Fréttir

Ferðaskrifstofur greiða ekki -hvað er til ráða

Neytendasamtökin hafa fengið upplýsingar um að ferðaskrifstofur, jafnvel þær sem segjast vera vel gjaldfærar, haldi að sér höndum og endurgreiði ekki viðskiptavinum sínum lögboðnar kröfur vegna ferða sem ekki eru farnar. Þá hafa samtökin dæmi um ferðaskrifstofur sem greiða einungis hluta þeirrar upphæðar sem neytendur eiga rétt á og halda eftir hluta vegna „kostnaðar sem þær verða fyrir“. Þetta er ekki lögum samkvæmt.

Félagsmenn Neytendasamtakanna geta haft samband við samtökin og fengið frekari upplýsingar og aðstoð, sé þess óskað. Álag á símkerfið er mikið um þessar mundir og eru félagsmenn hvattir til að senda tölvpóst (ns@ns.is) með nafni, símanúmeri og hvað málið varðar. Sértu félagsmaður, verður haft samband við þig eins fljótt og auðið er. Hægt er að skrá sig hér.

Af þessu tilefni árétta samtökin að neytendur eiga skýlausan rétt á endurgreiðslu heildarkostaðar vegna ferða sem niður hafa fallið vegna kórónuveirufaraldursins. Endurgreiðslan skal fara fram eigi síðar en 14 dögum eftir að ferð er felld niður. Endurgreiði ferðaskrifstofa ekki innan þess tíma á pakkaferðalangur rétt á að fá greidda dráttarvexti ofan á upphæðina frá þeim degi sem ferðin var niður felld. Því til stuðnings vísa samtökin nýlegan dóm gegn Flugfélagi Íslands.

Neytendasamtökin beina því til stjórnvalda og samtaka ferðaskrifstofa að láta af tilraunum til að skikka neytendur til að gerast lánveitendur ferðaiðnaðarins, vaxtalaust og með óvissu um endurgreiðslu, eins og nýlegt frumvarp atvinnuvegaráðherra gengur út á.

Neytendur hafa fullan skilning á afar flókinni og erfiðri stöðu ferðaþjónustunnar og margir vilja leggja hönd á plóg með því að þiggja inneignarnótur. Þó hafa margir neytendur einnig misst viðurværi sitt og eru ekki í þeirri aðstöðu að geta lánað ferðaþjónustunni. Því leggja Neytendasamtökin til eftirfarandi lausn:

  1. Ferðaþjónustunni verði heimilt að bjóða inneign í stað endurgreiðslu. Inneignin er innleysanleg eftir 12 mánuðir. Inneignin beri vexti sem til dæmis tækju mið af dráttarvöxtum Seðlabanka Íslands á hverjum tíma (eru nú  9,50%) til að neytendur sjái hag sinn í að lána fé sitt.
  2. Settur verður á fót sjóður sem kaupir inneignarnótur þeirra neytenda er ekki geta eða vilja lána fé sitt.

Neytendasamtökin hafa frá því um miðjan mars, þegar vandi ferðaskrifstofa var ljós,  boðið stjórnvöldum og forsvarsfólki ferðaskrifstofa aðstoð sína til að leysa vandann sem við stöndum frammi fyrir. Samtökin ítreka það boð hverjum þeim til handa sem þiggja vilja.

Fréttir í sama dúr

Opnunartími yfir hátíðirnar

Droppshipping – ekki er allt sem sýnist

Afstaða stjórnmálaflokkanna til neytendamála

Breytingar á búvörulögum gegn stjórnarskrá

Aðalfundur Neytendasamtakanna 2024

Ályktanir aðalfundar

Takk fyrir áhugann!

 Þetta vefsvæði er kostað af árgjöldum félaga í Neytendasamtökunum.

Ef þú ert ekki þegar í samtökunum biðjum við þig að íhuga að ganga í þau. Árgjaldið er 7.900 kr.