Hampur er mikil nytjajurt og nær saga hampræktar árþúsundir aftur í tímann. Hægt er að vinna margvíslegar vörur úr hampi, allt frá iðnaðarvöru til matvæla og snyrtivara auk þess sem plantan bindur mikinn koltvísýring og bætir jarðveg. Hampur er því afar umhverfisvæn og notadrjúg nytjajurt sem vex jafnt í suðrænum löndum sem á norrænni slóðum. En hvers vegna er hamprækt þá ekki útbreiddari en raunin er?
Hampur (Cannabis Sativa) og marijúana (Cannabis Indica) eru náskyldar plöntur enda báðar af kannabisætt. Efnið THC – sem veldur vímu sé þess neytt – er að finna í miklu magni í marijúana en finnst hins vegar aðeins í snefilmagni í hampi sem er alls ekki nóg til að valda vímu. Ræktun á kannabis var útbreidd bæði í Bandaríkjunum og Evrópu fram á síðustu öld enda notagildið óumdeilt. Þá ávísuðu læknar lyfjum með og án THC við ýmsum sjúkdómum og kvillum. Á árunum fyrir seinni heimsstyrjöldina fóru stjórnvöld í auknum mæli að þrengja að ræktuninni en þá hafði almenn notkun á marijúana aukist í landinu. Árið 1937 var sem dæmi lagður hár skattur á alla kannabisræktun í Bandaríkjunum, óháð tegund, sem dró verulega úr framleiðslunni. Þegar seinni heimsstyrjöldin skall á voru bændur hins vegar skikkaðir til að rækta hamp því trefjarnar voru svo mikilvægar í stríðsreksturinn, eins og til að framleiða poka, fatnað, fallhlífar, reipi og slíkt.
Rammi: Þau hugtök sem notuð eru yfir kannabis og undirtegundir eru nokkuð á reiki og á það eflaust sinn þátt í þeim ruglingi sem víða ríkir. Oft er talað um marijúana þegar vísað er til þeirrar tegundar sem inniheldur virka efnið THC, sem veldur vímu og er af plöntutegundinni Cannabis Indica, en hamp, eða iðnaðarhamp, þegar talað er um tegundina sem hentar í iðnaðarframleiðslu og er af plöntutegundinni Cannabis Sativa, sem inniheldur aðeins snefilmagn af THC.
Önnur ástæða þess að svo mjög dró úr hamprækt þegar leið á 20. öldina er innkoma plastefna á neytendamarkað. Það bætti því gráu ofan á svart þegar stórfyrirtæki á sviði plasts úr hráolíu beittu stjórnvöld þrýstingi til að koma sínum hagsmunum á framfæri, sem voru að greiða leið plastefna á markað á kostnað hampsins. Nælon var með fyrstu plastvörunum og gat, sem dæmi, auðveldlega leyst hampreipið af hólmi hvað varðar styrkleika, auk þess að vera ódýrari kostur.
Ástæðan fyrir vaxandi vinsældum hampsins á undanförnum árum er helst sú að notagildið er óumdeilt. Eins og áður segir er hægt að framleiða óteljandi vörur úr plöntunni, allt frá níðsterku trefjaefni sem nýtist í byggingariðnaði yfir í fæðubótarefni. Þá vegur þungt að rík eftirspurn er eftir náttúrulegu og umhverfisvænu hráefni, ekki síst nú þegar nauðsynlegt er að þróa efni sem komið geta í stað plasts. Stjórnvöld eru því víða að snúa við blaðinu; þrengja að plastframleiðslu og banna ákveðnar tegundir plastvara og losa um leið um þau höft sem hamprækt hefur búið við. Þetta hefur þó gerst hægt og ekki eru nema fjögur ár síðan ræktun á hampi var alfarið gefin frjáls í Bandaríkjunum. Sífellt fleiri lönd eru að taka við sér enda getur slugsaháttur í þessum efnum orðið til að lönd missi samkeppnisforskot, en enginn efast um að eftirspurn eftir afurðum hampsins muni bara aukast í framtíðinni. Frakkland er eina landið í Evrópu þar sem aldrei hafa verið settar neinar hindranir á hamprækt og kemur því ekki á óvart að helmingur alls hamps sem ræktaður er í álfunni kemur frá Frakklandi.
CBD olía er unnin úr blómum og laufum hampplöntunnar og er hún nýtt í matvæli, fæðubótarefni og snyrtivörur. CBD-olía þykir reynast vel við ýmsum kvillum og verkjum og hefur eftirspurnin því aukist mjög á undanförnum árum. Á blómum og laufum hampsins eru yfir 130 kannabínóðar og er CBD þeirra þekktastur og mest rannsakaður. Kannabínóðarnir eru einangraðir með ákveðnum aðferðum þannig að eftir verður extrakt sem síðan er blandað út í olíu til að auðvelda inntöku. Ef allir kannabínóðarnir eru í olíunni kallast hún „full spectrum“. Ef búið er að fjarlægja THC í vinnsluferlinu kallast hún „broad spectrum“ og ef búið er að einangra einn kannabínóða, yfirleitt CBD, þá kallast hún „isolated“.
Nokkur óvissa hefur verið varðandi regluverkið hér á landi en Evrópudómstóllinn úrskurðaði í nóvember 2020 að CBD-olía flokkist sem matvæli. Því er erfitt fyrir íslensk stjórnvöld í dag að fetta fingur út í innflutning, framleiðslu og sölu á CBD-vörum.
Hampfræolía (stundum kölluð hampolía) er hins vegar kaldpressuð úr fræjum hampjurtarinnar og er notuð til inntöku, í matseld og í húð- og hárvörur. Hampfræolía inniheldur kannabínóða aðeins í snefilmagni, en er hins vegar rík af meðal annars omega 3 og þykir því hollur kostur, en margar algengar tegundir jurtaolíu innihalda hátt hlutfall omega 6 en minna af omega 3.
Til eru heimildir um að hampur hafi verið ræktaður í Viðey á árunum 1782–1784. Fer síðan litlum sögum af hamprækt allt til ársins 2008, þegar Sveinn, kenndur við Kálfskinn í Eyjafirði, gerði tilraunir með hamprækt á fjórum stöðum á landinu. Þrátt fyrir að ræktunin hafi gengið mjög vel vöktu niðurstöðurnar lítinn áhuga á þeim tíma og lagðist hún því af. Sumarið 2019 hófu hjónin Pálmi Einarsson og Oddný Anna Björnsdóttir hamprækt á landi sínu Gautavík í Berufirði. Neytendablaðið sló á þráðinn austur og náði tali af Oddnýju sem gaf sér tíma í spjall þrátt fyrir annir við smalamennsku. Oddný segir þau hjónin lengi hafa verið spennt fyrir þeim möguleikum sem hampurinn býður upp á og að Pálmi hafi sem dæmi tekið þátt í lítilli tilraunaræktun árið 2013. Það voru þó ýmis ljón í veginum í upphafi sem náðu hápunkti þegar lögreglan mætti heim á hlað á heimili þeirra hjóna eftir að Lyfjastofnun kærði ræktun þeirra sem Matvælastofnun hafði áður heimilað. Kæran var felld niður enda ekkert lögbrot í gangi og voru þessu máli gerð ítarleg skil í fjölmiðlum á sínum tíma. Í framhaldinu var lögum breytt og í dag er öllum heimilt að rækta hamp og hefur hampræktendum fjölgað mjög. Oddný segir að samkvæmt könnun Hampfélagsins hafi hampur verið ræktaður á að lágmarki 150 hekturum í sumar, sem er fimmfalt meira en sumarið 2020.
Frá árinu 2000 hafa bændur í ríkjum Evrópusambandsins getað fengið styrki til ræktunar hamps. Hampurinn er ekki enn kominn formlega inn í styrkjakerfið hér á landi enda stutt síðan lögum var breytt hér í þá veru að skilgreina hamp sem nytjajurt. Samkvæmt formanni Bændasamtakanna Gunnari Þorgeirssyni ættu hampræktendur að geta sótt um almennan jarðræktarstuðning. Það sé hins vegar ekki búið að skilgreina nógu vel stuðning við nytjajurtir og það sé eitt af þeim verkefnum sem framundan séu.
Sú spurning vaknar eðlilega hvort hampurinn þoli almennt íslenskar aðstæður og veðráttu. Oddný segir svo vera: „Við höfum nú ræktað hamp í þrjú sumur og reynslan sýnir að hampur vex vel hér á landi. Hann þarf mikla næringu þar sem hann vex hratt og verður mjög efnismikill. Við settum sem dæmi 50 tonn af kúaskít í einn hektara í vor og munum setja enn meira næsta vor.“ Oddný segir mikilvægt að hampurinn fái sem mest skjól fyrir veðri og vindum því þegar hann er orðinn hár vill hann leggjast í vindinum og blómin og laufin geta látið á sjá. „Eins er gott að sá þéttar en gert er erlendis svo plönturnar fái skjól frá hver annarri. Væta er að sjálfsögðu nauðsynleg en hampurinn þarf ekki mikið vatn. Ef meðalhitinn yfir sumarið nær tveggja stafa tölu virðist það nægja til að fá góðan vöxt.“ Það skipti þó máli hvaða yrki er notað.
„Við erum aðallega með yrki sem kallast Finola, sem er svokallað blómayrki því við nýtum aðallega blómin. Stönglarnir verða ekki digrir og trefjaríkir og henta því ekki til iðnaðarframleiðslu en nýtast sem undirburður fyrir skepnur og jafnvel sem fóður. Þeir sem ætla að nýta stönglana hafa verið að rækta Futura, sem er trefjayrki sem við prófuðum fyrsta sumarið. Við höfum líka verið að rækta Felina, sem er bæði blóma- og trefjayrki og verður mun hærra en Finolan, en blómavöxturinn hefst seinna, sem hentar síður hér á landi þar sem sumarið er svo stutt. Finola, Felina og Futura eru öll fimm mánaða yrki, en við þurfum að finna góð fjögurra mánaða yrki svo plantan nái fullum blómavexti og nái að búa til fullþroskuð fræ fyrir fyrstu haustlægð og næturfrost. Vandamálið er að við megum bara flytja inn þau yrki sem eru á sáðvörulista ESB og hafa ekki verið þróuð fyrir svona stutt og svöl sumur, en ekki þau sem eru notuð t.d. í Kanada og Alaska. Verkefni bænda næstu árin er því að finna yrki sem henta vel á norðlægum slóðum.“
Þegar kemur að nýtingu hampsins hér á landi segir Oddný möguleikana óendanlega hvort heldur sem er í matvæli, fæðubótarefni, snyrtivörur eða iðnaðarvörur eins og trefjaplötur, þ.m.t. parket, og sem einangrun, bio-plast, pappír, textíl og steypu. „Fram að þessu höfum við þurft að flytja inn mestallt hráefni í íslenskan iðnað, en með tilkomu innlendrar hampræktunar höfum við tækifæri til að verða mun sjálfbærari um hráefni sem er auðvitað afar jákvætt. Nú þegar eru fjölmörg þróunarverkefni í gangi hringinn í kringum landið þar sem verið er að þróa allskyns vörur eins og hampplast.“
Oddný og Pálmi hafa fyrst og fremst nýtt framleiðslu sína í hampte. „Þá tínum við blómin og laufin næst þeim af hampinum, þurrkum, mölum og pökkum í tepoka. Við framleiðum einnig hampsmyrsl en þá látum við þurrkuðu blómin og laufin malla í kókosolíu við lágan hita og síum þau svo frá. Í smyrslinu eru því sömu kannabínóðar og í tevatninu en eru þá teknir inn í gegnum húðina en CBD-húðvörur njóta vaxandi vinsælda. Pálmi hefur einnig gert alls kyns tilraunir með trefjarnar og trénið sem stönglarnir eru úr. Hann hefur búið til trefjaplötur og skorið út úr þeim gjafavörur, steypu, pappír og batterí, svo eitthvað sé nefnt. Allt er það enn tilraunaframleiðsla.“
Þegar Oddný er spurð hvað það sé við hampinn sem heilli svo mjög segir hún margt koma til. Hampurinn sé umhverfisvænn, notagildið mjög fjölbreytt og neysla hans hafi jákvæð áhrif á heilsu manna og dýra. „Samkvæmt kínverskri goðsögn færðu guðirnir mönnunum eina plöntu að gjöf sem átti að fullnægja flestum þörfum þeirra og var sú planta hampurinn. Sumir telja að þegar hampurinn var tekinn út úr fæðukeðjunni hafi heilsu manna hrakað og þess vegna finni þeir svo mjög fyrir heilsubætandi áhrifum þegar honum er bætt í mataræðið. Áður en hann var bannaður óx hann villtur og búfé, til dæmis í Bandaríkjunum, nærðist á honum og fékk mannfólkið þá kannabínóðana í gegnum kjötið, mjólkina og eggin en neytti hans líka beint og notaði sem lyf og fæðubótarefni.“
Eftir að hafa verið útskúfað úr hefðbundnum landbúnaði víða um lönd er hampinum nú hampað sem aldrei fyrr. Oddný og Pálmi hafa unnið mikið brautryðjendastarf og verið dugleg að deila dýrmætri reynslu sinni og þekkingu. Hampræktun á Íslandi er því eflaust komin til að vera.
Þetta vefsvæði er kostað af árgjöldum félaga í Neytendasamtökunum.
Ef þú ert ekki þegar í samtökunum biðjum við þig að íhuga að ganga í þau. Árgjaldið er 7.900 kr.