Baráttan við ábyrgðarmannakerfið

Hið ósanngjarna ábyrgðamannakerfi fékk viðgengist allt of lengi í íslensku samfélagi. það reyndist mörgum dýrkeypt.

Eitt af stóru baráttumálum Neytendasamtakanna á tíunda áratugnum var krafan um stórbætta réttarstöðu ábyrgðarmanna. Með samkomulagi stjórnvalda, Neytendasamtakanna, lánastofnana og kreditkortafyrirtækja um sjálfskuldarábyrgðir árið 1998 var stigið stórt og mikilvægt skref. Lög um ábyrgðarmenn voru hins vegar ekki samþykkt á Alþingi fyrr en árið 2009.

Lánað út á ágæti annarra

Allt fram á 20. öldina fékk fólk almennt ekki lán nema foreldrar, ættingjar eða vinir ábyrgðust skuldina með undirskrift sinni. Ef lántaki hafði góð tengsl, þekkti til dæmis bankastjóra, gat þó vissulega gegnt öðru máli. Almennt var fólk þó nauðbeygt að finna ábyrgðarmann þar sem lánveitendur tóku almennt ekki ábyrgð á eigin lánveitingum. Stór hluti þjóðarinnar var á þessum tíma í ábyrgð fyrir þriðja aðila. Margar fjölskyldur fóru mjög illa út úr þessu kerfi enda voru ábyrgðarmenn að mestu réttlausir þrátt fyrir að gangast undir íþyngjandi skuldbindingar.

Sjálfskuldarábyrgðir voru afar algengar á þessum tíma en þá ábyrgist ábyrgðarmaður lán líkt og hann væri sjálfur lántaki,. Oft var því í raun verið að lána út á eignarstöðu og greiðslugetu ábyrgðarmanna en ekki lántaka sjálfra. Í ljósi þess hversu oft ábyrgðir féllu á ábyrgðarmenn var augljóst að lítil orka fór í að meta lánshæfi lántaka og allt of oft voru lánaðar of háar upphæðir með veði í eign þriðja aðila.

Lánveitendum bar til dæmis engin skylda til að meta greiðslugetu lántaka né upplýsa ábyrgðarmenn um þá áhættu sem þeir undirgengust. Ábyrgðarmenn fengu sjaldnast upplýsingar um greiðslugetu skuldara áður en þeir gengust í ábyrgð og fengu yfirleitt ekki að vita um vanskil eða greiðslufall skuldara fyrr en allt var komið í óefni. Þá sátu ábyrgðarmenn líka uppi með innheimtukostnað sem gat verið himinhár. Það má taka fram að innheimtulög voru ekki sett fyrr en 2008, og því engin takmörk á innheimtukostnaði. Til að bæta gráu ofan á svart gáfu lánastofnanir og kreditkortafyrirtækin líka út óútfyllta víxla og skuldbreyttu lánum – eða veittu ný lán til að greiða upp eldri lán – án þess að ábyrgðarmenn hefðu nokkuð um það að segja.

Hræðilegir viðskiptahættir

Þótt sjálfskuldarábyrgðir hafi tíðkast á hinum Norðurlöndunum var umfang þeirra langtum meira hér á landi. Neytendasamtökin töldu þessa stöðu óviðunandi og kölluðu ítrekað eftir aukinni vernd ábyrgðarmanna. Voru neytendur hvattir til að fara varlega í að „lána nafnið sitt“ eins og það var orðað.

Sigríður Á. Arnardóttir

Í viðtali við Neytendablaðið árið 1993 segir bankastjóri Búnaðarbankans fráleitt að hugsa sér að krafan um ábyrgðarmenn verði undantekning fremur en regla. Þetta var almennt viðhorf samtímans og skýrir hvers vegna kerfið fékk yfirhöfuð að viðgangast. Í grein í Neytendablaðinu 1996 kallar Sigríður A. Arnardóttir, lögfræðingur Neytendasamtakanna, eftir auknum rétti til handa ábyrgðarmönnum. Eru m.a. tekin tvö dæmi um mál sem bárust inn á borð samtakanna og sýndu hvað við var að eiga.

Í öðru málinu sat ábyrgðarmaður uppi með himinháa skuld eftir að hafa gengist í ábyrgð á láni án þess að vera upplýstur um að bæði lántaki og hinn ábyrgðarmaður lánsins væru þá þegar í vanskilum hjá bankanum. Þegar lánið féll á ábyrgðarmanninn hafði því verið skuldbreytt tvisvar.

Í hinu málinu, sem fór fyrir dóm, hafði ábyrgðarmaður skrifað undir óútfylltan víxil vegna yfirdráttarheimildar upp á 100.000 kr. Fjórum árum síðar var yfirdrátturinn kominn í 3.000.000 kr. og fór svo á endanum að ábyrgðarmaðurinn greiddi 5.000.000 kr. vegna ábyrgðarinnar. Dómur féll bankanum í vil, meðal annars á þeim forsendum að bankanum hefði ekki borið nein lagaskylda til að upplýsa ábyrgðarmanninn um hækkun yfirdráttarins.

Sögulegt samkomulag

Árið 1996 skipaði viðskiptaráðherra starfshóp sem fékk það hlutverk að skoða ábyrgðarmannakerfið og gera tillögur til úrbóta. Í tilefni af þeirri vinnu var gerð greining á stöðu mála, sú fyrsta að því er virðist. Margt áhugavert kom fram, svo sem að 47% landsmanna 18 ára og eldri (90.000 manns) væru í ábyrgð fyrir fjárskuldbindingu þriðja aðila. Þá hafði tíundi hver Íslendingur á aldrinum 18–75 ára greitt skuld vegna ábyrgðar undanfarin fimm ár. Það þýðir að um 18 þúsund manns hafi þurft að greiða skuldir annarra á tímabilinu 1990 til 1995.

Sigríður sat í starfshópnum fyrir hönd Neytendasamtakanna, en Þuríður Jónsdóttir, lögfræðingur og varaformaður samtakanna, tók sæti Sigríðar um tíma. Bæði Sigríður og Elín Sigrún Jónsdóttir, fulltrúi félagsmálaráðuneytisins í starfshópnum, lögðu ríka áherslu á að sett yrðu lög um ábyrgðarmenn til að tryggja réttarvernd þeirra. Fulltrúar fjármálafyrirtækja töldu hins vegar enga þörf á löggjöf og lögðu til að stjórnvöld, lánastofnanir og Neytendasamtökin gerðu með sér samkomulag. Var fulltrúi viðskiptaráðuneytisins einnig á þessari skoðun. Töldu Neytendasamtökin að ekki yrði lengra komist og að betra væri að láta reyna á samkomulagsleiðina en að búa við óbreytt ástand.

Skrifað var undir samkomulag stjórnvalda, lánastofnana og Neytendasamtakanna í janúar 1998 og með því var upplýsingagjöf til ábyrgðarmanna stórbætt. Lánveitendum var nú skylt að greiðslumeta lántaka færi lán yfir ákveðna upphæð og að upplýsa ábyrgðarmann um vanskil. Þá varð óheimilt að breyta skilmálum láns nema með samþykki lánveitanda og skylt að gefa upp fjárhæð, þ.e. opnar ábyrgðir voru bannaðar.

Neytendavernd ekki í forgangi

Neytendablaðið náði tali af Sigríði sem sagði að bætt réttarstaða ábyrgðarmanna hefði verið eitt af stóru baráttumálum samtakanna á þessum árum enda hefði efnahagsástandið verið slæmt og mörg heimili staðið veikt. „Neytendasamtökin voru mjög öflug á þessum tíma. Það störfuðu um tíu manns á skrifstofunni og samtökin voru virk í almennri umræðu um neytendamál. Gagnrýni á ábyrgðamannakerfið var mjög hávær í samfélaginu enda voru margir ábyrgðarmenn sem þurftu að gangast í ábyrgðir fyrir skuldir lántaka.“

Sigríður segir lánveitingar hafa verið með allt öðrum hætti en nú tíðkist. Það hafi þó verið sérstakt hversu veik réttarvernd ábyrgðarmanna var, þrátt fyrir þá miklu ábyrgð sem þeir tóku á sig. Upplýsingagjöf til ábyrgðarmanna var til að mynda nánast engin. „Á þessum árum voru réttindi neytenda ekki alltaf áherslumál og það þurfti oft að berjast fyrir umbótamálum sem þessu og það gerðu Neytendasamtökin sannarlega með góðum árangri.“ Samkomulagið reyndist afar mikilvægt því dómstólar hafa litið svo á að það staðfesti ríkjandi viðhorf um ábyrga útlánastarfsemi. Hafa dómstólar því dæmt ábyrgðarmönnum í vil hafi lánastofnanir brotið gegn efndum samkomulagsins.

Framsýnar konur

Lög um ábyrgðarmenn voru ekki samþykkt fyrr en árið 2009, en þá voru liðnir tæpir tveir áratugir frá því að frumvarp um vernd ábyrgðarmanna var fyrst lagt fram á Alþingi. Það gerði Kvennalistinn árið 1990 og var Anna Ólafsdóttir Björnsson fyrsti flutningsmaður. Málið lýsir mikilli framsýni en í frumvarpinu var meðal annars gerð krafa um að lánastofnanir létu greiðslumeta lántaka og að ábyrgðarmönnum skyldi tryggð fullnægjandi upplýsingagjöf. Væri þeirri skyldu ekki sinnt væri ábyrgðarmaður ekki ábyrgur fyrir skuldbindingum lántaka.

Anna Ólafsdóttir Björnsson

Neytendablaðið spjallaði við Önnu til að forvitnast um tildrög málsins. Hvernig kom það eiginlega til að svo snemma sem árið 1990 hafi Kvennalistinn tekið þetta mál upp á sína arma? Anna segir flest þingmál Kvennalistans hafa komið frá grasrótinni og ábyrgðamannakerfið var þar engin undantekning. „Þarna urðum við varar við vandamál sem hvíldi þungt á fólki. Allir þekktu jú einhvern sem hafði lent illa í þessu kerfi. Reynslusögurnar voru því fjölmargar og sumar hverjar hræðilegar.“ Anna segir að Kvennalistanum hafi sérstaklega runnið til rifja að mikilvægum upplýsingum væri gagngert haldið frá ábyrgðamönnum, sem þó báru ábyrgð líkt og væru þeir sjálfir lántakar.

„Það fór talsverð vinna í að undirbúa frumvarpið því við urðum að kynna okkur gildandi lög og framkvæmd þeirra mjög vel. Bæði með tilliti til lántaka, ábyrgðarmanna og bankanna. Við nutum góðs af því að eiga konu í bankaráði Landsbankans, Kristínu Sigurðardóttur, sem þekkti þennan bankaheim og það reyndist ómetanlegt.“

Umsagnir við málið voru einungis þrjár í þessari fyrstu tilraun en þó alls ekki mjög neikvæðar. Kvennalistakonur lögðu málið fram þrisvar sinnum en stjórnvöld sýndu því lítinn áhuga og lánastofnanir sáu málinu allt til foráttu.

Hér má sjá þingflokk Kvennalistans árið 1988, í aftari röð frá vinstri; Anna Ólafsdóttir Björnsson, Guðrún Agnarsdóttir, Kristín Halldórsdóttir, Danfríður Skarphéðinsdóttir. Í neðri röð Málmfríður Sigurðardóttir, Kristín Einarsdóttir, Þórhildur Þorleifsdóttir og Guðrún Halldórsdóttir.

Að lögum eftir tíu tilraunir

Lúðvík Bergvinsson, þingmaður Alþýðuflokks og síðar Samfylkingar, lagði fram fyrsta frumvarp sitt um ábyrgðarmenn árið 1997. Hann átti eftir að flytja málið sjö sinnum áður en það varð loks að lögum. Í samtali við Neytendablaðið segist Lúðvík hafa lagt áherslu á að fá þingmenn úr öllum flokkum á málið. Þar reyndist Pétur H. Blöndal honum ekki síst bandamaður.

Lúðvík Bergvinsson

En hvernig kviknaði áhugi Lúðvíks á þessu máli? „Ég hafði unnið hjá sýslumanni þar sem aðfarargerðir voru meðal annars á minni könnu. Í þeirri vinnu varð ég vitni að margháttuðum hörmungum sem voru afleiðingar þessa fyrirkomulags. Í mörgum tilvikum skapaði uppgjör á ábyrgðarmannakröfum sár í fjölskyldum sem aldrei gréru.“ Lúðvík segir rökin fyrir þessu kerfi hafa verið afar veik og það hafi leitt af sér leti og agaleysi í íslensku fjármálakerfi.

Það var upplifun Lúðvíks að ábyrgðamannafrumvarpið hafi almennt talist mikið framfaramál enda þjóðin löngu komin með nóg af þessu kerfi. En hvers vegna tókst ekki að vinna málinu fylgi? Lúðvík segir að það hafi ekki síst verið hagsmunir fjármálafyrirtækja og tengdra aðila sem gerðu það að verkum að málið átti erfitt uppdráttar. „Þá studdu fulltrúar dómstóla og lögmanna ekki málið í neinum mæli og margir umsagnaraðilar bentu gjarnan á tæknileg atriði sem virtust fyrst og fremst til þess fallin að drepa málinu á dreif og koma í veg fyrir samþykki þess.“ Lúðvík segist þó telja að innan þings hafi alltaf verið vilji til að málið færi í gegn enda hafi það oft verið flutt með liðsinni margra þingmanna og margra flokka.

Þingið tók völdin

Frumvarpið varð að lögum við merkilegar aðstæður sem sköpuðust eftir stjórnarslit Samfylkingar og Sjálfstæðisflokks 2009. Þá tók tímabundið við minnihlutastjórn Samfylkingar og VG sem sat með stuðningi Framsóknarflokksins. Lúðvík segir að þarna hafi valdajafnvægið breyst þannig að þingið varð mun sterkara en framkvæmdavaldið og þingflokkar þurftu að semja um öll mál sín á milli. Aðkoma ráðherra að málum varð því mun minni en ella. Alls óvíst sé hvort lögin hefðu farið í gegn ef ekki hefði verið fyrir þessa óvenjulegu stöðu. Lúðvík bendir einnig á að ábyrgðarmannalögin séu sérstök að því leyti að þau voru ekki samin í ráðuneyti eða flutt af ráðherra.

Lúðvík segir engum vafa undirorpið að stuðningur Neytendasamtakanna við málið frá upphafi hafi skipti gríðarlega miklu máli. „Bæði ræddu samtökin málið á fundum og studdu við það með öllum tiltækum ráðum. Það er augljóst að enginn hefði staðið í þessari baráttu jafn lengi og raun ber vitni nema með stuðningi slíks aðila. Fyrir það ber að þakka,“ sagði Lúðvík að lokum.

Sjálfskuldaábyrgðir LÍN yfir gröf og dauða

Árið 2009 var loksins hætt að krefjast ábyrgðar þriðja aðila vegna námslána LÍN. Árið 2020 var svo lögum breytt þannig að ábyrgðir á eldri lánum féllu niður en þó aðeins ef lánið var í skilum þegar lögin tóku gildi. Þetta skilyrði verður að teljast ósanngjarnt þar sem markmiðið var jú að gera lántaka ábyrga fyrir eigin láni og losa ábyrgðarmenn (og jafnvel erfingja þeirra) undan ábyrgðargildrunni. Umboðsmaður skuldara telur að þarna hafi verið gerð mistök og að það sé réttmæt spurning hvort lánþegar og ábyrgðarmenn þeirra hafi verið nægilega upplýstir um að ábyrgð félli niður ef vanskil yrðu gerð upp. Ekki liggja fyrir neinar tölur um það hversu margir ábyrgðamenn hafa greitt námslánaskuldir annarra.

Áhugaverður dómur féll árið 2022 þar sem reyndi á ábyrgð 23 erfingja ábyrgðarmanns vegna námsláns. Dómurinn taldi Menntasjóð námsmanna (áður Lánasjóður íslenskra námsmanna) hafa sýnt stórfellda vanrækslu og brotið gegn lögum um ábyrgðarmenn þar sem hann lét hjá líða að upplýsa erfingjana um ábyrgðarskyldur eins og honum ber lögum samkvæmt. Voru allir erfingjarnir sýknaðir og einnig dæmdur málskostnaður. Skuldaranum sjálfum, þ.e. manneskjunni sem tók námslánið á sínum tíma, var einnig stefnt og var hún dæmd til að greiða Menntasjóðnum það sem honum bar.

Mikilvæg breyting var gerð á lögum um menntasjóð námsmanna árið 2024 í tíð Áslaugar Örnu Sigurbjörnsdóttur sem þá var ráðherra málaflokksins. Allar ábyrgðir á eldri námslánum, þ.e. þær sem höfðu setið eftir, voru þá felldar úr gildi. Sagði ráðherra af þessu tilefni að niðurfellingin skipti fjölda fólks máli. Dæmi væru um að einstaklingar bæru ábyrgð á námslánum fólks sem það var ekki í neinum tengslum við og þá væri eðlilegt að fólk bæri sjálft ábyrgð á eigin námslánum.

Þetta mál, sem og mörg önnur, sýna hversu mikilvægt það var að ná fram réttarbótum fyrir ábyrgðarmenn. Að sama skapi er dapurlegt hversu langan tíma það tók. Það virðist þó frekar reglan en undantekningin þegar neytendaréttur er annars vegar.

Grein unnin úr umfjöllun Neytendablaðsins haust 2023

Deila:

Facebook
Twitter
Póstur

Fleira áhugavert

Hið ósanngjarna ábyrgðamannakerfi fékk viðgengist allt of lengi í íslensku samfélagi. það reyndist mörgum dýrkeypt.
Neytendur geta í flestum tilfellum borið ágreining undir úrskurðarnefndir, en það er ekki svo ef málið snýr að heilbrigðisþjónustu.
Mikil áhersla er lögð á réttindi og öryggi notenda heilbrigðisþjónustu í Finnlandi. Net umboðsmanna og raunhæf úrræði grípa fólk sem lendir í vanda.
Finnsku neytendasamtökin hafa um árabil sinnt ráðgjöf til notenda heilbrigðisþjónustunnar.

Takk fyrir áhugann!

 Þetta vefsvæði er kostað af árgjöldum félaga í Neytendasamtökunum.

Ef þú ert ekki þegar í samtökunum biðjum við þig að íhuga að ganga í þau. Árgjaldið er 7.900 kr.