Bakkmyndavélar og áfengismælar

Þrátt fyrir að hægt sé að bæta umferðaröryggi sitja sjálfsagðar úrbætur oft á hakanum

Októberkvöld eitt árið 2002 varð bandaríski barnalæknirinn Greg Gulbransen fyrir þeirri hræðilegu lífsreynslu að bakka á tveggja ára gamlan son sinn sem lést samstundis. Gulbransen tók ákvörðun um að berjast fyrir löggjöf sem kæmi í veg fyrir slys af þessu tagi og tók sú barátta rúman áratug. Snemma í ferlinu fór Gulbransen, ásamt fulltrúa bandarísku neytendasamtakanna Consumer Reports, til fundar við þingmenn til að kynna þeim málið og var þeim vel tekið. Frumvarp var lagt fram árið 2005 og þremur árum síðar staðfesti George Bush, þáverandi forseti, lög sem kennd eru við Gulbransen og Cameron, son hans. Málið var þó fjarri því í höfn því næsta skref voru tilraunir með mismunandi tækni og varð niðurstaðan sú að bakkmyndavélar kæmu best út. Ráðuneyti samgöngumála lagði því næst fram drög að reglugerð þess efnis að allir nýir bílar yrðu útbúnir bakkmyndavélum árið 2014 en innleiðing skyldi hefjast 2012.

Stefnt fyrir að tefja málið

Samgönguráðuneytið dró úr hófi fram að setja reglugerð en Gulbransen lét ekki deigan síga. Hann vakti athygli á stöðunni í fjölmiðlum, fundaði með kjörnum fulltrúum og með aðstoð neytenda- og annarra baráttusamtaka stefndi hann ríkinu fyrir töfina. Gulbransen sagði síðar í viðtali við veftímaritið fatherly.com að bakslagið hefði dregið úr honum mátt sem og neikvæð ummæli sem hann mátti þola frá fólki vegna slyssins. En hann skuldaði syni sínum að taka þennan slag og því var ekki í boði að gefast upp. Árið 2014 dró til tíðinda. Gulbransen mætti fyrir nefnd samgönguráðuneytisins í sömu viku og yfirmenn General Motors þurftu að svara fyrir alvarlegan galla tengdan loftpúðum, sem kostað hafði mannslíf. Stjórnvöld þurftu sárlega á jákvæðri umfjöllun að halda og fór svo að reglugerðin var loks innleidd, mörgum árum seinna en þingið hafði upphaflega áætlað. Frá og með maí 2018 hafa allir nýir bílar verið með bakkmyndavél sem staðalbúnað. Í Evrópu er miðað við að allir nýir bílar verði með bakkmyndavélar eða skynjara innan fárra ára.

Bakkmyndavélar sem aukabúnaður

Bakkmyndavél er bæði ódýr og óumdeildur öryggisbúnaður og áratugir eru síðan þessi tækni var fyrst kynnt til leiks. Það má því spyrja hvers vegna bakkmyndavélar séu ekki fyrir löngu orðnar staðalbúnaður í bílum. Ein ástæðan er sú að margir bílaframleiðendur hafa hag af því að selja bakkmyndavélar sem aukabúnað. Sagan sýnir líka að framleiðendur hafa oft verið tregir til að innleiða nýjan öryggisbúnað. Jafn sjálfsagður búnaður og öryggisbelti og loftpúðar mættu mikilli andstöðu á sínum tíma. Andstaðan gegn öryggisbeltum var þó einnig mikil hjá almenningi og var því m.a. borið við að beltin væru óþægileg og að þau gætu verið hættuleg í ákveðnum aðstæðum. Það gekk því ekki þrautalaust að innleiða sætisbeltaskyldu, sem flestir telja sjálfsagða í dag.

 Tækni gegn ölvunarakstri

Tækni til að koma í veg fyrir ölvunarakstur hefur verið til staðar í mörg ár. Er um að ræða svokallaða áfengislása sem settir eru í bíla fólks sem hefur hlotið dóm fyrir ölvunarakstur. Ökumaður getur þá ekki ræst bílinn nema blása fyrst í mælinn. Þessi aðferð hefur um árabil verið nýtt í mörgum ríkjum Bandaríkjanna. Útfærslan getur verið með ýmsum hætti. Í stað þess að ökumaður missi ökuréttindi í ákveðinn tíma getur hann samþykkt áfengislás í bíl sinn. Það fer svo eftir alvarleika brotsins hversu lengi áfengislásinn er uppsettur en einnig hvort ökumaður hafi yfirhöfuð eitthvert val.

 

Mörg samtök og einstaklingar vestanhafs hafa háð harða baráttu gegn ölvunarakstri, þar á meðal samtökin Mæður gegn ölvunarakstri (Mothers against drunk driving). Í maí 2021 gáfu samtökin út uppfærða skýrslu, heilar 150 blaðsíður, þar sem útlistaðar eru allar þær aðferðir sem nú þegar er hægt að beita í baráttunni gegn ölvunarakstri og akstri þar sem ökumaður er með skerta ökuhæfni. Samtökin kölluðu eftir því að gengið yrði hratt til verks en talið er að 33% dauðaslysa í Bandaríkjunum megi rekja til ölvunaraksturs.

Þegar bíllinn veit betur

Á Vesturlöndum hefur dauðaslysum fækkað undanfarna áratugi, sem þakka má betri öryggisbúnaði í bílum og öruggari vegum. Dauðaslysum fjölgaði hins vegar mikið í Bandaríkjunum árið 2021, frá árinu 2020, sem yfirvöld segja að fyrst og fremst megi rekja til skertrar ökufærni – ekki síst ölvunaraksturs. Þessi þróun hefur eflaust átt sinn þátt í því að síðla árs 2021 skrifaði Joe Biden Bandaríkjaforseti undir lög þess efnis að árið 2026 verði allir nýir bílar útbúnir tæknibúnaði til að bæði greina og stöðva ölvunarakstur og akstur þar sem ökugetan er skert. Hugmyndin er að tæknin eigi ekki að trufla eða hefta dagfarsprúða ökumenn, þ.e. ökumaður þarf ekki að blása í mæli eða annað slíkt. Tæknin byggir því annars vegar á búnaði sem greinir áfengismagn í blóði ökumanns í gegnum andardrátt eða snertingu (t.d. á stýri) og hins vegar búnaði sem greinir ökufærni, svo sem hvort bíllinn rásar, hvort ökumaður haldi augum á veginum, hvort hann blikki óeðlilega oft og þar fram eftir götunum. Skert ökufærni getur einnig orsakast af fíkniefna- og lyfjanotkun sem áfengislás og áfengisskynjarar mæla ekki, til dæmis vegna þreytu, sjúkdóma eða truflunar svo sem vegna farsímanotkunar.

Á næstu árum verða einnig ýmsar breytingar á evrópskri löggjöf sem tryggja staðalbúnað í nýja bíla og auka umferðaröryggi. Má þar nefna veglínuvara, snjallhraðabúnað (e. intelligent speed assistance), betri sjónræna viðvörun og beygju- og árekstravörn á stærri bifreiðir svo sem rútur og flutningabíla.

Ölvunarakstur í Evrópu

Ef horft er til heimsins alls er áfengisneysla hvergi meiri en í Evrópu. Staðan er vissulega mismunandi milli landa en talið er að 25% dauðaslysa í umferðinni í álfunni megi rekja til ölvunaraksturs. Notkun áfengislása er vel þekkt í Evrópu og hafa mörg lönd keyrt tilraunaverkefni sem svo hafa leitt til lagasetningar. Má segja að notkunin sé tvíþætt. Annars vegar er um að ræða úrræði eftir að ökumaður hefur verið gripinn við ölvunarakstur, og er honum þá boðið að halda ökuréttindum gegn uppsetningu ökuláss, þó til þess geti komið að ökumaður hafi ekkert val ef brot eru ítrekuð. Hins vegar er ökulásinn notaður sem öryggistæki í ákveðnar bifreiðar. Í Finnlandi hefur til dæmis lengi verið skylt að hafa áfengislása í öllum bifreiðum sem stunda skólaakstur. Í Frakklandi er lögum samkvæmt skylt að hafa áfengislás í öllum langferðabílum og strætisvögnum, og frá og með næsta ári er skylt á Spáni að hafa áfengismæla í öllum bílum sem taka fleiri en átta manns. Frá og með miðju ári 2021 verða allar nýjar bifreiðar sem seldar eru í Evrópu að vera með stöðluðum búnaði sem hægt er að tengja við áfengislás.

Notkun áfengislása var skoðuð hér á landi fyrir tæpum áratug en þá kom út skýrsla um umferðaröryggi sem innanríkisráðherra lét vinna. Í skýrslunni kemur fram að notkun áfengislása hafi reynst vel víða erlendis. Einn af ókostum lássins er kostnaður við uppsetningu en hann var, þegar skýrslan var skrifuð, um 2–300.000 kr. og er greiddur af ökumanni. Samkvæmt heimildum Neytendablaðsins hafa ekki verið gerðar neinar tilraunir með áfengislása í bíla hérlendis.

Neytendablaðið vor 2022

Deila:

Facebook
Twitter
Póstur

Fleira áhugavert

Litarefni í mat gefa lífinu lit en þau eru jafn ólík og þau eru mörg. Sum eru náttúruleg á meðan önnur eru gerfiefni sem
Það færist í vöxt að fólk kaupi vörur af netinu í gegnum það sem kallast á ensku „dropshipping“, hvort sem fólk gerir sér grein
Gjaldtaka og arðsemi íslensku bankanna - rýnt í ársskýrslur.

Takk fyrir áhugann!

 Þetta vefsvæði er kostað af árgjöldum félaga í Neytendasamtökunum.

Ef þú ert ekki þegar í samtökunum biðjum við þig að íhuga að ganga í þau. Árgjaldið er 7.900 kr.