Fréttir

Ekkert að marka Almenna innheimtu ehf.?

Gísli Kr. Björnsson stjórnandi og eigandi Almennrrar innheimtu ehf. hefur gefið það út að fyrirtækið innheimti ekki lengur ólögleg smálán. Þá fullyrðir hann að fyrirtækið hafi ávalt látið viðskiptavini sína frá sundurliðun á kröfum, sé þess krafist. Fullyrðingar Gísla stangast á við reynslu skjólstæðinga Neytendasamtakanna. Nú sem fyrr streyma inn til Neytendasamtakanna ábendingar og fyrirspurnir frá fólki sem hefur tekið smálán sem eru í innheimtu hjá Almennri innheimtu ehf. Fólk er krafið um greiðslur á ólögmætum vöxtum og himinháum vanskilakostnaði, en hefur í mörgum tilfellum verið látið borga margfalt meira en því ber. Almenn innheimta ehf. leikur enn þann ljóta leik að hóta fólki með skráningu á vanskilaskrá Creditinfo, stilla því upp við vegg og innheimta himinháan vanskilakostnað ofan á kröfur sem fyrir liggur að eru ólögmætar.

Afhenda ekki gögn

Athygli vekur að Almenn innheimta virðist gera allt til að flækja mál og tefja, meðal annars að áskilja sér 90 daga rétt til að afhenda sundurliðun yfir kröfurnar. Þá er fyrirtækið allt í einu farið að gera þá kröfu að fólk sendi mynd af persónuskilríki þrátt fyrir að hafa nægjanlega upplýsingar til að innheimta af því himinháar kröfur. Fengju lántakendur sundurliðun í hendur, kæmi líklegast í ljós að margar kröfurnar eru ólögmætar og hafi þegar verið greiddar margfaldlega til baka eins og mörg dæmi sanna.

Leikur lausum hala

Neytendasamtökin standa ráðþrota gangvart þessu framferði og muna ekki eftir jafn svínslegum viðskiptaháttum og aðför að hópi neytanda sem oft er veikur fyrir. Þá er með öllu óskiljanlegt að lögmaður skuli komast upp með innheimtu á ólöglegum lánum og að halda mikilvægum gögnum frá lántakendum. En erindi Neytendasamtakanna til Lögmannafélags Íslands vegna starfshátta Gísla Kr. Björnssonar var vísað frá vegna aðildarskorts.

Gerið kröfu um sundurliðun

Neytendasamtökin hvetja alla sem tekið hafa smálán eftir 2013 sem eru í innheimtu hjá Almennri innheimtu ehf. að senda eftirfarandi póst og fara fram á tafarlausa sundurliðun krafna. Þeir sem telja sig hafa greitt meira til baka en sem nemur lánsupphæð ættu ekki að greiða krónu í viðbót fyrr en sundurliðunin liggur fyrir. Afhendi Almenn innheimta ekki sundurliðun á kröfum eru lántakendur hvattir til að senda tölvupóst á á Lögmannafélag Íslands sem á að hafa eftirlit með sínum félagsmönnum, sjá texta hér að neðan.

Neytendasamtökin árétta að fólk greiði upphaflega lánsupphæð til baka, en ekki ólöglega vexti og vanskilakostnað.

almenn@almenn.is
lmfi@lmfi.is

Tölvupóstur til Almennrar innheimtu ehf.:

Til þess er málið varðar,
Vinsamlega sendið mér upplýsingar um öll smálán sem eru til innheimtu hjá Almennri innheimtu ehf., dagsetningar þeirra, lánstíma, lánsfjárupphæðir, vexti og annan kostnað sem ég hef greitt hingað til. Ég greiði ekki frekar inn á lánið fyrr en þessar upplýsingar liggja fyrir. Ég fer jafnframt fram á að þið hættið öllum innheimtuaðgerðum þar til ég fæ upplýsingarnar í hendur og hef haft tækifæri til að fara yfir þær.

Virðingarfyllst,
Nafn: Xxxxx Xxxxx
Kennitala: xxxxxx-xxxx

Tölvupóstur til Lögmannafélags Íslands:

Ég fer þess á leit við Lögmannafélag Íslands að það kanni starfshætti Almennrar innheimtu ehf., Innheimtufyrirtækisins neitar að afhenda nauðsynleg gögn um stöðu kröfunnar, stundar innheimtu á lánum sem staðfest hefur verið fyrir dómi að bera ólöglega vexti og hótar vanskilaskráningu ef ólögmætar kröfur eru ekki gerðar upp. Ég óska eftir svörum við því hvort Lögmannafélagið telji þessa innheimtuhætti eðlilega og hvort háttsemi Gísla Kr. Björnssonar lögmanns Almennrar innheimtu ehf. kunni að stríða gegn lögum eða siðareglum LMFÍ.

Virðingarfyllst,
Nafn: Xxxxx Xxxxx
Kennitala: xxxxxx-xxxx

Fréttir í sama dúr

Breytingar á búvörulögum gegn stjórnarskrá

Aðalfundur Neytendasamtakanna 2024

Ályktanir aðalfundar

Bílastæðamál fyrir Hæstarétt

Baráttan um bílastæðin

Neytendablaðið er komið út

Takk fyrir áhugann!

 Þetta vefsvæði er kostað af árgjöldum félaga í Neytendasamtökunum.

Ef þú ert ekki þegar í samtökunum biðjum við þig að íhuga að ganga í þau. Árgjaldið er 7.900 kr.