Glæpavæðing endurvinnslu

Flokkun og endurvinnsla eru tekin mjög föstum tökum í Sviss.

Yfirvöld í Zürich sýna enga miskunn ef grunur er um að íbúar trassi strangar reglur um flokkun, eins og Sigrún Stella Þorvaldsdóttir fékk að reyna.

Þegar ég flutti til Sviss sumarið 2019 átti ég ekki von á því að upplifa jafn mikinn menningarmun og ég gerði. Ég komst fljótt að því að Svisslendingar eru með margar skrifaðar og óskrifaðar reglur sem mér þótti vægast sagt undarlegar. Hér þykir til að mynda siðlaust að taka sopa úr vínglasi án þess að stara fyrst í augun á öllum og skála. Það er einnig harðbannað að hengja út þvott á sunnudögum. Það sem kom mér þó skemmtilega á óvart, eftir að hafa ferðast til margra stórborga, er hvað Zürich er  ótrúlega hrein og fín. Ég komst fljótt að því að það er ekki tilviljun. Svisslendingar eru mjög framarlega hvað varðar nýtingu og endurvinnslu og eru með ströng lög og reglur til að styðja við hringrásarhagkerfið. Hér eru flokkunarstöðvar á nánast hverju götuhorni og flestar matvöruverslanir eru með sérstakar endurvinnslustöðvar fyrir plastflöskur, rafhlöður, kaffihylki og aðrar vörur sem þær selja. Til að hvetja neytendur enn frekar til flokkunar má einungis henda almennu rusli í sérstaka skattlagða ruslapoka sem kosta augun úr. Rusl er sótt á ákveðnum vikudögum, svo sem pappi, dagblöð og lífrænn úrgangur, og jafnvel er hægt að skilja húsgögn eftir fyrir framan húsið og þau eru svo sótt fólki að kostnaðarlausu.

Óvænt kærubréf

Akureyringurinn ég er vön að flokka og fylgdi því flokkunarreglunum samviskusamlega allt frá fyrsta degi. Ég vissi því ekki hvaðan á mig stóð veðrið þegar ég fékk kærubréf í pósti síðastliðið sumar. Stórglæpur hafði átt sér stað í hverfinu mínu vikuna áður. Það fannst papparusl í götunni, heilum tveimur dögum eftir tilsettan söfnunardag og við skoðun á glæpavettvangi fannst bréfsnifsi með mínu sérkennilega eftirnafni. Við tók skýrslutaka hjá lögreglunni þar sem ég þvertók fyrir að hafa farið of seint út með mitt papparusl. Lögreglumaðurinn sýndi mér mikinn skilning, vildi líklega losna við þessa íslensku stúlku í geðshræringu með munnræpu að dásama flokkunarkerfi Sviss. Það var þó ekki nóg, enda eðlilegt að svo alvarlegt mál fari fyrir dómara. Ef ég gæti ekki sannað sakleysi mitt mátti ég eiga von á hárri sekt eða tveggja daga fangelsisvist.

Saklaus uns sekt er sönnuð

Við tók stíf söfnun sönnunargagna, til dæmis mynda af IKEA flokkunarstöðinni minni í kjallaranum og myndar sem ég hafði fyrir tilviljun tekið á réttum söfnunardegi þar sem papparuslið mitt sást í bakgrunninum. Í heildina sendi ég inn sex sönnunargögn ásamt stuttri yfirlýsingu um ómælda virðingu mína fyrir svissneska úrgangsflokkunarkerfinu. Til að gera langa sögu stutta tókst mér að sanna sakleysi mitt í ruslamálinu mikla og var kæran felld niður mér til mikils léttis.

Sigrún Stella á vettvangi glæpsins.

Það er hæpið að glæpavæðing svissneskrar flokkunar skili sér heim á klakann. En þótt öllu megi nú ofgera get ég eiginlega ekki annað en dáðst að því hvað Svisslendingar taka flokkunarmálin alvarlega.

Sigrún Stella Þorvaldsdóttir.
Neytendablaðið vor 2023

Deila:

Facebook
Twitter
Póstur

Fleira áhugavert

Ítarleg kortlagning hefur verið gerð á PFAS menguðum svæðum í Evrópu. Erfitt ef ekki ómögulegt getur reynst að hreinsa slík svæði.
Litarefni í mat gefa lífinu lit en þau eru jafn ólík og þau eru mörg. Sum eru náttúruleg á meðan önnur eru gerfiefni sem
Það færist í vöxt að fólk kaupi vörur af netinu í gegnum það sem kallast á ensku „dropshipping“, hvort sem fólk gerir sér grein

Takk fyrir áhugann!

 Þetta vefsvæði er kostað af árgjöldum félaga í Neytendasamtökunum.

Ef þú ert ekki þegar í samtökunum biðjum við þig að íhuga að ganga í þau. Árgjaldið er 7.900 kr.