Banna ætti notkun glýfosat

Glýfosat er mjög umdeilt efni sem er algengt í illgresiseyði. Það er víða bannað.

Dómstóll í Kaliforníu hefur dæmt fyrirtækið Monsanto til að greiða, krabbameinssjúkum manni, Dewayne Johnson, skaðabætur að upphæð um 30 miljjarða íslenskra króna. Maðurinn fór í mál við fyrirtækið á þeirri forsendu að illgresiseyðir (Round up og Rancher Pro) sem innihalda hið umdeilda efni glýfosat hafi valdið honum ólæknandi krabbameini. Kviðdómurinn komst að þeirri niðurstöðu að Monsanto hefði látið hjá líða að upplýsa Johnson, og neytendur almennt, um þá heilsufarslegu áhættu sem notkun glýfosats getur haft. Monsanto neitar sakargiftum og hyggst áfrýja málinu.

Glýfosat hefur löngum verið umdeilt og eru dæmi um að lönd hafi alfarið bannað notkun varnarefna sem innihalda glýfosat og þá hafa sum lönd bannað sölu slíkra illgresiseyða til almennings. Neytendasamtökin hafa hvatt umhverfisráðherra til að grípa til aðgerða enda eðlilegt að neytendur og almenningur njóti vafans þegar notkun varasamra efna er annars vegar. Í fyrsta lagi þarf að tryggja að varnarefni sem innihalda glýfosat (s.s.Round Up og Keeper) verði ekki seld til almennings. Í öðru lagi að vörur sem innihalda glýfosat verði bannaðar til notkunar á almenningssvæðum eins og í almenningsgörðum og íþrótta- og afþreyingarsvæðum.

Glýfosat - umdeilt efni í illgresiseyði

Athygli fólks hefur í auknum mæli beinst að skaðsemi varnarefna sem notuð eru í því skyni að eyða illgresi. Einn algengasti illgresiseyðir á markaði er Round Up, sem inniheldur efnið glýfosat. Glýfosat er umdeilt og sífellt fleiri þjóðir eru farnar að setja skorður við sölu og notkun efnisins.
Glýfosat eða N-(fosfónómetýlglýsín) er eitt algengasta efnið sem notað er í illgresiseyði í heiminum. Efnið var upphaflega hannað af efnaverkfræðingi hjá fyrirtækinu Monsanto en glýfosat er virka efnið í illgresiseyðinum Round Up sem Monsanto setti á markað árið 1974. Rúmum tveimur áratugum síðar, um það bil sem einkaleyfi Monsanto á glýfosat var að renna út, setti fyrirtækið á markað erfðabreytt sáðkorn fyrir ýmsar nytjaplöntur sem þolir efnið glýfosat, svo sem; soja, maís, kanola og bómull og kallast þau „Round Up Ready“. Þessi tækni gerði ræktun stórbænda skilvirkari og auðveldari því nú gátu þeir spreyjað akra sína með Round Up og drepið illgresið án þess að skaða nytjaplöntuna. Salan á Round Up jókst úr 3.200 tonnum árið 1974 í 835.000 tonn árið 2014. Þessi gríðarlega aukning stafar aðallega af ræktun erfðabreyttra nytjaplantna á Indlandi og í Bandaríkjunum, Kanada og Argentínu. Opinberar tölur sýna einnig að notkun glýfosats í breskum landbúnaði hefur aukist um hvorki meira né minna en 400% á síðustu 20 árum.

Deilt um glýfosat í Brussel

Árið 2017 endurnýjaði framkvæmdastjórn Evrópusambandsins leyfið fyrir dreifingu og notkun glyfósats í Evrópulöndum til 5 ára en ekki 10 eins og var fyrst var lagt upp með. Það gekk ekki átakalaust fyrir sig og þurfti að fresta atkvæðagreiðslu tvisvar þar sem ekki náðist meirihluti um að framlengja leyfið eða afturkalla það. Loks var það Þýskaland, sem hafði kosið að sitja hjá við fyrstu tvær atkvæðagreiðslurnar, sem fékkst til að samþykkja framlenginguna. Það skipti sköpum fyrir málið en olli mjög kröftugum mótmælum heima fyrir. Frakkland, sem er stærsta landbúnaðarland Evrópu, greiddi atkvæði á móti framlengingu leyfisins og ákvað einhliða að gefa sér þrjú ár til að banna notkun glýfosats. Franskir stórbændur mótmæla nú þessu banni.

Notað í landbúnaði en dreifist víðar

Glýfosat þykir einn besti illgresiseyðir sem völ er á. Efnið hefur mikið verið notað til að halda járnbrautarteinum hreinum og hreinsa stéttir og vegkanta, og það hefur jafnframt verið notað í skógrækt (jólatrjárækt til dæmis) og að sjálfsögðu mikið í landbúnaði, einkum í kornrækt. Talið var að efnið gæti ekki mengað grunnvatn en svo bárust þær fréttir frá Danmörku að glýfosat hefði mengað grunnvatnið á eins til fimm metra dýpi þótt efnið ætti ekki að fara dýpra í jörðu en 15 cm.  Fyrir nokkrum árum kom einnig í ljós að styrkur glýfosats í brjóstamjólk bandarískra kvenna var allt að 1.600 sinnum hærri en leyfilegur styrkur efnisins í drykkjarvatni er innan Evrópusambandsins (Moms Across America og Sustainable Pulse 2013). Þá er þekkt rannsókn sem Greenpeace lét gera á Evrópuþingi sem leiddi í ljós að þvagprufur sem voru teknar af þingmönnum innihéldu allar glýfosat.

Er glýfosat mögulega krabbameinsvaldandi?

Fjölmargar rannsóknar hafa verið gerðar sem þykja benda til skaðsemi glýfosats. Í mars 2015 sendi Alþjóðlega krabbameinsrannsóknastofnunin (IARC) frá sér álit. Eftir ítarlega skoðun á þeim vísindalegu rannsóknum sem fyrir lágu komst hún að þeirri niðurstöðu að glýfosat væri „líklega krabbameinsvaldandi“. Þetta var óneitanlega þungt áfall fyrir framleiðendur efnisins sem sáu markað upp á 80 milljarða íslenskra króna í uppnámi. Eins og við var að búast var allt gert til að finna mótrök, og þau komu fljótlega því frá Berlín bárust þveröfug skilaboð. Þýska áhættumatsstofnunin (Bundesinstitut für Risikobewertung, BfR) gaf út sitt álit: Glýfosat er „ekki krabbameinsvaldandi“. Þegar valin er ráðgjöf í málum sem EFSA tekur að sér og gefur álit um, eins og um glýfosat, velur stofnunin fyrst landið sem verður ábyrgt fyrir rannsóknarvinnunni og það land velur svo stofnunina sem gerir áhættumatið. Það gerði BfR og skýrsla hennar var svo notuð til að móta álit EFSA sem mælti með því að endurnýja leyfisveitingu fyrir glýfosat plöntueitrið til 10 ára.

Monsanto-skjölin

Það vill svo til að á nákvæmlega sama tíma og Matvælaeftirlitsstofnun Evrópu (EFSA) birti sitt álit og átti að ákveða framlengingu leyfis fyrir glýfosat-vörur, var viðskiptaleynd lyft í Bandaríkjunum af 25 ára gömlum trúnaðarskjölum frá Monsanto. Þar á meðal voru skjöl um samskiptin innan Monsanto, og á milli fyrirtækisins og vísindamanna, um glýfosat og Round Up. Umræðan um glýfosat var í hámarki og blaðamenn í Evrópu lágu yfir því sem var kallað „Monsanto Papers“ með tilvísun í Panama Papers. Þá kom í ljós að álit BfR, og þar með EFSA, var að mestu leyti tekið orð fyrir orð úr rannsóknarskýrslum Monsanto sem sýndu að sjálfsögðu fram á algert skaðleysi glýfosats. Rannsóknarblaðamenn, svo sem frá Le Monde og Der Spiegel, komu upp um óeðlileg áhrif framleiðandanna á stofnanir eins og EFSA – sem sýndu berlega að hagsmunir framleiðenda vógu þyngra en hagsmunir almennings.

Staðan í Evrópu og á Íslandi

Andstaðan við glýfosat er víða mikil og hefur fjöldi borga og sveitarfélaga tekið upp glýfosat-lausa stefnu. Hér á landi er sala á Round Up og annara glýfosat- plöntueyða leyfð fyrir leikmenn sem og fagmenn í öllum verslunum sem selja garðyrkjuvörur. Vegagerðin og Skógræktin hafa notað Round Up eða Clinic (sem er bannað að nota í dag) í baráttu við lúpínu eða skógarkerfil en viðbrögð almennings hafa verið það sterk að Vegagerðin hefur lýst því yfir að hún ætlaði að stórminnka notkun efnisins, m.a. á vegaröxlum – enda hafi hún ekki verið stór notandi efnisins hingað til. Þrír illgresiseyðar sem innihalda glýfosat eru til sölu hér á landi en ekki hefur reynst mögulegt að komast að því hve mikið magn er notað né heldur hvar glýfosat er mest notað hér. Þó er talið að notkun almennings sé um það bil 25% af heildarnotkun illgresiseyða, hvort sem þeir innihalda glýfosat eða annað virkt efni. Tvö vörumerki eru nú leyfð á Íslandi: Round Up og Keeper. Samkvæmt  upplýsingum frá Umhverfisstofnun voru notuð 1.093 kg af glýfosat hér heima árið 2016.

Í Evrópu hafa mörg lönd bannað sölu efnisins til einstaklinga, svo sem Holland, Belgía (flæmski hlutinn) og Frakkland. Þessi lönd, auk fleiri landa, hafa þar að auki lagt bann við notkun efnisins í almenningsgörðum og á afþreyingarsvæðum. Í Þýskalandi er von á slíku banni innan skamms. Malta hefur alfarið bannað notkun glýfosats í landinu, sem og Oman og fleiri ríki við Persaflóann. Vandamálið í dag er þó að ekkert efni, sem getur komið í staðinn fyrir gýfosat, er hættulaust með öllu fyrir heilsu manna. Flest sveitarfélög eða borgir velja að nota hand- og vélarafl, sem er að vísu kostnaðasamara. Það er vel raunhæft að minnka notkun glýfosats á Íslandi og þá fyrst og fremst með því að takmarka eða banna aðgang almennings að efninu. Einnig þarf að fá stærri notendur til að finna aðrar leiðir, eins og Vegagerðin hefur verið að skoða. Heilsa fólks og umhverfið ættu jú alltaf af njóta vafans.

Neytendablaðið 2. tbl 2018

Hér má sjá grein um glýfosat sem birtist í Bændablaðinu þar sem nýjustu vendingar eru raktar.

Deila:

Facebook
Twitter
Póstur

Fleira áhugavert

Ítarleg kortlagning hefur verið gerð á PFAS menguðum svæðum í Evrópu. Erfitt ef ekki ómögulegt getur reynst að hreinsa slík svæði.
Litarefni í mat gefa lífinu lit en þau eru jafn ólík og þau eru mörg. Sum eru náttúruleg á meðan önnur eru gerfiefni sem
Það færist í vöxt að fólk kaupi vörur af netinu í gegnum það sem kallast á ensku „dropshipping“, hvort sem fólk gerir sér grein

Takk fyrir áhugann!

 Þetta vefsvæði er kostað af árgjöldum félaga í Neytendasamtökunum.

Ef þú ert ekki þegar í samtökunum biðjum við þig að íhuga að ganga í þau. Árgjaldið er 7.900 kr.