Gráskjár

Áttu erfitt með að slíta þig frá símanum? – þú ert ekki vandamálið.

Öll hönnun á samfélagsmiðlum, tölvuleikjum og smáforritum miðar að því að fá notendur til að verja sem mestum tíma fyrir framan skjáinn. Þegar fólki reynist erfitt að minnka skjánotkun sína er það ekki vegna skorts á sjálfsaga. Hönnunin er beinlínis ávanabindandi.

Vilji fólk hemja skjátímann eru ýmsar leiðir færar, en þær gefa misgóða raun. Hægt er að loka fyrir tilkynningar, fækka smáforritum í símanum, láta símann fylgjast með skjátíma og jafnvel nota snjallúr í stað síma, því þar með er möguleikinn á dauðaskruni (e. deathscrolling) úr sögunni.

Gráskjár til bjargar

Besta ráðið er þó, að sögn sérfróðra, að gera skjáinn gráan. Heilinn kann að meta skæra og fallega liti, en um leið og skjárinn birtist í gráum tónum minnkar áhuginn. Það verður einfaldlega leiðinlegra að hanga í símanum. Tristan Harris vann áður sem hönnuður hjá Google og er meðal þeirra sem stigið hafa fram og gagnrýnt tæknifyrirtækin. Tæknin eigi að bæta líf fólks en þegar henni er gagngert beitt til að auka ávanabindandi hegðun og auka skjátíma, ekki síst hjá börnum, þá sé of langt gengið. Harris er meðal viðmælenda í myndinni The Social Dilemma (Netflix) og hefur haldið fjölda fyrirlestra um þau neikvæðu áhrif sem of mikil tækjanotkun hefur í för með sér.

Harris hefur ráðlagt fólki að gera skjáinn gráan því það virki furðu vel. Þessi stillingu má finna á flestum símum og tölvum því hún auðveldar litblindu fólki að nota tækin. Það er þó ekki alveg hlaupið að því að finna stillinguna þar sem það er jú hagur framleiðenda að fólk noti vöruna sem mest. Á netinu má finna leiðbeiningar með því að slá inn leitarorðið „grayscale“ og þá tegund tækis sem um ræðir.

 

Þar sem litlaus síminn missir aðdráttaraflið minnkar skjátíminn til muna. En kostirnir eru fleiri, svo sem minni augnþreyta, rafhlaðan endist lengur, auglýsingar missa aðdráttaraflið og netverslun með símanum heyrir sögunni til, sem gæti jú verið kostur. Þessi einfalda aðgerð gæti líka minnkað ásókn barna í spjaldtölvur og síma, sem margir foreldrar þekkja svo vel.

Furðu fáar rannsóknir hafa verið gerðar á áhrifum gráskjás á skjátíma, en ein slík birtist í fagritinu The Social Science Journal. Í ljós kom að háskólanemar sem stilltu símann á gráskjá í 8–10 daga vörðu 38 mínútum minni tíma á dag á samfélagsmiðlum og á netinu en samanburðarhópurinn.

Ókostir við gráskjá

Svo virðist sem kostir gráskjás séu margfalt fleiri en ókostir, í öllu falli ef markmiðið er að draga úr skjátímanum. Það sem helst er nefnt er notkun leiðarkorts (t.d. Google maps), þar sem gráu tónarnir gætu reynst erfiðir.

Þá sýnir myndavélin á símanum gráa mynd þótt myndirnar sjálfar séu í lit þannig að tilfinningin fyrir myndefninu gæti verið minni en ella.

Neytendablaðið haust 2023

Deila:

Facebook
Twitter
Póstur

Fleira áhugavert

Litarefni í mat gefa lífinu lit en þau eru jafn ólík og þau eru mörg. Sum eru náttúruleg á meðan önnur eru gerfiefni sem
Það færist í vöxt að fólk kaupi vörur af netinu í gegnum það sem kallast á ensku „dropshipping“, hvort sem fólk gerir sér grein
Gjaldtaka og arðsemi íslensku bankanna - rýnt í ársskýrslur.

Takk fyrir áhugann!

 Þetta vefsvæði er kostað af árgjöldum félaga í Neytendasamtökunum.

Ef þú ert ekki þegar í samtökunum biðjum við þig að íhuga að ganga í þau. Árgjaldið er 7.900 kr.