Neytendasamtökunum barst ábending frá félagsmanni um ranga skráningu eigin þyngdar hjólhýsis. Kom í ljós að burðarþol hýsisins var fjórðungi minna en skráning sagði til um eða 170 kg í stað 212 kg.
Samtökin hafa ástæðu til að óttast að röng skráning eigin þyngdar hjólhýsa sé ekki einsdæmi og eigendur hjólhýsa hlaði þau mögulega meiri þunga en sem nemur raunverulegu burðarþoli þeirra. Það gæti haft áhrif á öryggi hjólhýsanna og skapað verulega hættu á vegum úti.
Neytendasamtökin eru frjáls félagasamtök sem reiða sig á árgjöld félagsmanna. Því fleiri félagar, þeim mun öflugri samtök.
Gerast félagi.
Gaskútar, matur, drykkjavara og ýmis útbúnaður er nánast staðalfarangur hjólhýsa og því skiptir rétt skráning eigin þyngdar afar miklu máli, svo hjólhýsi séu ekki ofhlaðin. Ekki þarf að fara mörgum orðum um hversu hættuleg ofhlaðin hjólhýsi geta verið, enda aksturseiginleikar miðaðir við að þyngd sé innan uppgefins hámarks.
Áðurnefndur félagsmaður samtakanna fór með hjólhýsi sitt á verkstæði og kom þá í ljós að öxullinn var það boginn að hjólbarðarnir voru farnir að slíta hjólskálinni. Var honum tjáð að öxullinn gæti brotnað undan hjólhýsinu á hverri stundu með alvarlegum afleiðingum. Félagsmaðurinn sagði þetta stærra mál en svo að það snerti einungis hann og hans fólk. Það væri grafalvarlegt ef fjöldi ranglega skráðra hjólhýsa væru á vegum landsins og eigendur vissu jafnvel ekki af því.
Skráð eigin þyngd hjólhýsisins var 1.488 kg en hefði átt að vera 1.530 kg og var hýsið því í raun 42 kg þyngra en skráningin sagði til um. Þó einungis muni um 3%, þá er leyfileg hámarksþyngd þess 1.700 kg og minnkar burðargeta hýsisins úr 212 kg í 170 kg, eða um 20%. Eðli máls samkvæmt leiddi það til þess að raunverulegt viðbótarburðarþol hýsisins er umtalsvert minna en eigandinn mátti gera ráð fyrir samkvæmt opinberri skráningu. Félagsmaðurinn hefur nú vísað máli sínu til Kærunefndar vöru og þjónustukaupa sem tekur það til meðferðar.
Neytendasamtökin settu sig í samband við Samgöngustofu sem skráir ökutæki og önnur skráningarskyld tæki í ökutækjaskrá. Taldi Samgöngustofa að um einsdæmi væri að ræða, að starfsmaður hefði farið línuvillt við skráningu og að unnið væri að því að bæta vinnulag svo þetta endurtæki sig ekki. Benti Samgöngustofa á ríka skoðanaskyldu kaupanda ökutækja sem og að upplýsingar um eiginþyngd kæmu fram í samræmingarvottorði eða erlendu skráningarskírteini. Benti stofnunin á að gott væri fyrir eigendur að halda eftir afriti þeirra gagna. Séu eigendur í vafa sé þeim ávallt velkomið að hafa samband við Samgöngustofu sem muni leiðbeina þeim.
Hjólhýsaeigendur kanni raunverulega þyngd
Neytendasamtökin hafa ávæning um fleiri ranglega skráð hjólhýsi og nú þegar í hönd fer tími þar sem eigendur hjólhýsa fara að huga að ferðalögum, hvetja samtökin hjólhýsaeigendur til að setja sig í samband við Samgöngustofu, óska eftir samanburði á skráðri eigin þyngd í samræmingarskírteini eða erlendu skráningarskírteini annars vegar og skráningarskírteini hins vegar. Sé misræmi í skráningum er eigendum bent á að óska eftir leiðréttingu. Þá hvetja samtökin hjólhýsaeigendur til að fylgjast með niðurstöðu Kærunefndarinnar, því falli hún kæranda í vil, gætu aðrir hjólhýsaeigendur átt sambærilega kröfu á hendur seljendum sínum.
Það er ekki alltaf einfalt að lesa úr og bera saman eigin þyngdir úr samræmingarskírteini eða erlendu skráningarskírteini og skráningarskírteinum til að sannreyna þær. Félagsmenn Neytendasamtakanna geta óskað eftir því að samtökin kanni þetta fyrir þá með því að senda tölvupóst til Neytendasamtakanna og Samgöngustofu sem gæti litið svona út:
Til: ns@ns.is og samgongustofa@samgongustofa.is
Efni: Ósk um skráningarskírteini hjólhýsis
Til þess er málið varðar:
Ég óska eftir því að Neytendasamtökin fái afrit af skráningarskírteini og samræmingarskírteini eða erlendu skráningarskírteini hjólhýsis míns nr. [skráningarnúmer] til að ganga úr skugga um hvort samræmi sé í skráningu eigin þyngdar.
Með góðri kveðju,
[Nafn og kennitala]
Neytendasamtökin munu einungis nota skjölin og upplýsingarnar sem þau fá til þess að kanna samræmi skráninga og eyða þeim þegar eftir skoðun.