Fréttir

Lokanir líkamsræktarstöðva og sundstaða vegna samkomubanns

Margar fyrirspurnir hafa borist Neytendasamtökunum varðandi réttarstöðu neytenda sem hafa gert áskriftarsamninga við líkamsræktarstöðvar, eiga árskort á sundstað eða aðra sambærilega staði, en geta ekki nýtt sér aðstöðu eða þjónustu vegna takmörkunar á samkomum í kjölfar Kórónufaraldsins.

Félagsmenn Neytendasamtakanna geta haft samband við samtökin og fengið frekari upplýsingar og aðstoð, sé þess óskað. Álag á símkerfið er mikið um þessar mundir og eru félagsmenn hvattir til að senda tölvpóst (ns@ns.is) með nafni, símanúmeri og hvað málið varðar. Sértu félagsmaður, verður haft samband við þig eins fljótt og auðið er. Hægt er að skrá sig hér.

Staða neytanda sem hafa gert slíka samninga, til dæmis um aðgang að líkamsræktarstöð í ákveðið tímabil, er ekki alltaf skýr. Hafi neytandi til dæmis keypt sér mánaðarkort og líkamsræktarstöðinni er lokað eftir hálfan mánuð, á hann þá rétt að fá endurgreitt að fullu, hlutfallslega eftir því sem eftir er af tímabilinu, alls engan rétt eða má líkamsræktarstöðin færa tímabilið aftur, þar til opna má stöðina?  

Í grunninn hvíla alltaf þær skyldur á öllum samningsaðilum að samninga ber að halda. Það sama á við um líkamsræktarstöðvar, sundstaði og alla aðra. Kaupanda ber að greiða samningsbundna upphæð og stöðinni eða sundstaðnum ber að veita kaupanda aðgang að stöðinni. Hert samkomubann hefur gert það að verkum að líkamsræktarstöðvar og sundstaðir geta tímabundið ekki uppfyllt sinn enda samningsins og mætti því segja að þau séu tilneydd til að vanefna samninginn. Á meðan á þeim vanefndum stendur, má spyrja hvort eðlilegt sé að kaupandi þjónustunnar uppfylli sinn enda samningsins að fullu.

Til að svara þeirri spurningu þarf að skoða samningsskilmálana vel, svo sem hvort í þeim sé fjallað um óvenjulegar eða óviðráðanlegar aðstæður og hvernig ábyrgð er þá háttað.

Ef sérstakir skilmálar taka ekki á þessum aðstæðum geta neytendur borið fyrir sig vanefndarúrræðum á grundvelli meginreglna samninga- og kröfuréttar. Eflaust væri nærtækast að fara fram á afslátt í samræmi við hlutfall þjónustunnar sem ekki er veitt.

Dæmi: Líkamsræktandi kaupir mánaðarkort í líkamsræktarstöð sem lokar þegar tímabilið er hálfnað. Engir sérstakir samningsskilmálar gilda um þær aðstæður sem valda því að stöðinni er lokað. Seljandi þjónustunnar getur þar með ekki uppfyllt sinn enda samningsins að fullu og einstaklingurinn fer þar með fram á afslátt af kaupverði sem samsvarar hlutfalli veittrar þjónustu.

Flestar líkamsræktarstöðvar virðast ætla að bjóða viðskiptavinum sínum upp á að lengja áskriftartímabilið um þann tíma sem stöðin verður lokuð til að bæta fyrir þann tíma sem ekki er unnt að veita þjónustuna. Hugnist kaupendum slík boð er sjálfsagt að fallast á það. Neytendasamtökin telja þó hæpið að seljandi geti einhliða ákveðið hvernig afgreiða eigi málið og telja að neytendur eigi val um að fá hlutfallslega endurgreitt kjósi þeir það. Þetta á við nema annað sé ekki annað tekið sérstaklega fram í skilmálum samnings sem gerður var í upphafi.

Í almennum viðskiptaskilmálum World Class og Hreyfingar virðist ekki vera skilmáli sem tekur á aðstæðum er teljast óvenjulegar eða óviðráðanlegar.

Í skilmálum áskriftarsamnings Reebok Fitness er að finna sérstakan skilmála sem fjallar um óviðráðanlegar aðstæður. Þar segir meðal annars að við óviðráðanlegar aðstæður áskilji stöðin sér rétt til „að setja stopp (hold) á afskráningu áskrifta þar til ástandið er liðið hjá.“ Samkvæmt samtali við forsvarsmann Reebok Fitness var skilmálinn settur inn í áskriftarsamninginn í síðustu viku. Því eru þau sem gerðu áskriftarsamning fyrir þann tíma ekki skuldbundin honum. Í samtalinu kom einnig fram að áskrifendur sem segja vilja upp áskrift geti sent tölvupóst á reebokfitness@reebokfitness.is. Nauðsynlegt er að senda uppsögnina úr sama tölvupóstfangi og notað var þegar gengist var í áskrift hjá stöðinni. Þá er gott að senda Neytendasamtökunum afrit (cc).

Hér er dæmi um tölvupóst sem senda má, sértu með ótímabundinn áskriftarsamning við Reebok Fitness og vilt segja honum upp:

Til: reebokfitness@reebokfitness.is
Cc: ns@ns.is
Efni: Upsögn áskriftar


Góðan dag!
Ég segi hér með tafarlaust upp áskriftarsamningi mínum við RFC ehf. / Reebok Fitness líkamsræktarstöðvar.
Ég óska eftir staðfestingu móttöku uppsagnarinnar.
Virðingarfyllst,
(nafn og kennitala)
Afrit er sent Neytendasamtökunum til upplýsingar.

Neytendasamtökin hvetja fyrirtæki til að gæta sanngirni og virða réttindi og val neytenda í hvívetna og ávallt, en sérstaklega núna á flóknum og erfiðum tímum.

Fréttir í sama dúr

Breytingar á búvörulögum gegn stjórnarskrá

Aðalfundur Neytendasamtakanna 2024

Ályktanir aðalfundar

Bílastæðamál fyrir Hæstarétt

Baráttan um bílastæðin

Neytendablaðið er komið út

Takk fyrir áhugann!

 Þetta vefsvæði er kostað af árgjöldum félaga í Neytendasamtökunum.

Ef þú ert ekki þegar í samtökunum biðjum við þig að íhuga að ganga í þau. Árgjaldið er 7.900 kr.