Broskarlar og eftirlit

Eftir úttekt heilbrigðisfulltrúa í Danmörku fær fyrirtækið einkunn í formi broskarls. Kerfið hefur reynst vel enda eykur það gagnsæi.
Matvælaeftirlit gert sýnilegt

Þegar hinn litríki stjórnmálamaður Ritt Bjerregaard gegndi stöðu matvælaráðherra á tímabilinu 2000-2001 átti hún frumkvæði að því að innleiða svokallað broskarlakerfi eða „Smiley ordning“. Í stuttu máli gengur kerfið út á að opinbera niðurstöðu heibrigðiseftirlitsins eftir hverja heimsókn til fyrirtækis sem höndlar með matvæli (s.s. veitingahús, pylsuvagnar, bakarí, mötuneyti, krár o.s.frv.). Í upphafi voru skýrslur hengdar upp á áberandi stað þannig að neytendur gætu kynnt sér niðurstöður heilbrigðisfulltrúa og fjórar tegundir broskarla, allt frá súrum að mjög glöðum, túlkuðu niðurstöðurnar á myndrænan hátt . Markmiðið með kerfinu er að upplýsa neytendur um það hversu vel fyrirtæki, sem selja og framleiða matvæli, fylgja lögum og reglum og auðvelda þannig neytendum að taka upplýsta ákvörðun. Opinber birting upplýsinga gerir það líka að verkum að fyrirtækin eru vakandi og matvælaöryggið eykst.

 

 Árið 2020 var broskarlakerfið einfaldað og hálfbrosandi karli kippt út. Eftir stendur einfaldara kerfi með þremur broskörlum.

 

Einfalt og skiljanlegt kerfi

Allt kapp var lagt á að kerfið væri sem einfaldast þannig að neytendur ættu ekki að vera í nokkrum vandræðum með að skilja skilaboðin. Því urðu broskarlar fyrir valinu enda skilja allir muninn á broskarli með breitt bros og samsvarandi karli með skeifu. Eftir hverja úttekt var skýrsla heilbrigðiseftirlitsins hengd upp á áberandi stað, svo sem í glugga eða við inngang. Á síðunni findsmiley.dk er hægt að slá upp matsölustöðum á netinu og skoða niðurstöður heilbrigðisfulltrúa úr öllum eftirlitsferðum. Allt eftirlit er uppi á borði, engu er leynt.

Fyrirtækin mótfallin í fyrstu

Knud Arne Nielsen var á sínum tíma fagsviðsstjóri hjá dönsku matvælastofnuninni og tók þátt í innleiðingu broskarlakerfisins. Í samtali við Neytendablaðið árið 2009 sagði Knud Arne að flest fyrirtæki hefðu í upphafi verið mjög mótfallin innleiðingu broskarlakerfisins og fundið því flest til foráttu. Heilbrigðisfulltrúar voru einnig fullir efasemda og töldu ekki ráðlegt að opinbera skýrslur eins og lagt var til. Hagsmunir neytenda urðu þó ofan á og kerfið var innleitt þrátt fyrir óánægjuraddir.

Kannanir um viðhorf bæði neytenda og fyrirtækja hafa sýnt að mikil ánægja er með kerfið. Nokkrum árum eftir að kerfið var sett á fót, eða árið 2007,  þekktu 99,8% neytenda kerfið og voru ánægðir með það. Þá kom í ljós að stærstur hluti neytenda treystir danska heilbrigðiseftirlitinu þrátt fyrir að mikið hafði borið á neikvæðum fréttum um matvælaiðnaðinn í Danmörku á þessum tíma. Leiddi Knud Arne líkur að því að gagnsætt eftirlit eins og broskarlakerfið auki traust og tiltrú neytenda á eftirlitskerfinu.

Kerfið er í sífelldri endurskoðun. Árið 2008 var úrvalsbroskarl (Elite Smiley) kynntur til sögunnar en hann hlutu fyrirtæki sem fengið höfðu hæstu einkunn fjórum sinnum í röð. Úrvalsbroskarlsins biðu þó sömu örlög og þess hálfbrosandi því hann var látinn fjúka árið 2020.

Árið 2023 voru gerðar enn frekari breytingarnar en nú þurfa fyrirtæki ekki lengur að hengja skýrslu heilbrigðiseftirlitsins út í glugga eða á sýnilegan stað. Nóg er að broskarl sé sýnilegur auk QR kóða sem vísar neytendum á nýjustu eftirlitsskýrslu. Fyrirtæki hafa alltaf þurft að birta niðurstöðu síðustu eftirlitsheimsóknar á vefsíðum sínum.

Sambærileg kerfi víðar

Það er víðar en í Danmörku sem niðurstöður heilbrigðisfulltrúa eru gerðar opinberar. San Diego í Kaliforníuríki innleiddi einkunnakerfi árið 1947 og Los Angeles innleiddi kerfi árið 1999 þar sem notaðir eru bókstafirnir A, B og C. Mun fleiri ríki hafa nú innleitt kerfið. Þar í landi vita allir hvað stafirnir standa fyrir því þeir eru notaðir sem einkunnakerfi í skólum. Í Toronto í Kanada hefur notast við umferðarljós síðan árið 2001. Í Bretlandi hafa einstaka borgir og bæir notað samsvarandi kerfi þar sem gefnar eru 5 stjörnur.

 

 

 

 

 

 

 

Deila:

Facebook
Twitter
Póstur

Fleira áhugavert

Aukefni geta verið allt frá mjög umdeildum efnum sem eru leyfð í einstaka vörum yfir í mjög örugg efni. Kynntu þér málið.
Neytendasamtökin hafa í gegnum árin staðið með neytendum gegn smálánaóværunni. Sú barátta hefur verið bæði löng og ströng.

Takk fyrir áhugann!

 Þetta vefsvæði er kostað af árgjöldum félaga í Neytendasamtökunum.

Ef þú ert ekki þegar í samtökunum biðjum við þig að íhuga að ganga í þau. Árgjaldið er 7.900 kr.