Efnakokteill í fötunum þínum

Talið er að meira en 8.000 kemísk efni séu notuð í fataiðnaði í dag. Efnin geta haft margvísleg neikvæð áhrif á heilsu fólks og umhverfi.

Það eru engar nýjar fréttir að fataframleiðslu fylgir mikil efnamengun en talið er að meira en 8.000 kemísk efni séu notuð í fataiðnaði í dag. Í hvert kíló af textíl eru notuð allt frá einu og upp í fimm kíló af kemískum efnum Mörg þessara efna hafa skaðleg áhrif á heilsu fólks og umhverfi, en aðeins lítill hluti þeirra hefur verið rannsakaður til fulls. Efnanotkunin á sér stað á öllum stigum framleiðslunnar og er heilsufarsáhætta þeirra sem vinna með og í nálægð við efnin vel þekkt. Skaðleg umhverfisáhrif eru einnig þekkt og mörg dæmi eru um að ár og vötn í nálægð við textílverksmiðjur breyti litum í takt við nýjustu tísku. Þetta á ekki síst við í löndum þar sem umhverfislöggjöf er ábótvant en þar er framleiðslukostnaðurinn líka lægri, sem er ástæðan fyrir því að þessi iðnaður hefur að mestu færst til fjarlægra landa.

To Dye For eftir Alden Wicker

Litað til ólífis

Alden Wicker er bandarísk blaðakona sem hefur skrifað mikið um sjálfbæran lífsstíl. Hún bendir á að mikil vakning hafi verið undanfarin ár um skaðleg efni í snyrti- og húðvörum en afar lítil áhersla sé lögð á þann aragrúa efna sem notuð eru í fataframleiðslu. Neytendur eigi ekki einu sinni rétt á að fá upplýsingar um þau efni sem kunna að leynast í fatnaði og öðrum textíl, ólíkt t.d. snyrtivörum. Wicker lagðist í rannsóknir og úr varð áhugaverð bók, To Dye For, sem útleggja mætti sem Litað til ólífis.

Eitraðir einkennisbúningar

Áhugi Wicker á þessu tiltekna málefni vaknaði þegar hún heyrði af því að flugþjónar og flugfreyjur hjá flugfélaginu Delta Air Lines hefðu orðið veik eftir að hafa klæðst nýjum einkennisbúningum. Wicker ákvað að skoða málið en það kom henni á óvart hversu erfitt var að finna sérfræðinga á þessu sviði. Hún komst þó að því málsóknin gegn Delta var ekkert einsdæmi. Skaðlegir einkennisbúningar höfðu áður ratað í fréttir og jafnvel inn í réttarsal.

Starfsfólk Alaska Airlines fékk nýja búninga árið 2011 frá fyrirtækinu Twin Hill. Búningarnir voru úr ullar- og pólíesterblöndu og innihéldu ýmis efni til að minnka krumpur og verja þá gegn vatni, óhreinindum og raka, og auka eld- og hitaþol þeirra. Eftir að nýju búningarnir voru teknir í notkun fóru Judith Anderson, heilbrigðisfulltrúa hjá stéttarfélagi flugfreyja og -þjóna (AFA), að berast ábendingar frá félagsmönnum um sérkennileg einkenni, svo sem útbrot, óþægindi frá öndunarfærum, höfuðverk, þreytu og kláða í augum. Framleiðandi búninganna var margsaga um orsakir og bar að mestu af sér sakir en viðurkenndi þó að efnið tributyl phosphate hefði smitast í fötin við flutning frá Tyrklandi. Efnið er notað í vökvakerfisolíur (glussa) í flugiðnaði og við nánari skoðun kom í ljós að það er líka notað í textíliðnaði. Magnið var þó ekki svo mikið að það eitt og sér útskýrði einkennin.

Stéttarfélagið ákvað að senda glænýjan búning (jakka, skyrtu, slæðu, pils, buxur) á rannsóknarstofu og láta mæla fjölda kemsískra efna og magn þeirra. Í ljós kom að í 35 sýnum voru 97 mismunandi efni, þar af þekktir skaðvaldar eins og blý, arsen, kóbalt og toulene. Efnin voru hvert um sig flest öll undir viðmiðum en samanlagt gætu þau verið skaðleg, svokölluð „kokteil-áhrif“. Dómari taldi hins vegar ekki sannað að heilsubrestinn mætti rekja til vinnufatnaðarins.

Brjálaður eins og hattari

Skaðleg efni hafa lengi loðað við tískubransann og rekur Wicker nokkur áhugaverð dæmi í bók sinni. Kvikasilfur var til dæmis notað í hattagerð allt fram til 1940 en hattar voru gjarnan úr kanínufeldi. Mörg dæmi eru um að læknar hafi, þegar á 18 öld, haft uppi varúðarorð um skaðsemi kvikasilfurs. Ekki er til tæmandi listi yfir einkenni kvikasilfurseitrunar en þau eru fjölmörg og alvarleg. Wicker segir nærtækt að álykta að ef hattarar urðu alvarlega veikir hljóti eigendur hattanna að hafa orðið fyrir eituráhrifum. Þegar próf voru tekin úr gömlum höttum á söfnum í London kom í ljós að þeir innihéldu svo mikið magn af kvikasilfri að safnafólkið verður að nota hanska og grímur þegar það handleikur þá. Orðatiltækið „Mad as a hatter“ (brjálaður eins og hattari) er talið vísa til hinna ólánsömu hattara sem þjáðust m.a. af skjálfta og ofskynjunum af völdum kvikasilfurseitrunar.

Eitraðir hattar og kjólar

Efnafræðingurinn Carl Wilhelm Scheele kunngerði uppskrift sína að fagurgrænum lit árið 1778. Blandan, sem var úr kopar og arsen, sló strax í gegn því fram að þessu hafði reynst afar erfitt að lita vörur fagurgrænar. Tískuheimurinn tók græna litnum opnum örmum og konur kepptust um að klæðast grænu frá toppi til táar. Innanhússhönnun var ekki undanskilin því grænt veggfóður prýddi gjarnan veggi ríka fólksins. Athyglin beindist að græna litnum þegar ung stúlka í London lét lífið úr eitrun árið 1861. Mjög þótti móðins að skreyta kjóla og hatta með grænum gerviblómum og laufblöðum. Stúlkan hafði einmitt unnið við að lita þetta skraut með hinni eitruðu grænu blöndu. Dauði hennar var rannsakaður en rakinn til „óhapps“. Neytendur voru þó uggandi og kvenfélag nokkurt í London sendi hatt með grænum gervilaufblöðum til efnafræðings til rannsóknar. Niðurstaðan sýndi að magn arsens í hattinum nægði til að drepa 20 manns.

 

Á seinni hluta 19 áldar var græni liturinn hámóðins hjá þeim sem meira máttu sín.

Litarefni til vandræða

Þegar efnafræðingar uppgötvuðu hvernig nýta mætti hráolíu og aukaafurðir hennar til að búa til ný efni opnuðust allar flóðgáttir. Ein byltingin fólst í nýrri tegund litarefna en svokallaðir asólitir eru unnir úr koltjöru og voru fyrst kynntir til sögunnar árið 1875. Neytendur tóku litadýrðinni fagnandi en fljótt fór að bera á ertingu og útbrotum sem rekja mátti til litanna. Líkt og svo oft áður varð starfsfólkið í litaverksmiðjunum verst úti. Óvenju mörg tilfelli þvagblöðrukrabbameins voru rakin til asólita sem innihéldu benzidine, sem er þekktur krabbameinsvaldur. Asólitir eru í dag stór hópur litarefna sem eru allt frá því að vera mjög skaðleg og yfir í að vera talin nokkuð örugg. Árlega eru hartnær tíu milljón tonn af litarefnum notuð í iðnaðarframleiðslu á heimsvísu, þar af telja asólitir 70%. Áhyggjur hafa ekki síst snúið að skaðlegum áhrifum litarefnanna á umhverfið, sér í lagi á vötn og ár í nálægð verksmiðja.

Í fataiðnaði er það ekki síst ákveðin „aukaafurð“ asólita sem sjónir beinast að. Við ákveðnar aðstæður losa sumir asólitir nefnilega litlar eindir, svo kölluð „amín“ sem eru krabbameinsvaldandi. Evrópusambandið hefur bannað 22 tegundir asólita sem gefa frá sér þessi skaðlegu efni, en þau hafa þrátt fyrir það fundist í fatnaði. Þess má geta að nokkrar tegundir asólita eru notuð í matvæli og hefur notkun þeirra verið mjög umdeild. Í dag er skylt að setja varúðarmerkingu á matvæli sem innihalda efnin en sem stendur er þar aðallega um að ræða sælgæti. Litarefnin eru talin hafa neikvæð áhrif á heilsu barna og vegna þrýstings hafa margir framleiðendur skipt efnunum út.

PFAS-efnin alls staðar

Wicker tekur dæmi af fleiri efnum sem eru algeng í fatnaði, svo sem efnahópinn PFAS, sem gerð voru góð skil í síðasta tölublaði. PFAS-efni er yfirheiti yfir stóran efnahóp perflúoraðra alkýlefna sem eru þrávirk og er skaðsemi þeirra nú vel kunn. Þau hafa verið notuð í óhóflegum mæli, eins og svo algengt er, enda kemur skaðsemi efna oft ekki í ljós fyrr en eftir notkun í fleiri ár eða áratugi. Wicker segir frá því hvernig Graham Peaslee, sem er kjarnorkueðlisfræðingur, fann upp tæki til að nema, eða finna, PFAS-efni í vörum. Peaslee og nemendur hans prufuðu einhvern tíma fyrir rælni að setja pappír af skyndibita í tækið. Og viti menn! Umbúðirnar innhéldu PFAS-efni og leiddi þessi uppgötvun til ítarlegrar rannsóknar og töluverðs uppáms. Þetta var árið 2017 og þess má geta að Danir bönnuðu flúorefni í matvælaumbúðum árið 2020. Peaslee og nemendur hans fóru nú að taka sýni úr alls konar vörum enda prófið sjálft einfalt og ódýrt. Það virtist alveg sama hvar þau bar niður, PFAS-efnin voru úti um allt.

Efnasúpa

Efni sem hafa hormónaraskandi áhrif hafa verið undir smásjánni enda eru þau fjölmörg og ekki er til neitt „öruggt“ viðmið þegar þessi efni eru annars vegar. Þetta geta verið paraben, bisfenól og þalöt en þau eru notuð sem mýkingarefni í plast, til dæmis þegar verið er að prenta myndir á fatnað. Notkun þeirra hefur nú verið takmörkuð í vörum sem ætlaðar eru ungum börnum. Ótalin eru svo alls kyns efni sem eru bakteríudrepandi (t.d triclosan), efni sem koma í veg fyrir krumpur (s.s. formaldehýð), efni sem virka eins og rakavörn þegar fatnaður er fluttur heimshafa á milli og eldtefjandi efni sem gera textíl minna eldfiman. Mörg efnanna eru rokgjörn, þ.e. agnir geta gufað upp eða losnað úr fötum og textíl og við öndum þeim að okkur. Það ætti því ekki að koma á óvart að heilsa fólks geti beðið skaða af öllum þessum framandi manngerðu efnum sem eru svo að segja alltumlykjandi.

Sett hafa verið viðmið um magn tiltekinna efna í textíl og fötum. Enginn veit þó í raun hvaða magn er öruggt eða hvaða áhrif það hefur þegar mörg efni er að finna í sömu vörunni. Það getur verið einstaklingsbundið og efni, sér í lagi hormónaraskandi efni, hafa ólík áhrif á konur og karla. Ekki er deilt um að börn eru viðkvæmari en fullorðnir og því eru settar strangari kröfur þegar þau eiga í hlut.

Áhrif efna á heilsuna

Margir fræðimenn rekja aukningu ýmissa sjúkdóma til þeirra fjölmörgu kemísku efna sem umlykja okkur. Algengustu og augljósustu áhrif margra kemískra efna á heilsu neytenda varða húðvandamál eins og kláða og útbrot. Sjónir beinast ekki síður að stóraukinni tíðni ófrjósemi og fjölmargra sjálfsónæmissjúkdóma, sem konur þjást af í meira mæli en karlar.

Við gerð bókarinnar hitti Wicker fjölda fólks sem glímt hefur við heilsubrest sem það telur auðsýnt að rekja megi til efna í umhverfinu. Sum þróa með sér óþol gagnvart kemískum efnum (efnaóþol eða multiple chemical sensitivity) og fá einkenni við minnsta efnaáreiti. Wicker segir frá konu sem missti heilsuna eftir að hafa unnið í tískubransanum til fjölda ára. Hún hafði varið miklum tíma í að skoða sýnishorn sem send voru beint frá verksmiðjum og oft var megn efnalykt af sendingunum. Einkennin voru væg til að byrja með en fór svo að hún varð óvinnufær. Annar viðmælandi stofnaði fyrirtæki sem hannar barnaföt án allra skaðlegra efna þar sem sonur hennar þoldi illa að ganga í hefbundnum fötum.

Höfundur tekinn tali

 

Neytendablaðið náði tali af Alden Wicker og spurði hana fyrst hver viðbrögðin við bókinni hefðu verið. „Frá því að bókin kom út hef ég heyrt frá ótal mörgum sem hafa fengið ýmis einkenni frá fatnaði. Það er mun algengara en jafnvel ég hafði gert mér í hugarlund. Mig grunar að fólk hafi hreinlega ekki vitað að þetta gæti verið vandamál, slíkt hafi aldrei komið til tals, svo það var bara eitt að reyna að finna út úr sínum málum.“ Wicker segist ekki hafa fengið nein viðbrögð frá tísku- og efnaiðnaðinum eftir útgáfu bókarinnar. Hún segir það líklega enga tilviljun því upplýsingafulltrúar ráðleggi fyrirtækjunum örugglega að þegja.

Vel geymt leyndarmál

En skyldi eitthvað hafa komið Wicker á óvart við gerð bókarinnar? „Þegar ég hóf vinnuna að bókinni hafði ég mestar áhyggjur af því að finna ekki nógu mikið af gögnum til að styðja kenningu mína. Það kom mér hins vegar verulega á óvart, og var í raun áfall, að sjá hversu litla athygli rannsóknirnar hafa vakið. Bæði efnaiðnaðinum og tískugeiranum hefur tekist alveg ótrúlega vel í að gaslýsa og að telja fólki trú um að fólkið sjálft sé vandamálið. Þegar fólk bendir á skýr dæmi um útbrot á húð eða jafnvel alvarlegri heilsuvanda er því sagt að þetta sé bara í hausnum á því eða að það sé einstaklega viðkvæmt. Wicker segir þetta til dæmis hafa verið viðbrögð fjögurra flugfélaga við kvörtunum flugfreyja- og þjóna þrátt fyrir að evrópskar rannsóknir hafi sýnt að asó-litarefni í pólýester geti valdið ofnæmisviðbrögðum.

Þá segir Wicker merkilegt að óháðar rannsóknir sýni alltaf eitthvað ógnvekjandi, hvort sem það sé blý og þalöt í barnafötum, hátt magn af PFAS-efnum í skólabúningum eða Bisphenol-A í íþróttafötum. „Þegar ég byrjaði að leita fann ég sönnunargögn úti um allt um að eitthvað mikið væri að.“

Hvað geta neytendur gert?

Wicker segist oft vera spurð að því hvað neytendur geti eiginlega gert vilji þeir hafa varann á við fatakaup. Hún segir að neytendur ættu að forðast hraðtískufyrirtæki eins og Shein og ódýrar eftirlíkingar sem enginn veit hvar og hvernig eru framleiddar. Margar alþjóðlegar keðjur hafa stigið skref til að minnka efnanotkun og með grúski geti neytendur fundið fyrirtæki sem taka þessi mál alvarlega. Wicker bendir á Oeko-tex Standard 100 vottun sem tryggir að vottaðar vörur innihalda ekki efni yfir lágmarksviðmiðum. Hún mælir með að þvo föt fyrir notkun og nota ilmefnalaus þvottaefni. Ef það er efnalykt af fötum ætti að skila þeim og eins er hægt að kaupa notað og deila fötum með vinum og vandamönnum.

Aðspurð hvort hún hafi breytt einhverjum fatavenjum í kjölfar rannsókna sinna segist Wicker þegar hafa hallast að náttúrulegum efnum. „Ég er alveg hætt að kaupa föt úr gerviefnum og kaupi yfirhöfuð minna af fötum, enda á ég nóg í fataskápnum.“

Wicker heldur úti vefsíðunni ecocult.com þar sem finna má ýmsar góðar upplýsingar.

Heimild: Neytendablaðið haust 2023

Deila:

Facebook
Twitter
Póstur

Fleira áhugavert

Litarefni í mat gefa lífinu lit en þau eru jafn ólík og þau eru mörg. Sum eru náttúruleg á meðan önnur eru gerfiefni sem
Það færist í vöxt að fólk kaupi vörur af netinu í gegnum það sem kallast á ensku „dropshipping“, hvort sem fólk gerir sér grein
Gjaldtaka og arðsemi íslensku bankanna - rýnt í ársskýrslur.

Takk fyrir áhugann!

 Þetta vefsvæði er kostað af árgjöldum félaga í Neytendasamtökunum.

Ef þú ert ekki þegar í samtökunum biðjum við þig að íhuga að ganga í þau. Árgjaldið er 7.900 kr.