Fals á Facebook

Ætla mætti að fyrirtækjum sem auglýsa á Facebook sé almennt treystandi en svo er þó aldeilis ekki.

Í danska neytendablaðinu Tænk mátti finna mjög áhugaverða frásögn af útsmoginni aðferð svikahrappa sem beindist ekki síst að eldri borgurum. Um er ræða svika- sölusíðu sem auglýst var á Facebook. Auglýsingin sýnir myndband af hressum eldri borgurum sem keyra um á lítilli rafmagnsskutlu með sæti. Skutlan virkar meðfærileg og létt og auðvelt að smella henni saman. Hún kostar 299 danskar krónur eða 6.000 kr. sem er gjafverð.

Ef smellt er á auglýsinguna opnast vefsíða á slóðinni  www.topmobility-dk.com. Síðan lítur vel út, allur texti er á dönsku, vel orðaður og útlitið ekki frábrugðið hverri annarri danskri sölusíðu. Nema jú- þetta er svika-síða sem er aðeins í loftinu í tíu daga. Á þessum stutta tíma fellur fjöldi fólks í gryfjuna.

Fagmennskan í fyrrirrúmi

Annette Høyrup er yfirlögfræðingur hjá dönsku neytendasamtökunum Forbrugerrådet Tænk. Hún segir bæði auglýsinguna og vefsíðuna, sem opnast þegar smellt er á auglýsinguna, vera mjög fagmannlega gerða og trúverðuga. Það sé því afar erfitt að sjá í gegnum svikin en almennt sé ráðlagt að hafa varann á ef tilboðið virkar of gott til að vera satt og eins ef seljandi er óþekktur.

 

Auglýsingin sem margir neytendur féllu fyrir. Mynd: Tænk

 

Svo fagmannlega var að verki staðið að vefslóðin fyrir verslunina líkist mjög vefslóð þekkts fyrirtækis í Bandaríkjunum. Falska slóðin var www.topmobility-dk.com en slóð fyrirtækisins sem verið var að stæla er www.topmobility.com.

Eitt einkenni svika af þessu tagi er að vefslóðir hjá fölskum sölusíðunum eru keilmlíkar þekktum og viðurkenndum verslunum. Í þessu tilfelli er ákveðin vísbending að slóðin endar á „com“ en ekki dk eins og væri tilfellið ef vefsíðan væri dönsk, nú eða „is“ ef sölusíðan væri íslensk.

Síðan uppi í tíu daga

Meðvitaður um svikin ákvað blaðamaður Tænk að kaupa rafskutlu til að sjá nákvæmlega hvernig viðskiptin færu fram. Eftir að kreditkortið hafði verið staðfest með þar til viðurkenndum aðferðum var blaðamanninum beint á nýja síðu þar sem boðið var upp á tryggingu að upphæð 700 danskar krónur eða 14.000 kr. íslenskar. Tryggingin var afþökkuð en það dugði ekki til því upphæðin var skuldfærð af kortinu. Í samtali við Danske bank, einn stærsta bankann í Danmörku, kom í ljós að þetta er vel þekkt, þ.e. að sú upphæð sem skuldfærð er, sé hærri en sú sem neytandinn hefur samþykkt. Slíkt er þó að sjálfsögðu ekki heimilt og getur neytandi farið fram á endurgreiðslu ef svo er.

Nokkrum dögum eftir kaupin var vefsíðan horfin af sjónarsviðinu og afhending á skutlunni fór aldrei fram. Í ljós kom að síðan hafði aðeins verið í loftinu í tíu daga. Neytendur í öðrum löndum fóru ekki varhluta af svindlinu því þessi sama svikasíða var einnig gerð á sænsku, frönsku, ítölsku og hollensku.  Það liggur því mikil vinna og einbeittur ásetningu að baki svikasíðu sem þessari.

Hvernig er hægt að forðast svika-sölusíður?

Hér er um að ræða mjög fágað svik sem erfitt getur verið að sjá í gegnum. Það er alltaf einfalt fyrsta ráð að „gúggla“ seljanda og sjá hvað kemur upp en í þessu tilfelli er verið að nota nafn á fyrirtæki sem er til og er treystandi. Það flækir vissulega málið. Ein leið er að skoða síður eins og Scamadvisor en þar má sjá að slóðin topmobility.com fær mjög hátt mat á „trausti“ en topmobility-dk.com lágt mat. Við mat á trausti er meðal annars horft til þess hversu lengi sölusíða hefur verið uppi (því lengur því betri einkunn). Ef slóðin á hollensku síðunni (topmobility-nl.com) er slegið inn á Scamadvisor kemur í ljós að síðan hefur verið skilgreint sem svikasíða af hollensku lögreglunni.  Á trustpilot.com er hægt að sjá hvað aðrir neytendur hafa að segja um tilteknar sölusíður og þar má sjá að topmobility í Bandaríkjunum fær mjög góðar umsagnir á meðan neytendur vara við fyrrnefndum svikasíðunum.

Netsvik hafa aukist með ári hverju og sífellt spretta upp nýjar aðferðir sem erfitt er að sjá við. Á þessi þróun við á heimsvísu. Enginn er hultur en sá hópur sem hefur tapað hæstum fjárhæðum er fólk yfir sextugt. Ef minnsti grunur vaknar um svik er rétt að staldra við, skoða málið betur og kalla eftir aðstoð.

Neytendablaðið vor 2023

 

Deila:

Facebook
Twitter
Póstur

Fleira áhugavert

Ítarleg kortlagning hefur verið gerð á PFAS menguðum svæðum í Evrópu. Erfitt ef ekki ómögulegt getur reynst að hreinsa slík svæði.
Litarefni í mat gefa lífinu lit en þau eru jafn ólík og þau eru mörg. Sum eru náttúruleg á meðan önnur eru gerfiefni sem
Það færist í vöxt að fólk kaupi vörur af netinu í gegnum það sem kallast á ensku „dropshipping“, hvort sem fólk gerir sér grein

Takk fyrir áhugann!

 Þetta vefsvæði er kostað af árgjöldum félaga í Neytendasamtökunum.

Ef þú ert ekki þegar í samtökunum biðjum við þig að íhuga að ganga í þau. Árgjaldið er 7.900 kr.