Fréttir

Gjaldtaka vegna notkunar rafrænna skilríkja

Neytendasamtökin hafa á síðustu dögum átt í viðræðum við bankastofnanir, fjarskiptafyrirtæki og fyrirtækið Auðkenni vegna gjaldtöku á rafrænum skilríkjum. Að mati Neytendasamtakanna fellur óverulegur kostnaður til hjá fjarskiptafyrirtækjum vegna notkunar neytenda á rafrænum skilríkjum og engar efnislegar forsendur standa til þess að láta neytendur greiða fyrir þá notkun. Notkun rafrænna skilríkja leiðir til verulegs hagræðis hjá fjármálastofnunum, opinberum aðilum og fleiri fyrirtækjum, svo nemur gríðarlegum fjárhæðum og ekki kemur til greina að rukka neytendur fyrir notkun þeirra.

Síminn hefur tilkynnt að ekki standi til að hefja gjaldtöku vegna notkunar neytenda á rafrænum skilríkjum og Vodafone hefur frestað gjaldtöku, sem fyrirhugað var að hefja um næstu mánaðarmót. Neytendasamtökin fagna þeirri ákvörðun og telja eðlilegt að fyrirtækið falli með öllu frá fyrirhugaðri gjaldtöku. Eftir stendur að Nova hefur um skeið innheimt gjald af viðskiptavinum sínum vegna notkunar rafrænna skilríkja og hyggst gera það áfram. Neytendasamtökin telja, sem áður segir, engar efnislegar forsendur vera fyrir þeirri gjaldtöku.

Einhver kostnaður mun hafa fallið á fjarskiptafyrirtæki vegna útskiptingar SIM korta í tengslum við skuldaleiðréttingu ríkisstjórnarinnar á síðasta kjörtímabili en óvarlegt er að telja allan þann kostnað til rafrænna skilríkja þar sem hvort eð er hefði þurft að skipta út SIM kortum á lengri tíma.

Neytendasamtökin leggja áherslu á að það hagræði og sparnaður sem verður til hjá fjármálafyrirtækjum og öðrum þeim fyrirtækjum og stofnunum vegna notkunar rafrænna skilríkja er margfalt á við þann kostnað sem til fellur og því er fráleitt að neytendur séu sérstaklega rukkaðir fyrir notkun þeirra.

Neytendasamtökin fagna því að almennt virðist ríkja skilningur hjá hagsmunaaðilum að mikilvægt er að tryggja gjaldfrelsi neytenda við notkun rafrænna skilríkja. Mikilvægt er að nota tímann nú vel og finna lausn, sem tryggir til frambúðar að rafræn skilríki verði neytendum að kostnaðarlausu. Neytendasamtökin munu beita sér í þeim efnum. Mikilvægt er að öll gjaldtaka af neytendum vegna notkunar rafrænna skilríkja hætti.

Fréttir í sama dúr

Opnunartími yfir hátíðirnar

Droppshipping – ekki er allt sem sýnist

Afstaða stjórnmálaflokkanna til neytendamála

Breytingar á búvörulögum gegn stjórnarskrá

Aðalfundur Neytendasamtakanna 2024

Ályktanir aðalfundar

Takk fyrir áhugann!

 Þetta vefsvæði er kostað af árgjöldum félaga í Neytendasamtökunum.

Ef þú ert ekki þegar í samtökunum biðjum við þig að íhuga að ganga í þau. Árgjaldið er 7.900 kr.