Fyrir allan peningin

Í ágúst 2023 kom út skýrsla um gjaldtöku og arðsemi viðskiptabankanna og var tölvuerð umfjöllun um hana í fjölmiðlum. Skýrslan sýndi að rekstur bankanna þriggja hefur aldrei gengið betur og að arðsemi þeirra hefur sjaldan eða aldrei verið meiri. Hins vegar hefur lækkun bankaskatts og aukin hagræðing í rekstri bankanna ekki skilað sér til neytenda með lækkun gjalda eða minni vaxtamun.

Vaxtamunur bankanna reynist hár í norrænum samanburði og afkoma íslensku bankanna jókst mjög á milli áranna 2022 og 2023, meðal annars vegna lækkandi rekstrarkostnaðar. Þrátt fyrir það lækkaði vaxtamunur ekki, heldur hækkað lítillega og var hann nálægt tvöfaldur á við það sem gengur og gerist hjá bönkum á Norðurlöndunum. Arðsemi eigin fjár var að sama skapi meiri hjá íslensku bönkunum. Í skýrslunni var einnig fjallað sérstaklega um gengisálag bankanna á kortagreiðslur, sem er neytendum að miklu leyti óljóst.

Neytendasamtökin, ASÍ, BSRB og BHM stóðu að ráðstefnu um skýrsluna enda málefnið brýnt.

Lilja Alfreðsdóttir, ráðherra bankamála, sagði í ræðu sinni mikilvægt að skýrslur yrðu gerðar árlega um gjaldtöku og arðsemi íslensku bankanna með það að markmiði að auka aðhald með verðlagningu og vaxtamun þeirra. Neytendasamtökin hafa kallað eftir svörum frá ráðuneytinu um stöðu mála, þ.e. til hvaða aðgerða verði gripið til að lækka kostnað neytenda af bankaþjónustu. Þau svör fengust að eftirfylgni með bankaskýrslunni væri enn í mótun og að samtökin fengju að vita þegar málin skýrðust.

Gömul saga og ný

Það má rifja upp að árið 2003 unnu Neytendasamtökin skýrslu um bankaþjónustu sem vakti mikla athygli. Var bent á að arðsemi bankanna væri í algerum sérflokki borið saman við önnur fyrirtæki í Kauphöllinni. Skýringar bankanna voru þær að góð afkoma hefði að mestu komið til vegna gengishagnaðar á verðbréfaeign. Úttekt samtakanna leiddi hins vegar í ljós að hagnaðinn mátti að miklu leyti rekja til mikils vaxtamunar og þá höfðu tekjur vegna ýmissa þjónustugjalda einnig snarhækkað. Hagnaðarsprenging bankanna væri því á kostnað viðskiptavina.

Hver er staðan nú?

Greiningardeild Neytendablaðsins fór á stúfana og rýndi ársskýrslur stóru íslensku viðskiptabankanna þriggja. Sú rýni leiðir í ljós að lítið hefur breyst. Hér verður farið yfir nokkrar kennitölur. Einar og sér segja þær lítið, en séu þær skoðaðar í samhengi draga þær upp mynd af stöðu, afkomu og fjárhagslegum styrk bankanna.

Kostnaðarhlutfall

Kostnaðarhlutfall segir til um hversu rekstrarkostnaður bankans er stórt hlutfall af tekjum. Tekjum er deilt með kostnaði. Viðskiptabankarnir hafa sett sér það markmið að hlutfallið sé á bilinu 40-48%

Ársreikningar bankanna fyrir árið 2023 leiða í ljós að kostnaðarhlutfall bankanna dregst verulega saman milli ára, án þess að séð verði að hagræðingunni sé deilt með viðskiptavinum. Kostnaðarhlutfall banka á Íslandi árið 2023, samkvæmt þýska tölfræðivefnum Statista, var 38,3%, en að meðaltali er hlutfallið 56% í Evrópu. Stóru viðskiptabankarnir þrír, Arion banki, Íslandsbanki og Landsbankinn, hafa sett sér markmið um að kostnaðarhlutfallið fari ekki yfir ákveðin mörk sem eru mismunandi eftir bönkum en eru á bilinu 40-48%. Ljóst er að þeir ná allir markmiðum sínum og gott betur.

Vaxtamunur

Vaxtamunur er munurinn á útlánsvöxtum og innlánsvöxtum banka, það er að segja útlánsvextir að frádregnum innlánsvöxtum.

Vaxtamunur íslenskra banka er hár, eða 2,8% árið 2022, miðað við 1,6% hjá öðrum norrænum bönkum af svipaðri stærð. Hjá stórum norrænum bönkum var hann 0,9%. Vaxtamunur allra íslensku bankanna hækkaði á árinu 2023 og fór úr 2,8% árið 2022 í 3% árið 2023.

Arðsemi

Arðsemi er hlutfall hagnaðar, til dæmis af eigin fé, eða af eignum. Arðsemi eigin fjár segir til um hvernig tekst að ávaxta fjármagn sem bundið er í félagi. Bankarnir hafa réttilega bent á að eiginfjárkröfur til banka eru hærri á Íslandi en í samanburðarlöndum. Arðsemi eigin fjár gefur því aðra mynd hér á landi en erlendis þar sem nefnarinn (eigið fé) er hærri hér á landi. Væri eigið fé íslenskra banka á pari við það sem gerist á Norðurlöndunum er ljóst að arðsemi eigin fjár væri  mun hærri, miðað við sama teljara (hagnaðinn). Því gefur það einnig góða mynd að skoða arðsemi heildareigna, sem segir til um hvernig tekst að ávaxta þá fjármuni sem í félaginu eru bundnir, án tillits til fjármögnunar.

Arðsemi íslenskra banka er meiri en meðaltal banka af svipaðri stærð á hinum Norðurlöndunum, hvort sem litið er á  arðsemi eigin fjár eða arðsemi heildareigna.

Arðsemi eigin fjár bankanna hækkaði á milli ára úr 10,7% í 13,6% . Þó arðsemin hækki „einungis“ um tæp tvö prósentustig er hlutfallsleg hækkun arðsemi eigin fjár rúm 27% milli ára, sem má telja dágott. Arðsemi eigin fjár sambærilegra norrænna banka árið 2022 var 9,6%.

Arðsemi heildareigna íslensku bankanna hækkaði um 10% milli áranna 2022 og 2023, úr 1,5% í 1,65%, miðað við 0,9% hjá sambærilegum norrænum bönkum árið 2022. Arðsemi heildareigna íslenskra banka var þannig helmingi (50%) meiri en þeirra norrænu og fer vaxandi.

Hagræðing skili sér til neytenda

Það er fagnaðarefni þegar bönkunum gengur vel. Færa má rök fyrir því að þeim hafi aldrei gengið betur. Þess væri óskandi að í stað stóraukinnar arðsemi skilaði hagræðing sér til neytenda í formi lægri vaxta og bankagjalda. Neytendasamtökin hafa hvatt öll fyrirtæki til að taka þátt í að draga úr verðbólgu og koma á stöðugleika með því að draga úr arðsemiskröfum og halda aftur af verðhækkunum og eru bankarnir þar ekki undanskildir.

Fyrir þremur til fimm árum tóku margir íbúðaeigendur lán með mun lægri vöxtum en nú bjóðast. Vextir margra þessara lána koma til endurskoðunar á næstunni. Vextir íbúðalána er hærri hér en í nokkru samanburðarlandi, jafnvel mörgum sinnum hærri. Ljóst er að afburða afkoma bankanna veitir þeim svigrúm til að halda aftur af vaxtahækkunum á íbúðalánum á næstunni.

Greiðslumiðlun dýr

Í skýrslunni um gjaldtöku og arðsemi bankanna er vakin athygli á því að kostnaður þjóðfélagsins vegna greiðslumiðlunar er mun hærri hér á landi en á hinum Norðurlöndunum. Kostnaðurinn er nærri tvöfalt hærri en í Noregi og nærri þrefalt hærri en í Danmörku, sé miðað við hlutfall af vergri landsframleiðslu. Stafar munurinn meðal annars af mikilli notkun alþjóðlegra greiðslukorta hér á landi. Kostnaður við greiðslumiðlun skilar sér í hærra verði á vöru og þjónustu til íslenskra neytenda, sem bera á endanum kostnaðinn. Þessi aukni kostnaður skilar sér í hærra verði á vöru og þjónustu til íslenskra neytenda og jafngildir því að hver einasti Íslendingur greiði árlega um 100.000 kr. meira vegna greiðslumiðlunar en skandinavískir frændur vorir.

Neytendur verða hins vegar ekki varir við kostnaðinn þar sem hann er falinn í vöruverði og greiðslum frá seljendum til kortafyrirtækjanna. Fyrirkomulagið er þjóðhagslega óhagkvæmt þar sem það beinir neytendum að notkun greiðslumiðils sem ber hærri samfélagslegan kostnað.

Greiðsluþjónustuveitendur (s.s. bankar, sparisjóðir og færsluhirðar) hafa margfaldan hag af hverri færslu kreditkorta í samanburði  við debetkort, þó beinn kostnaður neytenda sé meiri af debetkortagreiðslu. Þannig er hagnaður greiðsluþjónustuveitenda af hverri færslu kreditkorta áætlaður um 122 kr. að meðaltali samanborið við 8 kr. af hverri færslu debetkorta.

Gengisálag kortagreiðslna

Það er ekki bara greiðslumiðlunin sjálf sem er okkur neytendum dýr. Skýrslan sýnir að álag bankanna er mun hærra á gjaldeyriskaup þegar greiðslukort eru notuð. Með einfölduðum hætti má áætla að heimilin hafi árið 2022 greitt bönkunum um 6,6 ma.kr. í gengisálag ofan á almennt gengi árið 2022 fyrir það að nota greiðslukort sín í erlendum færslum, á vefnum og í útlöndum.

Þá er erfitt er fyrir neytendur að átta sig á gjaldtöku íslenskra banka fyrir kortaviðskipti í erlendri mynt. Á Norðurlöndum er rukkað fast álag sem sjá má í verðskrá. Hér á landi birtir hins vegar hver og einn banki sérstakt kortagengi sem er óhagstæðara en almennt gjaldmiðlagengi bankanna.

Á aðalfundi Neytendasamtakanna, sem haldinn var í október 2023, var skorað á stjórnvöld að grípa til aðgerða. Í ályktun sagði m.a.: „Skýrslan sýnir svart á hvítu að betri afkoma bankanna skilar sér ekki í betri kjörum til neytenda og að óljósar og flóknar verðskrár gera neytendum ókleift að gera verðsamanburð og veita nauðsynlegt aðhald. Vaxtamunur bankanna er allt að þrisvar sinnum hærri en sambærilegra banka erlendis og arðsemi heildareigna helmingi meiri.“

Neytendablaðið vor 2023

Deila:

Facebook
Twitter
Póstur

Fleira áhugavert

Aukefni geta verið allt frá mjög umdeildum efnum sem eru leyfð í einstaka vörum yfir í mjög örugg efni. Kynntu þér málið.
Neytendasamtökin hafa í gegnum árin staðið með neytendum gegn smálánaóværunni. Sú barátta hefur verið bæði löng og ströng.

Takk fyrir áhugann!

 Þetta vefsvæði er kostað af árgjöldum félaga í Neytendasamtökunum.

Ef þú ert ekki þegar í samtökunum biðjum við þig að íhuga að ganga í þau. Árgjaldið er 7.900 kr.