Illt í efni

Ítarleg kortlagning hefur verið gerð á PFAS menguðum svæðum í Evrópu. Erfitt ef ekki ómögulegt getur reynst að hreinsa slík svæði.

Þrátt fyrir að Evrópusambandið hafi sett eina ströngustu efnalöggjöf í heimi eru íbúar álfunnar útsettir fyrir efnamengun í hættulega miklum mæli. Af ýmsu er að taka þegar manngerð efni eru annars vegar en PFAS-efnin (perflúorefni) hafa verið sérstaklega undir smásjánni eins og lesendur Neytendablaðsins kannast við. Um er að ræða stóran efnahóp sem telur mörg þúsund tegundir og hefur margvísleg skaðleg áhrif á líf og heilsu fólks. Efnin hafa verið notuð í algengar neysluvörur allt frá 1950 en þau hrinda frá sér vatni og fitu og eru því að mörgu leyti nytsamleg. Þar sem þau eru þrávirk finnast þau nú bæði í lífverum og í umhverfinu um allan heim. Það er því brýnt að ná böndum yfir þennan efnaflokk sem allra fyrst.

PFAS-mengun mælist víða

Fjölmörg dæmi eru um að mikið magn PFAS-efna greinist í fólki vegna mengunar í jarðvegi, í grunnvatni eða í lofti. Við sögðum frá því í 1 tbl. 2023 að íbúar í danska bænum Korsør hefðu margir mælst með óvenju hátt magn PFAS-efna í blóði, nánar tiltekið PFOS sem búið er að banna. Rekja mátti mengun í  jarðvegi til slökkvitækja, eða öllu heldur froðunnar, sem slökkvilið bæjarins notaði við æfingar.

Annað áþekkt dæmi er frá bæjunum Ronneby og Kallinge í Svíþjóð þar sem drykkjarvatn mældist verulega mengað af PFAS-efnum og mældust íbúar með mikið PFAS-efna í blóði. Ástæðan var slökkvifroða sem notuð hafði verið til æfinga í herstöð í nágrenninu. Á síðasta ári komst hæstiréttur í Svíþjóð að þeirri niðurstöðu að íbúarnir ættu rétt á skaðabótum.

Á Ítalíu, nánar tiltekið í Veneto-héraði í norðurhluta landsins, var drykkjarvatn 350.000 íbúa mengað af PFOA vegna nálægrar efnaverksmiðju. Í Antwerpen í Belgíu fannst mikið magn PFOS í lofti og jarðvegi og í blóði íbúa sem bjuggu nálægt efnaverksmiðju.

Árið 2022 kom í ljós að drykkjarvatn í franska bænum Rumilly var mengað af PFOA, sem þó hafði verið bannað frá 2020. Var mengunin rakin til verksmiðju Tefal sem framleiðir m.a. pönnur. Fyrirtækið segist hafa hætt að nota PFOA strax árið 2013 þegar fyrir lá að efnið yrði bannað. Efnin hverfa þó ekki úr umhverfinu þótt framleiðendum sé gert að nota önnur og skárri efni, skaðinn er skeður. Annað stórt mál kom upp í Lyon í Frakklandi árið 2022 þar sem efnafyrirtæki hafði skolað miklu magni PFAS-efna út í ána Rín með tilheyrandi mengun

Nýlega kom í ljós að PFAS-mengun á og við Schiphol-flugvöll í Amsterdam er mun meiri en áður var talið. Það má meðal annars rekja til slyss sem varð árið 2008 þegar mikið magn af slökkvifroðu var losað út í umhverfið. Svo mikið er af menguðum jarðvegi við Schiphol að stjórn flugvallarins hefur farið fram á það við stjórnvöld að fá að losa úrganginn annars staðar. Magn úrgangsins er 200.000 rúmmetrar. Ekki er lengur pláss fyrir úrganginn á svæðinu og íbúar í nágrenni við völlinn hafa eðlilega áhyggjur af stöðunni.

Kortlagning á PFAS-mengun í Evrópu

Í fyrra kom út söguleg kortlagning á PFAS-mengun í Evrópu. Hópur fjölmiðla stóð saman að verkinu undir yfirskriftinni „The Forever Pollution Project“, eða Eilífðarefnaverkefnið.  Annars vegar má sjá lista yfir svæði í Evrópu þar sem PFAS-mengun hefur mælst og hins vegar yfir svæði þar sem mengun er líkleg. Rannsóknin leiddi í ljós að í Evrópu mætti finna 2.100 staði þar sem mengun væri það mikil að tala mætti um heita PFAS-reiti. Yfirleitt er um að ræða iðnaðarsvæði, jafnvel frá fyrri tíð, svæði þar sem meðhöndlun iðnaðarúrgangs hefur verið ófullnægjandi og/eða hvar eldvarnarfroða hefur verið notuð í óhófi. Flest eru þetta iðnaðarsvæði (eða fyrrum iðnaðarsvæði) í Mið-Evrópu, Bretlandi og norðurhluta Ítalíu og Frakklands. Danmörk sker sig frá Norðurlöndunum með fjölda heitra reita. Eins og fyrr segir er einnig búið að skilgreina 21.500 líkleg mengunarsvæði í gjörvallri Evrópu og þar af eru nokkur á Íslandi, þ. á m. allir flugvellir landsins, álver og annað iðnaður. Mengun hefur ekki endilega mælst á þessum svæðum en eðli starfseminnar gæti gefið til kynna að þar væri PFAS-mengun. Sem fyrr segir eru allir flugvellir landsins þar á meðal, sem skýrist af því að PFAS-efni hafa verið notuð í afísingarvökva, slökkvifroðu og glussakerfi. Samkvæmt upplýsingum frá Isavia var sú ákvörðun tekin árið 2023 að skipta allri slökkvifroðu út fyrir PFAS-fría froðu.

Kort unnið af Le Monde. Á rauðmerktum svæðum er staðfest PFAS-mengun. Svæði þar sem mengun er talin líkleg eru merkt blá. Ítarlegar upplýsingar má finna um þessa kortlagningu á vefnum foreverpollution.eu. Kort Le Monde í má sjá hér í góðum gæðum.

PFAS-efni í háttsettum embættismönnum

Evrópska Umhverfisskrifstofan og félagasamtökin ChemSec, sem berjast fyrir öruggri efnanotkun, tóku höndum saman og fengu háttsett stjórnmálafólk innan Evrópusambandsins til liðs við sig. Þátttakendur voru frá níu löndum. Þar á meðal var forstjóri Umhverfisstofnunar Evrópu og varaforseti Framkvæmdastjórnar Evrópusambandsins. Allt að sjö mismunandi PFAS-efni fundust í þeim 11 einstaklingum sem tóku þátt og í fimm þeirra var magnið meira en viðmiðunarmörk segja til um. Sum PFAS-efnanna sem fundust í blóði þátttakenda hafa þegar verið bönnuð, svo sem PFOA og PFOS. Markmiðið með athæfinu er að þrýsta á Evrópusambandið að fara í löngu tímabærar endurbætur á efnalöggjöf sambandsins en jafnframt að minna á að enginn er óhultur þegar PFAS-efnin eru annars vegar.

Neytendablaðið vor 2024

 

Deila:

Facebook
Twitter
Póstur

Fleira áhugavert

Ítarleg kortlagning hefur verið gerð á PFAS menguðum svæðum í Evrópu. Erfitt ef ekki ómögulegt getur reynst að hreinsa slík svæði.
Litarefni í mat gefa lífinu lit en þau eru jafn ólík og þau eru mörg. Sum eru náttúruleg á meðan önnur eru gerfiefni sem
Það færist í vöxt að fólk kaupi vörur af netinu í gegnum það sem kallast á ensku „dropshipping“, hvort sem fólk gerir sér grein

Takk fyrir áhugann!

 Þetta vefsvæði er kostað af árgjöldum félaga í Neytendasamtökunum.

Ef þú ert ekki þegar í samtökunum biðjum við þig að íhuga að ganga í þau. Árgjaldið er 7.900 kr.