og að seljanda bæri að endurgreiða hjólið.
Neytendasamtökin hafa árangurslaust hvatt fyrirtækið til að fara eftir úrskurðinum og því hefur það verið sett í Skammarkrók Neytendasamtakanna. E-hjól hefur ávallt tækifæri til að fara af listanum með því að una úrskurði Kærunefndar vöru- og þjónustukaupa og greiða kaupanda það sem honum ber.