Gulur, rauður, grænn og blár

Litarefni í mat gefa lífinu lit en þau eru jafn ólík og þau eru mörg. Sum eru náttúruleg á meðan önnur eru gerfiefni sem ekki ætti að neyta í miklum mæli.

Hálf öld er síðan bandaríski barnalæknirinn Benjamin Feingold setti fram þá kenningu að gervilitarefni í mat, svokölluð asó-litarefni, gætu haft áhrif á ofvirkni hjá börnum. Feingold, sem var sérfræðingur í ofnæmislækningum barna, mælti með mataræði án gervilitarefna, gervibragðefna og ákveðinna rotvarnarefna.

Asó-litarefni voru bönnuð í matvælum á Íslandi allt til ársins 1997. Þá voru efnin leyfð þar sem Ísland tók upp matvælalöggjöf Evrópusambandsins í gegnum EES-samninginn. Sömu reglur gilda því um aukefni í matvörum hér á landi og í löndum sambandsins.

Í áratugi hafa verið uppi grunsemdir um að asó-litarefni sem notuð eru í matvæli hafi óæskileg áhrif á börn og að tengsl séu á milli neyslu þeirra og ofvirkni. Í Bretlandi, nánar tiltekið í Southampton-háskóla, voru þessi tengsl rannsökuð. Niðurstöður rannsóknar sem breska matvælastofnunin fjármagnaði lágu fyrir árið 2002. Þær þóttu ekki afgerandi og var því ráðist í stærri rannsókn enda þótti ástæða til að kanna málið nánar þar sem heilsa barna væri í húfi. Læknatímaritið The Lancet birti síðan niðurstöður þessarar nýju könnunar árið 2007, og vöktu þær mikla athygli, en þær gáfu til kynna að neysla barna á sex asó-litarefnum, auk rotvarnarefnisins E211, gæti haft neikvæð áhrif á hegðun þeirra.

Hvað eru asó-litir?

Asó-litarefni eru manngerð, unnin úr jarðolíu, og mikið notuð í fataiðnaði en hafa einnig verið vinsæl í matvælaframleiðslu, s.s. í sælgæti og aðra litríka framleiðslu. Efnin eru stöðug, þ.e. þau þola vel suðu og frystingu og endast lengi án þess að liturinn dofni. Asó-litirnir sex sem skylt er að varúðarmerkja á umbúðum eru: tartrasín (E102), kínólíngult (E 104), sólsetursgult (E110, asórúbín (E122), ponceau 4R (E124) og allúrarautt (E129).

Varúðarmerkingin nær bara yfir þau efni sem voru í fyrrnefndri rannsókn Aðrir asó-litir eru amarant (E123), gljáandi svart PN (E151), brúnt HT (E155) og litólrúbín BK (E180). Bláir gervilitir E132 og E133 flokkast strangt til tekið ekki sem asó-litir en eru umdeildir engu að síður.

Skylt að vara við

Frá árinu 2010 hefur framleiðendum verið skylt að varúðarmerkja umbúðir ef vara inniheldur einhver hinna sex litarefna. Á merkingunni skal standa E-númer litarefnis og textinn „getur/geta haft neikvæð áhrif á athafnasemi og eftirtekt barna“.

Varúðarmerkingin má vera á ensku, „May adversely affect children's activity or attention“, og á Norðurlandamáli, öðru en finnsku, sem Neytendasamtökin telja sérkennilegt. Þyki ástæða til að vara við matvöru ætti merkingin að vera á íslensku. Sem dæmi verður varúðarmerking á sterkum koffíndrykkjum að vera á íslensku. Þá má færa rök fyrir því að varúðarmerking eigi að skera sig úr með einhverjum hætti. Neytendur eiga ekki að þurfa að rýna í smáa letrið á umbúðum og leita að varúðarmerkingu, sem jafnvel er á erlendu tungumáli.

Neytendasamtökin fjölluðu ítarlega um asó-liti á sínum tíma og hvöttu framleiðendur til að skipta litunum út fyrir náttúruleg litarefni. Það væri eðlileg krafa að neytendur, ekki síst börn, nytu vafans. Svo virðist sem íslenskir matvælaframleiðendur hafi að mestu skipt asó-litum út fyrir náttúruleg litarefni og er það vel, enda ekki vænlegt að selja mat sem þarf að vara við. Enn má þó því miður finna sælgæti með hinum umdeildu litum og oftar en ekki er varúðarmerkingin illsjáanleg.

Þótt úrvalið af matarlit úr náttúrulegum hráefnum hafi aukist mikið má enn finna matarlit með hinum umdeildu asó-litum. Neytendablaðið fann algenga tegund matarlits, Rayners, sem ætti með réttu að vera varúðarmerkt. Var Matvælastofnun gert viðvart um málið og seljendum einnig sent erindi og þeir hvattir til að bjóða upp á náttúrulegan matarlit.

Sjö aukefni burt úr skólum

Þegar umræðan um asó-litarefnin stóð sem hæst var málið skoðað af Matvæla- og lyfjastofnun Bandaríkjanna, sem komst að þeirri niðurstöðu að ekki væri þörf á varúðarmerkingum líkt og í Evrópu. Nú hefur hins vegar verið lagt fram frumvarp í Kaliforníuríki um að banna sjö aukefni í matvörum í opinberum skólum. Um er að ræða þrjú asó-litarefni; E102, E110, og E129, en þessi efni gefa mat rauðan og gulan lit og eru algengustu litarefnin í mat í Bandaríkjunum. Tvö blá litarefni eru á listanum og eitt grænt; E133, E132 og E143. Bláa efnið E133 (skærblár FCF) hefur lengi verið undir smásjánni og græna litinn E143 er ekki heimilt að nota í mat í Evrópusambandinu. Hið sama gildir um sjöunda efnið E171 (títandíoxíð), sem er hvítt litarefni.

Bandarísku neytendasamtökin Consumer reports fagna frumvarpinu og segja það skref í rétta átt en framleiðendur eru margir hverjir ósáttir og gera lítið úr hættunni.

E-efni eiga að vera örugg

Aukefni í mat fá hvert um sig E-númer sem vísar til flokkunarkerfis Evrópusambandsins. Litarefni eru flokkuð frá 100-199 og þau hafa í fæstum tilfellum annað hlutverk en að fegra matinn eða gera hann girnilegri. Litarefnin geta verið náttúruleg eða manngerð. Til dæmis er guli liturinn E100 kúrkúmin unninn úr rót túrmeriks og rauði liturinn E162 rauðrófulitur (betanín) úr rauðrófum. Mörg litarefni eru þó úr efnum sem ekki teljast til matvæla.

Einungis er heimilt að nota þau E-efni sem Matvælaöryggisstofnun Evrópu hefur samþykkt. Sum aukefni má nota án takmarkana en þá sýna engin gögn fram á að neyslan geti verið skaðleg. Önnur efni má einungis nota í takmörkuðum mæli og í tiltekin matvæli, svo sem E127, sem gefur niðursoðnum kirsuberjum eldrauðan lit, og E123, sem má bara nota til að lita fiskihrogn og ákveðnar víntegundir. Matvælaöryggisstofnunin endurmetur stöðuna ef nýjar upplýsingar koma fram, rétt eins og í asó-litarmálinu á sínum tíma.

Árið 2019 ákváðu frönsk stjórnvöld að banna notkun á E171 (títandíoxíð) þar sem ekki væri hægt að sýna fram á að efnið væri öruggt til neyslu. Evrópusambandið fylgdi í kjölfarið og frá árinu 2022 hefur ekki verið heimilt að nota E171 í matvörur. Það er hins vegar enn þá leyft sem litarefni í tannkrem, sem er gagnrýnivert.

Það má því allt eins gera ráð fyrir því að aukefni sem leyfð eru í dag geti farið á bannlista í framtíðinni eða notkun þeirra takmörkuð frá því sem nú er. Ný efni geta þó líka bæst í úrvalið og nýlega bárust áhugaverðar fréttir af íslenskri framleiðslu á bláu litarefni sem unnið er úr þörungum.

Litarefni í mat gefa lífinu vissulega lit en í dag er nægt úrval af náttúrulegum litarefnum. Fáar ef nokkrar vörur þurfa þar af leiðandi að innihalda umdeild litarefni sem hugsanlega væru ekki sett á markað í dag.

Neytendablaðið vor 2024

Deila:

Facebook
Twitter
Póstur

Fleira áhugavert

Ítarleg kortlagning hefur verið gerð á PFAS menguðum svæðum í Evrópu. Erfitt ef ekki ómögulegt getur reynst að hreinsa slík svæði.
Litarefni í mat gefa lífinu lit en þau eru jafn ólík og þau eru mörg. Sum eru náttúruleg á meðan önnur eru gerfiefni sem
Það færist í vöxt að fólk kaupi vörur af netinu í gegnum það sem kallast á ensku „dropshipping“, hvort sem fólk gerir sér grein

Takk fyrir áhugann!

 Þetta vefsvæði er kostað af árgjöldum félaga í Neytendasamtökunum.

Ef þú ert ekki þegar í samtökunum biðjum við þig að íhuga að ganga í þau. Árgjaldið er 7.900 kr.