Að tryggja rétt notenda

Finnsku neytendasamtökin hafa um árabil sinnt ráðgjöf til notenda heilbrigðisþjónustunnar.

Finnsku neytendasamtökin sinna mjög áhugaverðu og mikilvægu verkefni. Það snýst um ráðgjöf og upplýsingagjöf til notenda heilbrigðisþjónustunnar.

Fyrir um áratug hófu finnsku neytendasamtökin Kuluttajaliitto samstarf við lítil en öflug samtök sem höfðu á að skipa einum starfsmanni og sinntu hagsmunagæslu fyrir skjólstæðinga heilbrigðiskerfisins. Samstarfið gekk svo vel að ákveðið var að sameina samtökin og veita þjónustuna undir merkjum finnsku neytendasamtakanna. Samtökin hafa fengið til þess styrki hjá opinberum sjóði sem styrkir frjáls félagasamtök sem vinna á sviði heilbrigðis- og velferðarmála.

Málum vísað í réttan farveg

Julia Lumijärvi sinnir þessari þjónustu í dag en hún er bæði menntuð tannlæknir og lögfræðingur. Í samtali við Neytendablaðið segir Julia að hennar helsta starf sé að veita fólki ráðgjöf um rétt sinn. „Fólk sem leitar til okkar er oft ósátt við þá þjónustu sem það hefur fengið og er að velta fyrir sér hvað sé til ráða. Ég upplýsi fólk um réttindi sín og hvert rétt sé að beina kvörtunum.“ Julia tekur fram að hún veiti aldrei ráðleggingar sem snúi að meðferðarúrræðum enda sé slíkt á verksviði heilbrigðisstarfsmanna. Ráðgjöfin nær einnig til notenda félagsþjónustunnar.

Julia Lumijärvi

Reynsla sem nýtist

Sú mikla reynsla sem finnsku neytendasamtökin búa nú yfir hefur leitt til þess að þau eru beðin um að sitja í margs konar vinnuhópum og ráðum sem fjalla um réttindi og öryggi notenda heilbrigðis- og félagsþjónustu. Samtökin sinna einnig hagsmunabaráttu með því að beita sér fyrir lagabreytingum sem tryggja bætt réttindi og öryggi skjólstæðinga kerfisins.

Julia segir að þótt heilbrigðiskerfið í Finnlandi þyki almennt gott glími Finnar við sams konar vandamál og aðrar þjóðir, svo sem skort á heilbrigðisstarfsfólki og langa biðlista. Finnska þjóðin er auk þess að eldast hratt en fæðingartíðnin er mjög lág, eða 1,32. Til að viðhalda mannfjölda þarf fæðingartíðni að vera 2,1. Þess má geta að samkvæmt gögnum Hagstofunnar var fæðingartíðni á Íslandi 1,59 árið 2023 og hefur aldrei mælst lægri.

Að tala mannamál

Neytendasamtökin finnsku gefa út sérstakt blað þar sem finna má fróðleik um hvaðeina sem snýr að notendum heilbrigðis- og félagsþjónustu. Blaðið er öllum aðgengilegt og kemur út tvisvar á ári. Sérstök áhersla er á réttindi og öryggi notenda. Sjá má viðtal við sérfræðing í því sem kallast „skýr samskipti“ (e. plain language). Lögð er áhersla á að einfalda flókinn texta og skilaboð til að minnka líkur á misskilningi milli sérfræðinga og skjólstæðinga þeirra. Þetta samskiptaform getur einnig bætt samskipi milli starfsmanna á heilbrigðisstofnunum sem hafa ólíka menntun og bakgrunn.

Þá er viðtal við sérfræðing í sjúklingaöryggi. Finnar lögðu fram skýra aðgerðaáætlun þegar árið 2009 en stefna nú að því að verða fyrirmyndarland á þessu sviði.

Ekki er síður áhugavert að lesa um niðurstöður fjölbreyttra kærumála en Julia segir að notendur kerfisins hafi ýmsa möguleika til að koma kvörtunum á framfæri og geti kallað eftir úrskurði þar til bærra aðila ef þeir telja á sér brotið.

Julia segir ekki útlit fyrir annað en að neytendasamtökin muni áfram sinna þessu mikilvæga verkefni enda eftirspurn eftir þjónustunni.

Neytendablaðið 2. tbl 2024

 

Deila:

Facebook
Twitter
Póstur

Fleira áhugavert

Hið ósanngjarna ábyrgðamannakerfi fékk viðgengist allt of lengi í íslensku samfélagi. það reyndist mörgum dýrkeypt.
Neytendur geta í flestum tilfellum borið ágreining undir úrskurðarnefndir, en það er ekki svo ef málið snýr að heilbrigðisþjónustu.
Mikil áhersla er lögð á réttindi og öryggi notenda heilbrigðisþjónustu í Finnlandi. Net umboðsmanna og raunhæf úrræði grípa fólk sem lendir í vanda.
Finnsku neytendasamtökin hafa um árabil sinnt ráðgjöf til notenda heilbrigðisþjónustunnar.