Gott að hafa í huga

Hér má finna ýmis góð ráð sem gott er að hafa í huga þegar bílaleigubíll er tekinn á leigu.

Athugaðu vel hvað er innifalið í verðinu. Gættu sérstaklega að því hvort öll gjöld og skattar séu innifaldir. Þegar neytendur skoða hagstæðustu verðin á bílaleigubílum á netinu eru uppgefin verð oft miðuð við lágmarksupphæð án trygginga og aukabúnaðar.

Athugaðu hvað sá aukabúnaður (barnabílstólar o.s.frv.) sem þú þarft á að halda á meðan leigu stendur kostar.

Athugaðu vel hvernig eldsneytismálum er háttað hjá viðkomandi bílaleigu. Hjá sumum bílaleigum, sérstaklega erlendis, er gert ráð fyrir að leigutaki skili bílaleigubílnum án þess að fylla hann af eldsneyti. Leigutaki er þá í raun að tapa því eldsneyti sem er á bílnum við skil. Ekki er gert ráð fyrir að bifreiðinni sé skilað með fullum tanki heldur rukkað vegna heils tanks, auk áfyllingagjalds við skilin: ◦ „Collect Full Return Empty Policy“

Athugaðu hvaða skilmálar gilda um afpöntun. Það er fátt leiðinlegra en að lenda í því að óvæntar aðstæður leiði til þess að þú þurfir að fresta fríinu og þurfa að auki að greiða fyrir leigu á bílaleigubíl sem aldrei verður notaður.

Athugaðu allar takmarkanir á leigusamningnum. Stundum er sett hámark á kílómetrafjölda eða takmarkanir hvað varðar þau lönd sem heimilt er að ferðast til á bílaleigubíl.

Hafðu meðferðis útprentun af bókuninni.

Gakktu úr skugga um að skilmálar samningsins séu þeir sömu og á bókuninni sem þú hefur þegar gert. Mikilvægt er að fá afrit af samningnum og geyma hann ef eitthvað kemur uppá síðar.

Skoðaðu vel hvaða tryggingarskilmálar gilda. Margar bílaleigur bjóða nú þeim sem leigja bíla hér á Íslandi að kaupa sérstaka sand- og öskutryggingu. Yfirleitt falla skemmdir á bifreiðum vegna sand- eða öskustorms ekki undir hinar hefðbundnu tryggingar. Því getur verið ráðlegt fyrir leigjanda að óska eftir slíkum tryggingum, séu þær í boði, ef ætla má að mikið sandfok geti orðið þar sem ætlunin er að aka.

Rétt er að kanna hvort þú ert með ferða- eða kortatryggingu sem taka til leigu á bílaleigubíl. Slíkar tryggingar geta gert aðrar tryggingar óþarfar og í sumum tilvikum getur það skemmt fyrir að taka sérstaka tryggingu hjá bílaleigunni þar sem þá falla korta- eða ferðatryggingar niður.

Spurðu hver stefna og verklag fyrirtækisins eru ef bíllinn bilar eða þú lendir í slysi á bílnum.

Skoðaðu bílinn með starfsmanni til að athuga hvort það séu einhverjar skemmdir á honum við móttöku. Séu skemmdir á bílnum skaltu gæta þess að þú fáir skriflega yfirlýsingu, undirritaða af starfsmanni, um að skemmdirnar hafi verið til staðar þegar þú leigðir bílinn.

Athugaðu hvernig eldsneyti bíllinn gengur fyrir. Ef sett er bensín á dieselbíl, eða diesel á bensínbíl eru líkur á að bíllinn skemmist.

Ef bíllinn bilar skaltu hafa samband við bílaleiguna strax og fylgja leiðbeiningum hennar. Ekki fara sjálf/ur með bílinn á verkstæði án samþykkis bílaleigunnar.

Ef þú lendir í slysi á bílnum skaltu rita niður nöfn og heimilisföng allra þeirra sem tengdust slysinu. Ef það verða slys á fólki, eða ágreiningur er um sök, þá skaltu hringja á lögregluna og hafa samband við bílaleiguna.

Reyndu að skila bílaleigubílnum á opnunartíma bílaleigunnar. Þá hefur þú möguleika á að vera viðstaddur skoðun á bílnum og getur andmælt ef því er haldið fram að þú hafir valdið skemmdum.

Starfsmaður bílaleigunnar ætti að gefa út yfirlýsingu um ástand bílaleigubílsins við skil. Bæði þú og starfsmaðurinn ættuð að undirrita hana. Ráðlegt er að geyma eintakið!

Ef þú þarft að skila bílaleigubíl utan opnunartíma bílaleigunnar gættu þess að leggja honum í rétt stæði. Einnig getur verið ráðlegt að taka myndir af ástandi bílsins, þá helst með dagsetningu og kílómetrastöðu, til að sanna að bílnum hafi verið skilað í góðu ásigkomulagi.

Á Íslandi hafa margar bílaleigur þann háttinn á að gefa ekki út fullnægjandi yfirlýsingu um gott ástand bifreiðar fyrr en þrif á henni hafa farið fram. Yfirleitt er þó hægt að bíða á meðan þrifin fara fram og fara svo yfir ástandið með starfsmanni bílaleigunnar.

Leiga á bíl í Evrópu

Ef neytendur lenda í vandræðum með bílaleigu erlendis og hafa reynt sjálfir að komast að samkomulagi við bílaleiguna án árangurs geta þeir leitað til Evrópsku neytendaaðstoðarinnar á Íslandi, sem fær fjölmörg mál sem varða bílaleigu til meðferðar. Evrópska neytendaaðstoðin er hluti af samstarfsneti, ECC-Net, sem starfrækt er í öllum aðildarríkjum EES, og lendi íslenskur neytandi t.a.m. í vandræðum vegna bílaleigu á Spáni vinna íslenska og spænska ECC-stöðin saman að lausn málsins. Neytendasamtökin hýsa Evrópsku neytendaaðstoðina og það kostar ekkert að leita til hennar.

Deila:

Facebook
Twitter
Póstur

Fleira áhugavert

Litarefni í mat gefa lífinu lit en þau eru jafn ólík og þau eru mörg. Sum eru náttúruleg á meðan önnur eru gerfiefni sem
Það færist í vöxt að fólk kaupi vörur af netinu í gegnum það sem kallast á ensku „dropshipping“, hvort sem fólk gerir sér grein
Gjaldtaka og arðsemi íslensku bankanna - rýnt í ársskýrslur.

Takk fyrir áhugann!

 Þetta vefsvæði er kostað af árgjöldum félaga í Neytendasamtökunum.

Ef þú ert ekki þegar í samtökunum biðjum við þig að íhuga að ganga í þau. Árgjaldið er 7.900 kr.