Fréttir

Greiðsluseðlar hverfa úr bankakerfinu – varað við annarskonar innheimtu

Greiðsluseðlar vegna smálána birtast nú ekki lengur í heimabönkum lántakenda smálána þar sem Sparisjóður Strandamanna hefur sagt upp viðskiptum við innheimtufyrirtækið Almenna innheimtu. Þetta er mjög jákvætt skref í baráttunni við ólöglega smálánastarfsemi. Lántakendur þurfa þó að gæta að því að ekki sé skuldfært af reikningum þeirra.

Greiðsluseðlar fjarlægðir úr heimabönkum

Almenn innheimta hefur haft þann starfa að innheimta kröfur vegna smálánaskulda í eigu fyrirtækisins Ecommerce 2020, en stór hluti þessara krafna byggja á ólögmætum lánveitingum að mati Neytendasamtakanna. Ekki hefur verið hægt að stöðva innheimtustarfsemina þar sem hún er ekki leyfisskyld og fellur utan eftirlits FME. Starfsemi Almennrar innheimtu hefur því verið veigamikill þáttur í þessari skipulögðu starfsemi og hefur himinhár innheimtukostnaður verið hluti af viðskiptamódelinu.

Neytendasamtökin hafa lengi hvatt Sparisjóð Strandamanna til að hætta viðskiptum við Almenna innheimtu þannig að fyrirtækið hefði ekki lengur aðgang að greiðslumiðlunarkerfi bankanna. Það hefur nú gengið eftir og hafa greiðsluseðlar verið fjarlægðir úr heimabönkum lántakenda.

Skiptið um bankareikning eða kort

Þar sem þessum fyrirtækjum er ekkert heilagt hafa þau gripið til þess ráðs að skuldfæra beint af bankareikningum lántakenda háar upphæðir. Skuldfærsluheimildin byggist á afar víðtækum og óskýrum skilmála sem er beitt án allra fyrirvara og með mjög íþyngjandi hætti fyrir lántakendur.

Enn sem komið er, er eina leiðin til að koma í veg fyrir slíkar skuldfærslur, að loka þeim bankareikningum/ kreditkortum sem gefin hafa verið upp þegar lán voru tekin. Hafi verið skuldfært af reikningum fólks hafa bankar aðstoðað sína viðskiptavini að krefjast endurgreiðslu. Það tekur þó tíma og bankarnir virðast ekki geta stöðvaðskuldfærslurnar þrátt fyrir beiðni viðskiptavina þar um. Þetta sýnir veikleika í bankastarfsemi sem brýnt er að taka á.

Neytendasamtökin benda á að í Danmörku eru slíkar heimildir til úttektar óskilgreindra upphæða á óskilgreindum tíma frá óskilgreindum fyrirtækjum ólöglegar og samkvæmt tilmælum Umboðsmanns neytenda í Danmörku ber bönkum að koma í veg fyrir tjón viðskiptavina sinna í tilvikum óheimilla úttekta. (sjá hér)

Neytendasamtökin hafa lengi verið á því að það sama gilti á Íslandi og hvatt bæði banka og eftirlitsaðila til að bregðast við.

Neytendasamtökin hafa séð fjölmörg dæmi um óhóflegar ofgreiðslur vegna þessara okurlána og hvetja lántakendur til að skoða stöðu sína og hætta greiðslum ef í ljós kemur að höfuðstóll ólögmætra lána hefur verið greiddur.

Fréttir í sama dúr

Breytingar á búvörulögum gegn stjórnarskrá

Aðalfundur Neytendasamtakanna 2024

Ályktanir aðalfundar

Bílastæðamál fyrir Hæstarétt

Baráttan um bílastæðin

Neytendablaðið er komið út

Takk fyrir áhugann!

 Þetta vefsvæði er kostað af árgjöldum félaga í Neytendasamtökunum.

Ef þú ert ekki þegar í samtökunum biðjum við þig að íhuga að ganga í þau. Árgjaldið er 7.900 kr.