Fréttir

Icelandair gengur að kröfum í mætingarskyldumáli

Félagsmaður Neytendasamtakanna vakti athygli á því á samfélagsmiðlum að Icelandair hefði beitt hann svokölluðu mætingarskylduákvæði (e. No-show clause), sem Neytendasamtökin telja fara gegn góðum viðskiptaháttum og brjóta í bága við lög. Í ákvæðinu felst að ef farþegi getur ekki nýtt sér einn legg flugleiðar, fellir Icelandair niður alla aðra leggi.

Félagsmanninum þótti þetta ósanngjarnt, og eftir árangurslausar tilraunir til að fá endurgreitt tapað flug, leitaði hann til Neytendasamtakanna, sem reyndu milligöngu, en allt kom fyrir ekki. Skaut hann málinu til úrskurðarnefndar Samtaka ferðaþjónustunnar og Neytendasamtakanna, en áður en málið kom til efnislegrar meðferðar gekk Icelandair að öllum kröfum félagsmannsins og bætti honum tjónið. Icelandair bað hann þó vinsamlegast að athuga að greiðslan væri innt af hendi án viðurkenningar á ábyrgð af hálfu félagsins og með fyrirvara um réttmæti kröfunnar.

Þó Neytendasamtökunum finnist sérkennilegt að Icelandair hafni kröfum á öllum stigum, en gangi að þeim rétt áður en fjalla eigi efnislega um málið, fagna  samtökin því að Icelandair gangi að kröfum neytandans, jafnvel þó félagið hafi ekki viðurkennt sök. Líta má á það sem vísbendingu um að stjórnendur Icelandair vilji ekki fá opinbera niðurstöðu í málið, enda muni hún að líkindum ekki verða félaginu í vil.

Við hvetjum alla sem lent hafa í því að flugferð hafi verið höfð af þeim með vísan í mætingarskylduákvæðið að hafa samband við Icelandair og krefjast bóta. Því varla munu þeir mismuna farþegum sínum.  

Fréttir í sama dúr

Bílastæðamál fyrir Hæstarétt

Baráttan um bílastæðin

Neytendablaðið er komið út

Aðalfundur 22. október

Staðan í Vaxtamálinu

Smálánabaráttan

Takk fyrir áhugann!

 Þetta vefsvæði er kostað af árgjöldum félaga í Neytendasamtökunum.

Ef þú ert ekki þegar í samtökunum biðjum við þig að íhuga að ganga í þau. Árgjaldið er 7.900 kr.