Fréttir

Má verðmerkja vörur í erlendri mynt?

iStock/sacherjj

Neytendasamtökunum hafa að undanförnu borist þó nokkur fjöldi fyrirspurna og kvartana vegna verðmerkinga á varningi seldum í flugvélum flugfélagsins WOW air. Fyrirspurnir þessar snúast fyrst og fremst um það hvort leyfilegt sé að verðmerkja vörur í erlendri mynt, og hafa verð í íslenskum krónum eingöngu til viðmiðunar. Neytendur  sem til okkar hafa leitað hafa greitt hærra verð en sem nemur umræddu viðmiðunarverði í íslenskum krónum og eru eðlilega ekki sáttir við það.

Í reglum um verðmerkingar kemur skýrt fram að sú skylda hvílir á þeim sem selja vörur til neytenda að merkja þær með réttu söluverði í íslenskum krónum. Í reglunum er einnig kveðið á um sérstakar undantekningar svo sem að sé varan þess eðlis að ekki sé með góðu móti hægt að reikna út söluverð fyrirfram skuli fyrirtækið veita upplýsingar um það á hvern hátt verðið sé reiknað út.

Samkvæmt þeim svörum sem okkur hefur borist frá flugfélaginu eru sölubæklingar þeirra gefnir út á u.þ.b. tveggja mánaða fresti og fer það eftir gengisbreytingum á íslensku krónunni gagnvart bandaríkjadal hverju sinni hvort að viðmiðunarverðið sé hærra, jafnhátt eða lægra en hið endanlega verð. Getur því veiking krónunnar að undanförnu skýrt þann fjölda fyrirspurna sem okkur hefur borist, en mismunur á því verði sem að neytendur hafa greitt og viðmiðunarverðinu hleypur oft á nokkrum þúsundum.

Neytendasamtökin hafa sent erindi á Neytendastofu og óskað eftir því að umrætt fyrirkomulag fyrirtækisins verði tekið til skoðunar og metið verði hvort það sé lögmætt að verðmerkja vörur í erlendri mynt, en hafa hið íslenska verð einungis til viðmiðunar.

Fréttir í sama dúr

Opnunartími yfir hátíðirnar

Droppshipping – ekki er allt sem sýnist

Afstaða stjórnmálaflokkanna til neytendamála

Breytingar á búvörulögum gegn stjórnarskrá

Aðalfundur Neytendasamtakanna 2024

Ályktanir aðalfundar

Takk fyrir áhugann!

 Þetta vefsvæði er kostað af árgjöldum félaga í Neytendasamtökunum.

Ef þú ert ekki þegar í samtökunum biðjum við þig að íhuga að ganga í þau. Árgjaldið er 7.900 kr.