Héraðsdómur telur að klúður í reglusetningu ráðherra komi í veg fyrir lögbann á innheimtu ólögmætra smálána. Héraðsdómur hefur því hafnað lögbanni í máli sem Neytendasamtökin höfðuðu gegn Almennri innheimtu ehf. en að mati dómarans hafa Neytendasamtökin ekki heimild til þess að fara í lögbannsmál. Ástæðan eru mistök við laga- og reglugerðarsmíð hjá stjórnvöldum. Ætlun löggjafans hafi verið að veita Neytendasamtökunum þessa heimild en vegna klúðurs stjórnvalda misfórst það.
Neytendasamtökin telja að hér opinberist enn og aftur hversu víða er pottur brotinn þegar kemur að því að tryggja neytendavernd. Það er skýlaus krafa samtakanna að stjórnvöld bæti hið fyrsta úr þessum ágalla enda óásættanlegt að jafn mikilvægt mál og hér um ræðir falli á tæknilegum mistökum stjórnvalda. Neytendasamtökin íhuga nú næstu skref.
Ecommerce2020 kært til lögreglu
Forsaga málsins er sú að í september sl. fóru Neytendasamtökin fram á lögbann á innheimtu smálána sem fyrirtækið Almenn innheimta sinnir enda staðfest að láning standast ekki lög. Um er að ræða innheimtustarfsemi fyrir fyrirtækin E-content ehf. og Ecommerce2020 sem bæði hafa verið uppvís af því að veita smálán með ólöglegum okurvöxtum. Þess má geta að Ecommerce2020 hefur nú hætt útlánastarfsemi þar sem danska fjármálaeftirlitið hefur kært fyrirtækið fyrir brot á lögum um peningaþvott, sjá https://www.ecommerce2020.dk/redeg%C3%B8relse-ecommerce-2020-aps.pdf
Ekkert eftirlit með starfseminni
Ástæða þess að farið var fram á lögbann gegn Almennri innheimtu er að ekki hefur verið hægt að kæra starfsemina til eftirlitsaðila vegna undanþágu í innheimtulögum sem heimilar lögmönnum og fyrirtækjum í þeirra eigu að stunda innheimtustarfsemi. Almenn innheimta fellur því ekki undir eftirlit Fjármálaeftirlitsins og þarf ekki innheimtuleyfi.
Almenn innheimta hefur ekki einungis innheimt hin ólögmætu lán, heldur hefur fyrirtækið lagt háan innheimtu- og vanskilakostnað á slík lán og ítrekað hótað og sett lántakendur á vanskilaskrá standi þeir ekki í skilum. Þá skipti engu máli þótt fólk hefði jafnvel verið búið að ofgreiða lánini og átti réttmæta kröfu á smálánafyrirtækið um endurgreiðslu ofgreidds kostnaðs.
Ólögmæt starfsemi um árabil
Neytendasamtökin vilja að gefnu tilefni árrétta að neytendavernd felst í því að ólögmæt starfsemi á markaði sé stöðvuð þannig að neytendur verði fyrir sem minnstu tjóni. Neytendur eiga að geta treyst því að ólögmæt starfsemi fái ekki þrifist og það er á ábyrgð stjórnvalda hverju sinni að tryggja að svo sé. Smálánafyrirtækin áttu aldrei að komast upp með brotastarfsemi svo árum skipti og Almenn innheimta hefði aldrei átt að geta innheimt hin ólögmætu lán. Þá á ekki að vera mögulegt að skrá fólk á vanskilaskrá vegna vanskila á ólögmætum kröfum.
Neytendasamtökin hvetja stjórnvöld til að gera tafarlaust breytingar á innheimtulögum þannig að ekkert innheimtufyrirtæki geti starfað eftirlitslaust og án innheimtuleyfis og jafnframt gera nauðsynlegar lagabreytingar þannig að lögbann sé raunhæft úrræði þegar stöðva þarf starfsemi sem brýtur í bága við lög.