Niðurstöður rannsóknar framkvæmdastjórnar Evrópusambandsins á upplifun, hegðun, viðhorfi og þekkingu neytenda í Evrópu 2023 liggja nú fyrir.
Lífseig mýtan um að Íslendingar séu á einhvern hátt lélegir neytendur er endanlega kveðin í kútinn. En niðurstöðurnar sýna svo ekki verður um villst að Íslendingar eru meðal „bestu“ neytenda í Evrópu, nánast hvar sem drepið er niður fæti. Þá er traust til samtaka neytenda á Íslandi hið hæsta í Evrópu og hefur vaxið um heil 13,7 prósentustig frá fyrri könnun sem gerð var árið 2018. Samhliða eykst einnig traust til opinberra neytendaverndarstofnanna, og er nú á pari við það sem gengur og gerist í Evrópu. Traust til verslana og þjónustuveitenda eykst sýnu mest og er nú litlu meira en Evrópumeðaltal.
Eins og fyrir 5 árum er þekking íslenskra neytenda á réttindum sínum framúrskarandi og mun meiri en meðaltal Evrópubúa. Einungis neytendur í Danmörku skoruðu hærra þeir íslensku. Neytendur í Tékklandi, Spáni og Lúxemborg komu síðan fast á hæla okkar.
Eðlilega er verðbólga neytendum í Evrópu hugleikin , en 37% neytenda á evrópska efnahagssvæðinu hafa þurft að ganga á sparnað sinn til að mæta dýrtíðinni og 71% hafa dregið úr orkunotkun heima við.
Þá eru blikur á lofti þegar kemur að sjálfbærri neyslu. Þrátt fyrir vitneskju um nauðsyn þess að bregðast við loftslagsvánni og stuðla að grænum umskiptum segjast einungis 56% neytenda í Evrópu taka mið af umhverfissjónarmiðum við kaup á vörum og þjónustu. Hlutfallið á Íslandi er einungis 50%. Þessi hlutföll hafa ekki breyst að nokkru marki síðan 2018 og nokkuð ljóst að þar eru tækifæri til að gera mun betur.