Tryggingar geta ýmist verið lögbundnar eins og ábyrgðartrygging ökutækja og brunatrygging fasteigna eða frjálsar eins og á við um kaskótryggingar, líf- og sjúkdómartryggingar o.fl. Auk þess geta tryggingar verið innifaldar í þjónustusamningum líkt og í tengslum við greiðslukort. Oft eru tryggingar þannig að vátryggingarsamningur er gerður til eins árs í senn og svo endurnýjaður en jafnframt er hægt að kaupa sérstakar tryggingar fyrir tiltekin tilfelli eins og t.d. forfallatryggingar er kemur að ferðalögum.
Fasteigna- og húseigendatryggingar.
Húseigendatrygging tryggir vátryggingartaka alla jafna fyrir skyndilegu og óvæntu tjóni á fasteign. Í fjölbýlishúsum eru það oft húsfélögin sjálf sem eru með húseigendatryggingu fyrir allt húsið en það er þó ekki algilt. Hér getur t.a.m. reynt á tjón sem hlýst ef lögn springur eða lekur. Gjarnan kemur það til álita hvort tjónsupptök eigi sér stað innan veggja húseignar sem og hvort það teljist skyndilegt, óvænt og ófyrirsjáanlegt.
Ferða- og forfallatryggingar:
Bóki aðili sér flug eða pakkaferð sem hann kemst að endingu ekki í vegna veikinda eða annarra óvæntra atburða geta ferða- og forfallatryggingar oft komið til álita. Margir seljendur bjóða kaupendum upp á sérstakar forfallatryggingar sem veita gjarnan víðtæka vernd gegn slíku. Óháð sérstökum forfallatryggingum geta tryggingar tengdar greiðslukortum jafnframt náð yfir þessi tilfelli. Þurfa aðilar þá alla jafnan að sína fram á að skilmálar séu uppfylltir s.s. með framvísun læknisvottorðs. Í þessum tilfellum reynir oft á hvort að einkenni hafi verið undirliggjandi við bókun ferðarinnar eða um skyndileg veikindi að ræða.
Ökutækjatryggingar:
Ökutækjatryggingum er gjarnan skipt í nokkra flokka en þeir helstu eru lögboðin ábyrgðartrygging sem allir bifreiðaeigendur verða að hafa og svo kaskó. Sú fyrrnefnda felur í sér tryggingu fyrir tjóni sem vátryggingartaki veldur á öðrum meðan að kaskó tryggingin nær yfir tjón á bifreið vátryggingartaka, þjófnaðar o.fl. Er kemur að fyrirspurnum í tengslum við ökutækjatryggingar varða þær helst annars vegar skiptingu ábyrgðar, þ.e. hvaða ökumaður hafi verið í rétti við árekstur. Hins vegar uppgjör við tryggingarfélag og þá sér í lagi þegar um altjón er að ræða og það stendur til að bifreið sé keypt út. Í þeim tilfellum kemur oft upp ágreiningur milli vátryggingartaka og vátryggingarfélagsins um raunverulegt verðmæti bifreiðarinnar. Í slíkum málum mæla Neytendasamtökin með því að vátryggingartakar afli sér upplýsinga um markaðsvirði sambærilegra bifreiða.
Leitaðu tilboða:
Við endurnýjun á vátryggingarsamningum reynir gjarnan á boðaðar hækkanir. Oft vel umfram vísitölubreytingar. Þegar neytendur leita til samtakanna af þeim sökum mælum við alla jafna með því að neytendur afli sér tilboða, geri verðsamanburð og beri saman skilmála.
Innbúskaskó:
Innbúskaskó felur í sér nokkuð víðtæka vernd gegn tjóni á innbúsmunum. Þau mál sem rata inn á borð samtakanna í tengslum við innbústryggingar snúa aðallega að uppgjöri annars vegar og hins vegar því hvort skilmálar séu uppfylltir. Er kemur að uppgjöri þá er oft deilt um núvirði þess munar er varð fyrir tjóni eða spurt út í afföll. Hvað skilmálana varðar lýtur ágreiningur fyrst og fremst að því hvort atvik sem leiddu til tjóns hafi talist utanaðkomandi og skyndileg. Þó nokkur fjöldi slíkra mála hefur farið fyrir úrskurðarnefnd í vátryggingarmálum.