Fréttir

Enn af smálánakröfum

Samkvæmt fréttaflutningi hafa smálánakröfur sem áður voru í eigu E-commerce verið seldar til innheimtufyrirtækisins BPO innheimta ehf. Í fréttatilkynningu félagsins til fjölmiðla í gær kom fram að allir vextir og lántökukostnaður aðrir en dráttarvextir yrðu felldir niður, jafnframt kom fram að BPO innheimta hygðist bjóða öllum skuldurum upp á að á að gera sín mál upp fyrir 15. maí nk. án dráttarvaxta og innheimtukostnaðar. Frá því í gær hefur fyrirspurnum rignt inn til samtakanna og eiga þau það flest sameiginlegt að framangreindar upplýsingar frá innheimtufélaginu koma ekki heim saman. Fjárhæð þeirra reikninga sem BPO hefur sent fyrrum lántökum og Neytendasamtökunum hafa borist, nema ekki einvörðungu höfuðstól krafnanna heldur að því er virðist einnig lántökukostnaði, innheimtukostnaði og vöxtum. Þá voru kröfur settar inn í heimabanka seint í gær, 13. apríl með eindaga sama dag. Hefur þetta valdið lántaköndum vanda og verður að teljast afar óeðlilegt. Þá eru dæmi um að kröfur hafi hækkað mikið, jafnvel tvöfaldast frá því í gærkvöldi.

Neytendasamtökin hafa alla tíð ráðlagt fólki að greiða til baka höfuðstól lánanna en ekki ólöglega vexti þessara lána og minna á að áfrýjunarnefnd neytendamála hefur staðfest að fram til maí 2019 hafi vextir þessara lána verið hærri en lög og þarf neytendi því ekki að greiða þá. Jafnframt hvetja samtökin til þess að lántakar leiti skuldajöfnunar, hafi þeir greitt of mikið af lánum sínum.

Ætla má að stór hluti þeirra krafna sem sagðar hafa verið keyptar og BPO innheimta innheimtir nú varði ólögleg lán (flýtigjaldslán, rafbókarlán, og lán með ÁHK langt umfram löglegt hámark). Þau sem tekið hafa lán fyrir maí 2019 og hafa greitt af þeim, hafa því að öllum líkindum greitt ólögmætan vaxtakostnað og hugsanlega líka vanskilakostnað og dráttarvexti vegna ólöglegra lána. Að mati Neytendasamtakanna er það brot á innheimtulögum að innheimta lán sem fyrir liggur að beri ólögmæta vexti og að setja slík lán í innheimtuferli. Nú þegar hefur mál borist samtökunum þar sem lítur út fyrir að BPO sé að innheimta kröfur sem að stórum hluta til séu fyrndar að fullu leyti.

Lántakar eiga rétt á að fá sönnun þess að krafan hafi skipt um hendur og á rétt á sönnun tilurðar krafna á hendur þeim. Það er á höndum innheimtuaðila að sanna réttmæti krafna sem hann innheimtir, og ekki á höndum almennings að afsanna það. Samtökin hvetja því alla sem hafa fengið kröfu í heimabanka frá BPO innheimtu til að kalla eftir gögnum varðandi kröfuna, þ.e.; sundurliðun á kröfunni, hvenær lánið var tekið, hver var vaxta eða lántökukostnaður og hvaða kostnaður hefur fallið á hana á þeim tíma, svo sem innheimtukostnaður eða dráttarvextir. Þeir sem hafa þegar greitt af ólöglegum lánum ættu að fara fram á skuldajöfnuð.

Neytendasamtökunum hefur einnig á undaförnum árum borist allmargar ábendingar um að reynt hafi verið að innheimta gamlar kröfur án þess að sýnt hafi verið fram á tilurð þeirra og þær jafnvel fyrndar. Benda samtökin því á að peningakröfur fyrnast á 10 árum en vextir og annar kostnaður á fjórum árum. Því benda Neytendasamtökin lántökum á að greiða ekki kostnað af kröfu (eða sjálfa kröfuna) nema athuga fyrst hvort hún sé fyrnd, eða sé réttmæt.

Hafirðu fengið innheimtukröfu frá BPO innheimtu, væri ráð að senda fyrirtækinu fyrirspurn (hægt er að hafa smalan@ns.is í cc). Hún gæti sem dæmi litið svona út:

Tölvupóstfang: bpo@bpo.is
cc: smalan@ns.is

Efni: Fyrirspurn um innheimtukröfu

Góðan dag.

Nýlega birtust í heimabanka mínum reikningar í nafni félagsins BPO innheimta ehf. Ég kannast ekki við að hafa átt í neinu viðskiptasambandi við félagið og óska eftir skýringum á umræddum reikningum, þar með talið gögnum er sýna fram á tilurð umræddra krafna, sönnun kröfuhafaskipta, dagsetningar, á hverju þær byggjast, hvernig sundurliðun sé háttað, hvort um lán sé að ræða sem veitt var með ólöglegum vöxtum, innágreiðslur mínar o.s.frv.

Með von um skjót svör,

[Nafn]
[kennitala]

Fréttir í sama dúr

Bílastæðamál fyrir Hæstarétt

Baráttan um bílastæðin

Neytendablaðið er komið út

Aðalfundur 22. október

Staðan í Vaxtamálinu

Smálánabaráttan

Takk fyrir áhugann!

 Þetta vefsvæði er kostað af árgjöldum félaga í Neytendasamtökunum.

Ef þú ert ekki þegar í samtökunum biðjum við þig að íhuga að ganga í þau. Árgjaldið er 7.900 kr.