Bambusföt gjörla svo græn

Föt sem unnin eru úr bambus eru gjarnan markaðssett sem umhverfisvæn. En er það raunin?

Neikvæð umhverfisáhrif tískuiðnaðarins eru margvísleg. Hann er ábyrgur fyrir 10% af allri losun gróðurhúsalofttegunda í heiminum og allt stefnir í að hlutfallið verði 26% árið 2050. Þvottur á fötum losar 500.000 tonn af míkróþráðum út í sjó árlega en það jafngildir 50 milljörðum plastflaskna. Tískuiðnaðurinn notar 93 milljarða af vatnsrúmmetrum árlega og ber ábyrgð á 20% af allri iðnaðarmengun á heimsvísu. Yfir 8.000 kemísk efni eru notuð í fataframleiðslu og hafi lesendur ekki fengið nóg af upptalningunni má bæta því við að 60% af öllum textíl í fataiðnaði eru úr plasti.

Fataframleiðendur leita því eðlilega allra leiða til að koma til móts við kröfur neytenda um umhverfisvænni fatnað. Sífellt fleiri stökkva því á bambusvagninn, en ekki er allt sem sýnist í þessum efnum, líkt og rakið er í sænska neytendablaðinu Råd och Rön.

Bambustrefjum breytt í viskós

Fatnaður úr bambus er yfirleitt markaðssettur sem umhverfisvænn, ekki síst þar sem ekki eru notuð eitur- eða varnarefni á bambusinn ólíkt t.d.bómullarplöntunni. Neytendur gætu því eðlilega talið að föt úr bambus séu úr náttúrulegum trefjum bambusplöntunnar, þ.e. að trefjarnar séu unnar og spunnar þannig að úr verði dúnmjúkt dýrindis bambusefni. Það er vissulega hægt að vefa fatnað úr bambustrefjum en þá yrði efnið mjög gróft og ólíklegt til vinsælda. Til að ná þeirri mjúku áferð sem einkennir bambusföt þarf að breyta bambusnum í sellulósa sem er síðan unninn áfram og breytt í textíl sem kallast viskós (e. viscose rayon).

Framleiðsla í fjarlægum löndum

Viskós er algengur textíll, gjarnan unninn úr pappa eða trjákvoðu, og við framleiðsluna er notaður fjöldi kemískra efna.Viskósframleiðsla myndi því seint kallast umhverfisvæn en það er þó hægt að framleiða viskós á ábyrgan hátt. Það er meðal annars gert með því að tryggja að kemísku efnin sé sett í réttan farveg og jafnvel endurnýtt. Það þýðir jafnframt hærra verð. Í Evrópu eru gerðar ríkar kröfur til framleiðslunnar, svo sem að fráveituvatn skuli hreinsað. Engin trygging er fyrir því að framleiðsla á viskós í fjarlægum löndum sé í góðum farvegi. Reyndar eru allar líkur á því að lægri framleiðslukostnaður komi einmitt til af því að umhverfiskröfur eru minni og aðbúnaður verkafólks verri en á Vesturlöndum. Fyrr á árum var viskós aðallega framleitt í Bandaríkjunum og Bretlandi, þar sem það kom fyrst á markað, en í dag er Kína langstærsti viskósframleiðandi í heimi.

Bambus - harðgerð grastegund

Bambus flokkast sem grastegund og dafnar best í kringum miðbaug. Bambus vex hraðast allra plantna í heiminum og til eru ótal afbrigði og tegundir, sumar lágvaxnar en aðrar geta náð allt að 30 metra hæð. Algengast er þó að þær séu á milli tveir og þrír metrar á hæð. Algengt er að bambus verði 40-80 ára en sumar tegundir geta orðið allt að 130 ára gamlar. Bambus eru harðgerður þannig að ekki þarf að nota varnarefni eða áburð við ræktunina og þegar hann eru skorinn til uppskeru vex nýr bambus upp frá rótarskotum. Bambusskógar eru taldir framleiða meira súrefni en hefðbundinn skógur en binda jafn mikinn koltvísýring, þó ekki beri öllum rannsóknum saman um það.

Heimildir: Vilmundur Hansen - Bændablaðið
Bakteríueyðandi bambus

Auk fullyrðingarinnar um að bambusföt séu „náttúruleg“ eru þau oft sögð þeim eiginleikum gædd að vera bakteríudrepandi og að þau „andi frá sér“. Þau eru jafnvel sögð hitastillandi eða með hitastýringu, hvað sem það nú þýðir. Sérfræðingar sem Råd och Rön spurði álits gefa lítið fyrir þessar fullyrðingar. Það sé vissulega rétt að í bambusplöntunni eru ákveðin bakteríudrepandi efni sem gera að verkum að ekki þarf að nota varnarefni við ræktunina. En þeir bakteríudrepandi eiginleikar fara fyrir lítið þegar búið er að drekkja trefjunum í efnasúpu.

Enginn bambus í bambusfötum

Viskósinn í bambusfötum er vissulega unninn úr bambusplöntunni en efnið á ekkert sameiginlegt með upprunalegu hrávörunni. Bandaríska tímaritið Good Housekeeping gerði gæðakönnun á tíu mismunandi vörum (svo sem sængurveri og fatnaði) úr bambus, tröllatré (e. eucalyptus) og öðrum plöntutrefjum. Niðurstaðan var sú að ekki fannst tengur né tetur af nokkrum trefjum í sjálfum textílnum. Þetta getur eðli málsins samkvæmt valdið neytendum heilabrotum því ferlið við að búa til textíl úr bambus hefst jú með plöntunni. Hráefnið er þó leyst upp upp að því marki að það finnst ekki lengur í lokaafurðinni. Það sem eftir situr er sellulósi sem er unninn áfram með hjálp kemískra efna og síðan breytt í þræði sem úr er spunninn textíll. Lokaafurðin er því fjarri því að vera „náttúruleg“.

Mynd: Depositphotos

Pöndur lifa á takmörkuðu svæði í miðhluta Kína þar sem þær halda sig í gjám og fjalladölum. Þær eyða um 12 klukkustundum á dag í fæðuöflun og sitja megnið af deginum og naga bambussprota. Næringarinnihald bambuss er lítið og því þurfa pöndur að borða mjög mikið af honum.

Heimild: Vísindavefurinn
Eftirlitsstofnanir stíga niður fæti

Svo mjög hafa seljendur hampað bambusfatnaði sem umhverfisvænum, án þess að geta fært á það sönnur, að eftirlitsstofnanir hafa þurft að grípa til aðgerða. Í Bandaríkjunum hótuðu eftirlitsyfirvöld keðjunum Walmart og Kohl's háum sektum ef þær létu ekki af fullyrðingum um umhverfisvæn bambusföt, enda væri um grænþvott að ræða (e. greenwashing). Viðmælendur Råd och Rön telja mjög hæpið og jafnvel rangt að markaðssetja bambusefni sem náttúruleg eða umhverfisvæn og hvað þá lífræn. Fullyrðingar um að textíll úr bambus sé umhverfisvænn hafa hins vegar verið endurteknar svo oft að þær eru farnar að fá á sig sannleiksblæ. Strangt til tekið eru þó fá, ef nokkur efni, í raun umhverfisvæn og bambus er í dag ekki sú lausn á vanda tískuiðnaðarins sem margir vilja vera láta.

Neytendablaðið haust 2022

 

Deila:

Facebook
Twitter
Póstur

Fleira áhugavert

Ítarleg kortlagning hefur verið gerð á PFAS menguðum svæðum í Evrópu. Erfitt ef ekki ómögulegt getur reynst að hreinsa slík svæði.
Litarefni í mat gefa lífinu lit en þau eru jafn ólík og þau eru mörg. Sum eru náttúruleg á meðan önnur eru gerfiefni sem
Það færist í vöxt að fólk kaupi vörur af netinu í gegnum það sem kallast á ensku „dropshipping“, hvort sem fólk gerir sér grein

Takk fyrir áhugann!

 Þetta vefsvæði er kostað af árgjöldum félaga í Neytendasamtökunum.

Ef þú ert ekki þegar í samtökunum biðjum við þig að íhuga að ganga í þau. Árgjaldið er 7.900 kr.