Grisjun til gleði

Að losa heimilið við alls kyns óþarfa gæti verið liður í því að bæta andlega heilsu.

Það eru gömul sannindi og ný að hamingjan verður ekki keypt. Þrátt fyrir það verður seint sagt að naumhyggja ráði ríkjum á Vesturlöndum og reyndar er það svo að margir eru hreinlega að drukkna í dóti. Hafi fólk áhuga á að gera eitthvað í málunum – hvort sem er að koma smá skikki á heimilið eða losa sig við megnið af veraldlegum eigum sínum – er hjálpin þó innan seilingar.

Fyrst verður kynnt til leiks hin japanska Marie Kondo en bók hennar, „Taktu til í lífi þínu!“, hefur verið þýdd á fjölda tungumála, m.a. íslensku, og Netflix- þættir hennar hafa notið mikilla vinsælda. Svo hátt skín frægðarsól Kondi að ný sögn hefur rutt sér til rúms; „to kondo“ eða „að kondóa“, í merkingunni að taka til að hætti Kondo.

Ein tiltekt dugar

Kondo segir flesta gera þau mistök að vera stanslaust að taka til. Ein tiltekt á hins vegar að vera nóg og áhrifin eiga að geta verið varanleg. Til að svo megi verða þarf fólk að losa sig við allan óþarfa og finna síðan hlutunum stað þar sem auðvelt er að nálgast þá og ganga frá þeim aftur. Grunnstefið er að losa sig við allt sem ekki nýtist eða veitir gleði en það getur verið þrautin þyngri.

Fyrsta skrefið í Mari Kondo aðferðinni er að fara í gegnum alla hluti, föt, bækur o.s.frv. og meta hvort hlutur eigi sér áfram tilverurétt á heimilinu. Það er gert með því að snerta hlutinn og spyrja hvort hann veiti eigandanum gleði. Ef svo er ekki er honum þökkuð þjónustan og hann kvaddur. Ráðist er í þetta verkefni eftir flokkum, en ekki herbergjum, og byrjað á þeim flokkum sem teljast auðveldir, þ.e. ekki miklar tilfinningar í spilunum. Tilvalið er að byrja á fötum og skal þá tína til allar flíkur hvar sem þær eru geymdar og setja í einn haug þannig að eigandinn neyðist til að horfast í augu við magnið.

Þegar eftir standa hlutir sem veita eigandanum gleði þarf að finna þeim góðan stað. Kondo kennir fólki að rúlla upp sokkum, brjóta saman boli og ganga haganlega frá öllum hlutum. Takist þetta mun lífið, að sögn, breytast til hins betra.

Henda til að kaupa meira?

Allt hljómar þetta skynsamlega og ljóst er að Kondo væri ekki jafn vinsæl og raun ber vitni ef hún hefði ekki eitthvað til síns máls. Það kom því mörgum á óvart þegar Kondo opnaði netverslun þar sem kaupa má alls kyns varning, þar af ýmislegt sem telst alls ekki til nauðþurfta. Kondo svaraði gagnrýninni á þann veg að hún væri ekki að ýta undir neysluhyggju heldur væri hún að gefa neytendum tækifæri til að kaupa hluti sem veita þeim gleði.

 

Mari Kondo leggur áherslu á að föt séu brotin saman og sokkum rúllað upp og þau geymd þannig að auðvelt sé að nálgast.

Einfaldara líf - minna stress

Hin bandaríska Courtney Carver ákvað að einfalda líf sitt þegar hún var greind með MS- sjúkdóminn árið 2006. Markmið hennar var fyrst og fremst að minnka streitu og ná stjórn á fjármálum sínum. Hún hefur gefið út bækur og heldur úti vefsíðunni bemorewithless.com þar sem finna má ýmis góð ráð. Carver mælir með því að fólk byrji smátt og smátt að losa sig við dót og koma meira skipulagi á lífið. Hún er að þessu leyti ólík Kondo sem mælir með því að tekist sé á við verkefnið í áhlaupi en báðar dásama þær frelsið og léttinn sem felst í því að fækka veraldlegum eigum.

Verkefni 333

Árið 2021 tók Carver málin í sínar hendur þegar henni þótti fataskápurinn vera orðinn fullmikill stressvaldur. Hún ákvað að fara í átak sem fólst í því að takmarka innihald fataskápsins við 33 hluti (flíkur, skó og fylgihluti) í þrjá mánuði. Verkefnið kallar hún Project 333.

Carver segir hægt að minnka stress umtalsvert með því að fækka flíkum í skápnum. Þar fyrir utan gefur fatagrisjun betri yfirsýn og meira pláss, sparar pening og minnkar sektarkennd. Þá eru líkur á því að tiltektin í fataskápnum dreifi sér yfir á aðra þætti lífsins. Carver mælir með því að fólk geymi öll föt á sama stað. Þegar föt, skór og fylgihlutir eru úti um allt hverfur yfirsýnin.

Samkvæmt Carver sýna rannsóknir að við notum 20% af fötunum 80% af tímanum. Sjálf hafi hún, eins og svo margir, byrjað morgnana á að stara inn í  yfirfullan fataskápinn kvartandi yfir því að eiga ekkert til að fara í. Í hvert skipti sem hún opnaði skápinn upplifði hún líka samviskubit. Þarna héngu föt sem voru vitnisburður um mislukkuð innkaup, peningaeyðslu sem ekki var hægt að réttlæta, föt í stærðum og sniðum sem ekki hentuðu lengur og jafnvel gjafir sem voru gefnar af góðum hug en höfðu aldrei fallið í kramið. Carver mælir með því að fólk geymi öll föt á sama stað. Þegar föt, skór og fylgihlutir eru úti um allt hverfur yfirsýnin. Ef verðmiðinn hangir enn á flíkinni er rétt að gefa hana. Flíkin með miðanum á gerir ekkert annað en minna þig á slæm kaup.

Sjálf segir Carver það hafa komið sér á óvart hversu mikil viðbrögð hún fékk við Project 333 en henni var meðal annars boðið í þátt Opruh Winfrey til að segja frá reynslu sinni. Á vefsíðunni bemorewithless.com má finna góðar ráðleggingar fyrir þá sem vilja láta á það reyna að takmarka fataskápinn við 33 hluti í þrjá mánuði.

Efnishyggjutiltekt

The Home Edit er angi af þeirri tiltektartísku sem tröllríður öllu um þessar mundir en á í raun ekkert skylt við mínímalískan lífsstíl eða naumhyggju. Vinkonurnar Clea Shearer og Joanna Tepli stofnuðu fyrirtækið The Home Edit árið 2015. Þær bjóða upp á tiltektarþjónustu og selja einnig alls kyns skipulagsvarning. Á sölusíðu fyrirtækisins homeedit.com má sjá óendanlegt úrval af hirslum, merkimiðum og herðatrjám sem auðveldlega freista fólks í tiltektarhugleiðingum. Hér er þó ekki gerð krafa um að fólk minnki við sig draslið, þvert á móti miðast aðferðin við að koma því öllu fyrir á skipulagðan hátt, helst í gagnsæjum plasthirslum af öllum stærðum og gerðum, og skal öllu raðað eftir lit, meira að segja pökkuðum matvörum í eldhússkápum.

Árið 2020 kom út þáttaröð á Netflix, Get Organised, sem sýnir þær stöllur fara á heimili fólks, ríkra og frægra sem og almúgans, og taka til hendinni. Vörulínu þeirra er óspart hampað í þáttunum enda virðist ekki hægt að ná stjórn á hlutunum nema með sérstökum ílátum og hirslum svo sem litlum plasthirslum fyrir eyrnapinna, plastílátum fyrir morgunkornið eða plastupphækkunum fyrir dósirnar aftast í skápnum. Hafa þættirnir verið gagnrýndir fyrir að líkjast meira allsherjar auglýsingu fyrir vörumerkið og ýta undir neysluhyggju frekar en hitt.

Sem flestu skal komið fyrir í plastílátum eða annars konar hirslum en þær stöllur hafa einmitt lifibrauð sitt af því að selja ílát og skipulagsvarning.

Þess virði að sleppa takinu

Vinirnir Joshua Fields Millburn og Ryan Nicodemus hafa boðað mínímalískan lífsstíl um árabil. Báðir voru þeir vel stæðir og í góðum störfum en eftir persónulegt áfall ákvað Millburn að breyta um lífsstíl. Hann losaði sig við megnið af persónulegum eigum og varð allur annar. Nicodemus sá jákvæða breytinguna á vini sínum og spurði hverju sætti. Í framhaldinu ákvað hann að fara sömu leið og úr varð samvinna sem hefur skotið þeim félögum upp á stjörnuhiminn grisjara. Þeir halda úti vefsíðunni theminimalists.com. og hafa gefið út nokkrar bækur og tvo Netflix-þætti og haldið fjölda fyrirlestra.

Það er þó ekki svo, að þeirra sögn, að lífið breytist ósjálfrátt til hins betra bara við það að grynnka á dótinu. Tæknilegi hlutinn sé ekki erfiður, þ.e. að losa sig við eigurnar, en ef fólk er ekki með það á hreinu hvers vegna það leggur í þessa vegferð eru líkur á að allt fari í sama farið. Fólk skilgreinir sig gjarnan út frá efnislegum eigum og trúir því að hlutir færi því gleði og hamingju. Eigurnar eru þó ekki vandamálið í sjálfu sér heldur sú staðreynd að við tengjumst þeim tilfinningalegum böndum og það heftir okkur. Það geti verið erfitt að sleppa takinu en það sé vel þess virði.

Sankarar í dulargerfi

Millburn og Nicodemus hafa illan bifur á tiltektarsérfræðingum, „organizers“, eins og þeim sem áður hafa verið nefndir, og segja þá sigla undir fölsku flaggi. Það sé í raun enginn munur á þeim og sönkurum (e. hoarders). Báðir hafa það markmið að sanka að sér meira dóti en sankararnir eru litnir hornauga ólíkt þeim sem kunna að koma öllum eigum sínum skipulega fyrir. Þegar öllu er á botninn hvolft sé tiltektarskipulagsáráttan þó ekkert annað en vel skipulögð sönkun sem eigi ekkert skylt við naumhyggju.

Breyttur lífsstíll - betra líf

Árið 2016 gaf Áslaug Guðrúnardóttir út bókina Mínímalískur lífsstíll – það munar um minna, þar sem hún segir frá reynslu sinni og gefur góð ráð. Neytendablaðið náði tali af Áslaugu til forvitnast um reynslu hennar.

Þegar Áslaug er spurð um kosti þess að stunda mínímalískan lífsstíl nefnir hún léttinn sem fylgir minni óreiðu. „Þegar búið er að losa sig við allan óþarfa fer minni tími í tiltekt og þar af leiðandi er auðveldara að halda í horfinu.“ Áslaug segir einnig að mínímalískur lífsstíll sé góður fyrir fjárhaginn því fólk hætti hugsunarlausum innkaupum. Fólk kaupi gjarnan betri og vandaðri hluti sem endast en sjálf segist hún leyfa sér að kaupa vönduð föt og þá skipti verðið ekki öllu máli.

En hvernig leiddist hún inn á þessa braut? Áslaug segist alltaf hafa viljað hafa hlutina í röð og reglu og aldrei verið mikil neysluhyggjumanneskja. Hún hafi þó ekki stigið skrefið til fulls fyrr en fjölskyldan flutti úr 300 fermetra einbýlishúsi í mun minna hús. Áslaug áætlar að við flutninginn hafi þau hjónin losað sig við tvo þriðju af öllu því sem var í stóra húsinu og því fylgdi mikill léttir. Áslaug segir það koma fyrir að hún sakni hússins, sérstaklega garðsins og kannski þess að geta haldið stórar veislur en það séu þó smámunir.

Aðspurð segir Áslaug að það skipti máli fyrir hjón eða sambýlisfólk að vera samstíga en hvernig gekk henni að fá manninn sinn með á vagninn? Áslaug segist hafa fengið sjokk þegar hún sá fataherbergið hans í fyrsta skipti. „Þar voru öll jakkaföt lífsins og allt sem þeim fylgdi, maðurinn hafði ekki notað bindi árum saman en samt átti hann um það bil 50 stykki svo það má ímynda sér safnið af öllu hinu, bæði fötum og skóm. Ég fékk náðarsamlegast leyfi (eftir að við fórum að búa saman) til að hjálpa honum að grisja þetta og síðan hefur hann verið mun meðvitaðri um þessa hluti.“

Tekið til í dagskránni

Áslaug leggur áherslu á að mínímalískur lífsstíll snúist ekki aðeins um að fækka veraldlegum eigum heldur líka að einfalda lífið. Öll eigum við það til að fylla dagskrána af ótal verkefnum og viðburðum og sumt gerum við meira af skyldurækni en af áhuga. Það sé því ákveðin andleg tiltekt fólgin í því að skera niður dagskrána og hægja á.

Áslaug segir börn ekki síður njóta ágóðans af mínímalískum lífsstíl enda bendi margt til að börnum líði ekki alltof vel í þeim hraða lífsstíl sem við höfum tileinkað okkur. Börn eigi gjarnan allt of mikið af dóti og hafi of mikið að gera rétt eins og foreldrarnir. Tómstundir og félagslíf barna er vissulega mikilvægt en það sé líka hægt að gera of mikið af því góða. Flestir foreldra þurfa að erindast með börnin og það geti verið mikill streituvaldur og engum til ánægju. Það verður vissulega ekki hjá því komist að erindast en í anda mínímalísks lífsstíls væri markmiðið að fækka slíkum ferðum og reyna að komast í þær án barna ef það er hægt.

 

Áslaug heldur mikið upp á þetta fallega bollastell sem áður var í eigu ömmu hennar og afa. Hún segist nota það þegar gestir koma í kaffi enda engin ástæða til að spara fallega muni eins og okkur hættir oft til.

Að lokum er ekki úr vegi að spyrja hvað fólk geti gert til að halda sér við efnið. Er hætta á því allt fari aftur í sama farið og dótið byrji hægt og sígandi að safnast aftur upp? Áslaug segir það ekki sína upplifun, þvert á móti séu allar líkur á að þessi breyting á hugarfari og lífsstíl verði varanleg þó að hún eins og aðrir þurfi að hreinsa til í kringum sig öðru hvoru. „Hver vill ekki meiri tíma, meira pláss, meiri pening og meiri ró,“ segir Áslaug að endingu.

Neytendablaðið haust 2021

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

Deila:

Facebook
Twitter
Póstur

Fleira áhugavert

Eftir úttekt heilbrigðisfulltrúa í Danmörku fær fyrirtækið einkunn í formi broskarls. Kerfið hefur reynst vel enda eykur það gagnsæi.
Þrátt fyrir að hægt sé að bæta umferðaröryggi sitja sjálfsagðar úrbætur oft á hakanum
Eru hátæknisnjallburstar betri kaup en gamli góði tannburstinn? Við því er ekkert einhlítt svar.

Takk fyrir áhugann!

 Þetta vefsvæði er kostað af árgjöldum félaga í Neytendasamtökunum.

Ef þú ert ekki þegar í samtökunum biðjum við þig að íhuga að ganga í þau. Árgjaldið er 7.900 kr.