Fréttir

Afstaða stjórnmálaflokkanna til neytendamála

iStock.com/Sensvector

Neytendasamtökin hafa sent eftirfarandi þrjár spurningar til allra stjórnmálaflokka í framboði til alþingis 2024 og óskað eftir svörum eigi síðar en á hádegi fimmtudaginn 28. nóvember nk.

Arðsemisþak á rafmagn til heimila
Nýafstaðinn aðalfundur Neytendasamtakanna krafðist þess að stjórnvöld setji arðsemisþak á sölu rafmagns til heimila, líkt og er á heitu vatni, köldu vatni og á flutningi rafmagns. Sjá nánar hér: https://ns.is/alyktanir-adalfundar/ Hvað ætlar þinn flokkur að gera í málinu, hvernig og hvenær?

Þak á innheimtukostnað
Neytendasamtökin hafa lengi gert kröfu um að þak verði sett á innheimtukostnað líkt og þekkist í nágrannalöndunum. Sjá nánar hér: https://ns.is/wp-content/uploads/2022/08/DMR-Hamark-a-innheimtukostnad.pdf. Hvað ætlar þinn flokkur að gera í málinu, hvernig og hvenær?

Helstu neytendamálin
Hver eru þrjú helstu neytendamál sem þinn flokkur ætlar að berjast fyrir á næsta kjörtímabili og hvernig?

Afstaða stjórnmálaflokkanna birtast hér eftir því sem þau berast:

Framsóknarflokkurinn:

Arðsemisþak á rafmagn til heimila
Hvað
: Framsókn vill tryggja verðvernd á orku fyrir heimili og forgangsröðun á orkuþörf heimila. Það er lykilatriði í því að tryggja að fjölskyldur hafi aðgang að hagkvæmri, stöðugri og aðgengilegri orku, sérstaklega í ljósi yfirvofandi orkuskorts.
Hvernig: Framsókn vill setja hámarksverð á orku fyrir heimili, sem tryggir að grundvallarorkuþörf verði uppfyllt á sanngjörnu verði, óháð sveiflum á markaði. Einnig vill Framsókn leggja fram frumvarp á Alþingi sem tryggir það í lögum að heimili njóti forgangs orku, sérstaklega við skortsaðstæður.
Hvenær: Strax á næsta kjörtímabili.

Þak á innheimtukostnað
Hvað: Framsókn vill tryggja aðhald á fjármálamarkaði og aukna neytendavernd tengdri fjármálaþjónustu. Flokkurinn hefur ekki tekið afstöðu varðandi þak á innheimtukostnaði, en það gæti verið ein þeirra leiða til að tryggja bætta neytendavernd, sérstaklega fyrir fólk í viðkvæmri stöðu í samfélaginu.
Hvernig: Nauðsynlegt er að fara í heildarendurskoðun á löggjöf á sviði neytendamála. Í þeirri vinnu er mikilvægt að skoða hvort þörf sé á þaki á innheimtukostnaði, sem getur reynst mjög hár miðað við upphæð kröfunnar sem verið er að innheimta.
Hvenær: Strax á næsta kjörtímabili.

Þrjú helstu neytendamál á næsta kjörtímabili:
1: Auka þarf neytendavernd tengda fjármálaþjónustu og tryggja aðhald á fjármálamarkaði.
2: Auka þarf neytendavernd m.t.t. tækniþróunar og aukinna umsvifa netviðskipta.
3: Huga þarf að stöðu viðkvæmra hópa, svo sem börnum, eldri borgurum og fólki með fötlun, með sérstökum verndarráðstöfunum á sviði neytendamála.
Hvernig: Fara í heildarendurskoðun á löggjöf á sviði neytendamála. Einnig þarf að endurskoða regluverk smálánafyrirtækja og skoða sérstakar verndarráðstafanir á sviði neytendamála gagnvart börnum, eldri borgurum og fólki með fötlun. Seðlabanki Íslands þarf einnig heimildir til þess að koma á fót innlendri greiðslumiðlun sem lækkar kostnað fyrir neytendur og íslenska söluaðila.

Miðflokkurinn

Arðsemisþak á rafmagn til heimila
Miðflokkurinn hefur lagst gegn því að félög sem hafi einokunarstöðu á sviði almannaþjónustu séu einkavædd og sett undir arðsemismarkmið. Hiti, vatn og rafmagn hljóta að lúta öðrum lögmálum en aðrar vörur þegar gerð er arðsemiskrafa til starfsemi þeirra fyrirtækja sem selja eða þjónusta þessar „vörur.

Þak á innheimtukostnað
Þarna er brýnt að tryggja að ekki sé gengið of nærri skuldurum í veikri stöðu og Miðflokkurinn er tilbúinn að skoða leiðir til þess eins og hann hefur ávallt gert. Þingmenn Miðflokksins hafa í ræðu og riti viljað treysta stöðu skuldara og meðal annars flutt svokallað lyklafrumvarp á þingi. Markmið frumvarpsins er að stuðla að vandaðri lánastarfsemi með því að færa skuldurum að fasteignalánum í hendur þann möguleika að láta af hendi veðandlag lána sinna.

Þrjú helstu neytendamál á næsta kjörtímabili:
Miðflokkurinn vill horfa til hagsmuna neytenda á margvíslegan hátt og styrkja stöðu þeirra sem best. Það getur falist í lagasetningu og eflingu annarra úrræða. Miðflokkurinn hefur lagt fram frumvörp sem styðja hlut neytenda þegar kemur að stöðu skuldara og hollustu matvæla. Miðflokkurinn hefur viljað jafna stöðu neytenda um allt land á sem flestum sviðum. Miðflokkurinn mun áfram horfa til allra framfaramála þegar kemur að neytendum.

Samfylkingin

Arðsemisþak á rafmagn til heimila
Hvað:
Samfylkingin hefur lagt fram þingsályktunartillögu um breytingar á raforkulögum til að tryggja raforkuöryggi almennings. Hluti af því að tryggja heimilum og minni fyrirtækjum raforkuöryggi er að tryggja þessum hópum ákveðna vernd gegn verðhækkunum.
Hvernig: Að mati Samfylkingarinnar eru amk tvær leiðir færar. Annars vegar að leggja skatta á orkufyrirtæki sem nýttir yrðu til niðurgreiðslu á rafmagni til almennings og hins vegar að setja arðsemisþak á sölu rafmagns til heimila. Samfylkingin er reiðubúin til að skoða báðar leiðir megi það verða til þess að tryggja neytendur gegn óhóflegum verðhækkunum.
Hvenær: Strax á næsta kjörtímabili.

Þak á innheimtukostnað
Hvað: Á síðasta kjörtímabili lagði þingflokkur Samfylkingarinnar í tvígang fram frumvarp til breytinga á á innheimtulögum og lögum um lögmenn sem kveður á um hámark innheimtukostnaðar. Frumvarpið náði þó ekki fram að ganga á þinginu en Samfylkingin mun tryggja að frumvarpið verði að lögum komist flokkurinn til valda.
Hvernig: Með breytingum á innheimtulögum og lögum um lögmenn sem verja lántakendur gegn ósanngjörnum aðferðum innheimtufyrirtækja við innheimtu á smærri kröfum og koma í veg fyrir að kostnaður lántakanda vegna innheimtukostnaðar og löginnheimtu verði hærri en höfuðstóll kröfunnar sem til innheimtu er.
Hvenær: Strax á næsta kjörtímabili.

Þrjú helstu neytendamál á næsta kjörtímabili:
1. Lækkun vaxta og að tryggja efnahagslegan stöðugleika er stærsta hagsmunamál neytenda. Óstjórn í efnahagsmálum hefur leitt til þess að heimili landsins borguðu 40 milljörðum meira í húsnæðisvexti í fyrra en 2021. Til þess að kveða niður vexti og verðbólgu ætlar Samfylkingin að lögfesta stöðugleikareglu, taka til í ríkisrekstrinum og taka upp skynsamleg auðlindagjöld, sjá nánar í Framkvæmdaplani í húsnæðis- og kjaramálum.
2. Ráðast í bráðaaðgerðir á húsnæðismarkaði til að tryggja ungu fólki, fjölskyldum og þeim efnaminni öruggt húsnæði á viðráðanlegu verði. Þetta gerum við með því að tryggja að fleiri íbúðir nýtist sem heimili fólks, liðka fyrir uppbyggingu færanlegs húsnæðis og skapa hvata til að breyta vannýttu atvinnuhúsnæði í íbúðir.
3. Samfylkingin vill tryggja fólki öruggar tekjur út ævina. Annars vegar með umfangsmikilli endurskoðun á fæðingarorlofslöggjöfinni þar sem lögð er áhersla á að tryggja afkomuöryggi foreldra og hækka lágmarksgreiðslur og koma þróun barnabóta í fastari skorður. Þá vill Samfylkingin hækka lífeyrisgreiðslur öryrkja og eldra borgara í takt við launavísitölu, hækka frítekjumark ellilífeyris úr 25 þúsund í 60 þúsund og að lokum koma á frítekjumarki vaxtatekna og fækka þar með óvæntum og harkalegum bakreikningum frá TR til eldri borgara.

Viðreisn

Arðsemisþak á rafmagn til heimila
Hvað:
Viðreisn tekur undir sjónarmið NS um að taka verður alvarlega raforkuöryggis almennings og að hluti þess sé að raforkuverð sé fyrirsjáanlegt. Gæta verður þó að, að raforka er vara á samkeppnismarkaði og ef sá markaður á að virka sem slíkur verður að takmarka afskipti hins opinbera af honum.
Hvernig: Leita verður leiða til að tryggja raforkuöryggi almennings án þess að skerða samkeppnishæfni framleiðenda. Til þess verður að leita víðtæks samráðs allra hagaðila og opinberra eftirlitsaðila. Arðsemisþak kann að vera ein leiðin, en hún er ekki eini valkosturinn. Mikilvægast er að allir séu sammála um markmiðið. 
Hvenær: Eins og víðar hefur innbyrðis störukeppni fráfarandi ríkisstjórnarflokka reynst samfélaginu dýrt. Ljóst er að orkuöryggi almennings og heimila er viðfangsefni sem þolir litla bið.

Þak á innheimtukostnað
Svar barst ekki.

Þrjú helstu neytendamál á næsta kjörtímabili:
Svar barst ekki.

Sósíalistaflokkurinn

Arðsemisþak á rafmagn til heimila
Landsmenn byggðu upp orkufyrirtæki í þeirri trú að það myndi tryggja þeim öruggt og ódýrt rafmagn og hita. Þetta er einn af grunnþáttum þess sem kalla mætti íslenska samfélagssáttmálann. Það er stefna Sósíalista að orkuöflun, -dreifing og -sala sé rekin á félagslegum grunni með það markmið að standa við þennan sáttmála.

Þak á innheimtukostnað
Sósíalista styðja baráttu Neytendasamtakanna gegn okri í innheimtu, sem og á öðrum sviðum. Stjórnvöldum ber að verja þá sem standa veikt fyrir þeim sem hafa sterka stöðu. Þetta á ekki síst við þá sem lenda í vanda vegna skulda. Það er sjálfsögð réttlætisvernd að verja það fólk fyrir óhóflegum innheimtukostnaði sem er ekki í neinu samhengi við tilefni.

Þrjú helstu neytendamál á næsta kjörtímabili:
1. Sósíalistar hafa lagt til að Neytendasamtökin séu fjármögnuð af hlutfalli virðisaukaskatts af almennum neysluvörum svipað og verkalýðsfélög eru fjármögnuð af hlutfalli af launum. Það er forsenda þess að byggja upp réttlátari markaði að fjöldinn, sem stendur veikar gagnvart hinum sterku, skipuleggi hagfsmunabaráttu sína.
2. Sósíalistar styðja breytingar á lögum sem opna fyrir og styðja hópmálsóknir og breikkun skilgreiningar á skaðabótum svo neytendur og almenningur geti sótt bætur vegna okurs í skjóli fákeppni og einokunar.
3. Sósíalistar vilja auðvelda stofnun samvinnufyrirtækja, meðal annars samvinnufélaga neytenda, sem geta veitt hagnaðardrifnum kapítalískum fyrirtækjum samkeppni.

Píratar

Arðsemisþak á rafmagn til heimila
Hvað:
Píratar ætla að standa með almenningi og smærri notendum þannig að þeim sé tryggt aðgengi að áreiðanlegri endurnýjanlegri orku á viðráðanlegu verði og að fólk sitji við sama borð hvar sem er á landinu.
Hvernig: Með því að lögfesta forgangsrétt almennings að raforku og skilgreina hvernig tryggja megi orkuframboð til heimilanna á viðráðanlegu verði. Þá viljum við setja raunhæfa áætlun um sjálfbæra orkuþörf til framtíðar, þar sem fókusinn er færður frá mengandi orkufrekum iðnaði í átt að sjálfbærri atvinnustarfsemi.
Hvenær: Fara verður strax í það að lögfesta forgangsrétt heimilanna að raforku á viðráðanlegu verði og klára þá vinnu fyrir lok næsta árs. Samhliða verður að hefja vinnu við mótun sjálfbærrar iðnaðar- og ferðaþjónustustefnu og endurskoða mat á orkuþörf í takt við minni áherslu á stóriðju og orkufrekan iðnað. Mikilvægt er að vanda til verka við slíka vinnu og er raunhæft að klára hana á 2-3 árum. Loks verður að tryggja að öll ný orkuöflun fari í orkuskipti.
Raunhæfa áætlun um orkuþörf þarf að gera sem fyrst á næsta kjörtímabili en hún verður að byggja á ítarlegri greiningu sjálfbæra iðnaðar- og ferðaþjónustu. Það hefur verið holur hljómur í ofuráherslu fráfarandi ríkisstjórnar á virkjunarmál á sama tíma og hún hefur ekki lögfest forgang almennings og raunverulegra orkuskipta.

Þak á innheimtukostnað
Þak á innheimtukostnað rímar vel við grunnstefnu Pírata um réttindi borgaranna, mannréttindi og um að jafna aðstöðu þeirra sem eru í meiri forréttindastöðu gagnvart þeim sem standa hallari fæti. Í efnahagsstefnu Pírata fyrir kosningarnar 2024 er almannahagsmunum forgangsraðað umfram sérhagsmuni. Píratar vilja uppræta fátækt og minnka kostnað almennings með því að standa með neytendum. Píratar leggja áherslu á sanngjörn og réttlát kerfi og hafa ávallt verið í forystu í baráttunni gegn spillingu. Komist Píratar í ríkisstjórn verða öll kerfi endurskoðuð með hagsmuni almennings umfram sérhagsmuni hinna valdameiri að leiðarljósi.
Indriði Ingi Stefánsson, varaþingmaður Pírata í suðvesturkjördæmi, beindi fyrirspurn til ráðherra um útfærslu á þaki á innheimtukostnaði, sjá hér https://www.althingi.is/altext/153/s/1595.html.

Þrjú helstu neytendamál á næsta kjörtímabili:
1. Við viljum stórauka framboð á hágæða húsnæði og setja hömlur á ófyrirsjáanlega vexti og verðtryggð lán.
2. Við viljum fjárfesta í stofnunum sem hafa eftirlit með hagsmunum almennings eins og Samkeppniseftirlitinu og Neytendastofu ásamt því að efla til muna skatteftirlit og rannsóknir á spillingu. 
Með því að auka fjárframlög til Samkeppniseftirlitsins og skattrannsókna og setja á fót stofnun sem rannsakar spillingu.
3. Píratar vilja  fasa út verðtryggingu koma böndum á ófyrirsjáanlegt vaxtaumhverfi á húsnæðislánum. Píratar ætla að ráðast í stórfellda uppbyggingu á húsnæði með aðkomu, ríkis, sveitarfélaga, lífeyrissjóða og verkalýðsfélaga í góðu samstarfi við framkvæmdaraðila. 

Vinstri græn

Arðsemisþak á rafmagn til heimila
Festa þarf í lög forgang heimila á afhendingu orku. Við verðlagningu raforku þarf að tryggja neytendavernd orkuverðs gagnvart heimilum og litlum og meðalstórum fyrirtækjum. Ein leið til þess er að koma á arðsemisþaki. 

Þak á innheimtukostnað
Innleiða þarf hámark á heildar innheimtukostnað og líta má þar til hinna Norðurlandanna. Innheimtukostnaður á ekki að vera hærri en lánið sjálft.

Þrjú helstu neytendamál á næsta kjörtímabili:
1. Efla hringrásarhagkerfið m.a. með því að innleiða á endurgreiðslukerfi fyrir viðgerðir á rafmagnstækjum og öðrum varningi.
2. Tryggja þarf skjótfarnar og skilvirkar leiðir fyrir neytendur að leita réttar síns, greiða úr ágreiningi og koma því til leiðar að niðurstaða í deilumálum neytenda og söluaðila sé virt.
3. Gera ætti grænþvott refsiverðan.

Sjálfstæðisflokkurinn

Arðsemisþak á rafmagn til heimila
Innviðir samfélagsins skipta almenning og atvinnulífið miklu máli og eru þáttur í því að tryggja lífsgæði, velferð og samkeppnishæfni Íslands. Sjálfstæðisflokkurinn leggur áherslu á að tryggja afhendingaröryggi raforku með öflugu flutningskerfi um allt land. Í því sambandi þarf jafnframt að tryggja að verðlagning sé sanngjörn óháð staðsetningu.
Nauðsynlegt er að ríkið setji skýra eigendastefnu gagnvart orkufyrirtækjum og raforkuflutningsfyrirtækjum í eigu ríkisins. Stjórnvöld þurfa að skilgreina ábyrgð á því að tryggja fullnægjandi framboð raforku til heimila og annarra almennra notenda og tryggja jafnframt orkuöryggi landsins.
Sjálfstæðisflokkurinn leggur áherslu á að Íslendingar haldi forystu í grænni orkubyltingu og hverfi frá notkun jarðefnaeldsneytis. Forsenda þess er stóraukin orkuframleiðsla með nýtingu endurnýjanlegra orkugjafa. Einfalda þarf flókið regluverk og tímafrekt ferli leyfisveitinga til nýtingar grænna orkuauðlinda.

Þak á innheimtukostnað
Sjálfstæðisflokkurinn leggur almenna áherslu á að tryggja neytendavernd. Þá er ekki síst mikilvægt að tryggja rétt lánveitenda jafnt sem skuldara. Um vandrataðan veg er að ræða. Nú þegar er að finna þak á frum- og milliinnheimtukostnað og leiðbeinandi reglur um hámark löginnheimtukostnaðar. Mögulegt er að fá mat bæði úrskurðarnefndar LMFÍ og dómstóla á lögfræðiinnheimtukostnaði sem talinn er of hár. Skoða má að taka kerfið til heildstæðrar endurskoðunar til að tryggja enn frekar rétt neytenda í þessum málum.

Þrjú helstu neytendamál á næsta kjörtímabili:
1. Minni verðbólga og lægri vextir með áframhaldandi ábyrgri stjórn ríkisfjármála.
2. Meira framboð íbúðarhúsnæðis – Byggja þarf meira, hraðar og hagkvæmar.
3. Aukið framboð af orku og aukið orkuöryggi með stóraukinni orkuöflun, stórbættu flutningskerfi, hraðari uppbyggingu virkjanakosta og einfaldari leyfisveitingum.

Hvorki hafa borist svör frá Lýðræðisflokknum né Ábyrgri framtíð.

Fréttir í sama dúr

Opnunartími yfir hátíðirnar

Droppshipping – ekki er allt sem sýnist

Breytingar á búvörulögum gegn stjórnarskrá

Aðalfundur Neytendasamtakanna 2024

Ályktanir aðalfundar

Bílastæðamál fyrir Hæstarétt

Takk fyrir áhugann!

 Þetta vefsvæði er kostað af árgjöldum félaga í Neytendasamtökunum.

Ef þú ert ekki þegar í samtökunum biðjum við þig að íhuga að ganga í þau. Árgjaldið er 7.900 kr.