Fréttir

Ertu að kaupa fasteign?

Í dag er það fremur regla en undantekning að kaupendur fasteigna þurfi að greiða svokallað umsýslugjald til fasteignasala við kaup á fasteign. Gjaldið er oft á bilinu 50 – 70 þúsund krónur en getur þó verið hærra. Þegar Neytendasamtökin hafa óskað eftir upplýsingum um það hvað sé innifalið í gjaldinu hafa svörin verið á þá leið að þar vegi skjalagerð og þinglýsing skjala þyngst en einnig hagsmunagæsla af hálfu fasteignasala fyrir hönd kaupanda. Það skal þó tekið fram að þinglýsingargjaldið sjálft er ekki innifalið í umsýslugjaldinu.

Lögum samkvæmt ber fasteignasala að gæta hagsmuna beggja aðila. Þá segir enn fremur að fasteignasali verði að gera sérstakan samning um „aðra þjónustu“ sem hann sinnir fyrir hvorn aðila, en þá er átt við aðra þjónustu en sölu á viðkomandi fasteign. Það má hins vegar spyrja hvað teljist vera hluti af sölunni og hvað teljist vera „önnur þjónusta“.

Þar sem löggjafinn hefur ákveðið að fasteignasali skuli gæta hagsmuna beggja aðila er erfitt að færa rök fyrir því að umsýslugjald eigi að standa straum að kostnaði við hagsmunagæslu. Sú hagsmunagæsla ætti einfaldlega að vera hluti af söluferlinu og því greidd með söluþóknun. Þóknunin er iðulega á bilinu 2 – 3% af söluandvirði fasteignarinnar og því yfirleitt um töluverða fjárhæð að ræða. Þá telja Neytendasamtökin langsótt að skjalagerð teljist „önnur þjónusta“ þar sem engin sala gæti farið fram án skriflegra gagna og skjölin því ómissandi hluti af söluferlinu.

Með hliðsjón af framangreindu má færa fyrir því rök að umsýslugjald fasteignasala sé fyrst og fremst greiðsla fyrir það viðvik að koma gögnum til þinglýsingar. Það er því mjög mikilvægt að kaupendur séu upplýstir um að þeir hafa val um það hvort þeir þinglýsa sínum gögnum sjálfir eða geri sérstakan samning við fasteignasala um að sinna því fyrir sig. Margir vilja spara sér umsýslugjaldið og sjá sjálfir um að koma gögnum til þinglýsingar á meðan öðrum finnst betra að fela fasteignasala að sjá um það.

Það vekur furðu Neytendasamtakanna að sumir fasteignasalar láti hafa það eftir sér að þeir treysti ekki kaupendum til að sjá sjálfir um að fara með skjöl til þinglýsingar. Það bendir til þess að í einhverjum tilfellum séu kaupendur jafnvel þvingaðir til greiðslu gjaldsins, af ótta við að missa af viðkomandi fasteign. Sé það raunin getur slíkt varla talist til eðlilegra eða sanngjarnra viðskiptahátta.

Brynhildur Pétursdóttir, framkvæmdastjóri Neytendasamtakanna
Hrannar Már Gunnarsson, lögfræðingur Neytendasamtakanna
Grein þessi birtist í Fréttablaðinu 8, nóvember 2017

Fréttir í sama dúr

Opnunartími yfir hátíðirnar

Droppshipping – ekki er allt sem sýnist

Afstaða stjórnmálaflokkanna til neytendamála

Breytingar á búvörulögum gegn stjórnarskrá

Aðalfundur Neytendasamtakanna 2024

Ályktanir aðalfundar

Takk fyrir áhugann!

 Þetta vefsvæði er kostað af árgjöldum félaga í Neytendasamtökunum.

Ef þú ert ekki þegar í samtökunum biðjum við þig að íhuga að ganga í þau. Árgjaldið er 7.900 kr.