Loftslagsmerki á mat

Loftslagsmerki á matvöru sýnir kolefnissporið svart á hvítu.

Danir stefna nú á að verða ein fyrsta þjóðin sem innleiðir opinbert loftslagsmerki fyrir matvörur. Markmiðið er að auðvelda neytendum að taka loftslagsvæna ákvörðun við matarinnkaupin. Málið þokast áfram og er stefnt að því að merkingin verði innleidd árið 2025.

Pólitísk ákvörðun

Tekin var pólitísk ákvörðun í Danmörku árið 2020 um að koma á laggirnar opinberu loftslagsmerki sem sýni kolefnisspor á öllum tegundum matvöru. Skipaður var vinnuhópur sem í sátu fulltrúar neytenda, bænda, stjórnvalda, framleiðenda og seljenda. Haldin var vinnustofa þar sem áhugasömum bauðst að taka þátt og við það tækifæri sagði Rasmus Prehn, þáverandi matvælaráðherra Danmerkur: „Loftslagsmerkið þarf að vera svo trúverðugt og einfalt að það nýtist neytendum við innkaupin og að sama skapi vilji framleiðendur og smásalan notast við það.“

Loftslagsáhrif matvöru

Ræktun og framleiðsla matvæla ógnar loftslaginu en matvælakerfi heimsins er ábyrgt fyrir 21–37% af allri losun gróðurhúsalofttegunda. Markmiðum um minni losun verður því ekki náð nema með samdrætti í losun frá matvælaframleiðslu. Mikið hefur verið horft á matarsóun enda er talið að um þriðjungi af öllum mat sé sóað. Áherslan á kolefnisspor matvöru hefur þó farið vaxandi og sem dæmi má nefna að nýjar norrænar næringarráðleggingar taka bæði mið af loftslagsáhrifum og hollustu.

Einfalt merki í lit

Vinnuhópurinn skilaði skýrslu til ráðherra fyrr á þessu ári með helstu niðurstöðum. Camilla Udsen er verkefnastjóri matvæla hjá dönsku neytendasamtökunum Tænk, sem áttu fulltrúa í vinnuhópnum. Hún segir í samtali við Neytendablaðið að Tænk hafi gert ákveðnar kröfur og að tekið hafi verið tillit til þeirra flestra.

Mikil áhersla er lögð á að merkið sé einfalt og auðskiljanlegt því annars þjóni það ekki tilgangi sínum. Mælt er með því að nota bæði liti; fimm liti frá rauðu yfir í grænt, og bókstafina A, B, C, D og E. Litir og bókstafir eru tákn sem neytendur skilja vel og eru til dæmis notuð á rafmagnstæki. Niðurstaðan byggir á rannsókn þar sem kannað var hvers konar merking hugnaðist neytendum best.

Hér má sjá hvernig loftslagsmerkið gæti litið út.

Neytendur eiga einnig að geta borið saman kolefnisfótspor á ólíkum tegundum matvara. Því verði alltaf miðað við 100 gr til að auðvelda samanburðinn. Þá sé mikilvægt að merkið sé á ábyrgð hins opinbera.

Dæmi eru um að einstaka framleiðendur hafi sett heimatilbúin loftslagsmerki sín á mat en ómögulegt er fyrir neytendur að meta trúverðugleika slíkra merkja. Það er því talið mjög mikilvægt að stjórnvöld beri ábyrgð á merkinu og standi fyrir þróun þess, framkvæmd og eftirliti.

Valfrjáls merking

Merkingin verður valfrjáls og segir Camilla að vissulega væri ákjósanlegt að framleiðendum væri skylt að merkja vörur sínar. Það sé hins vegar ekki raunhæft þar sem matvælaregluverkið í löndum Evrópusambandsins er samræmt til að auðvelda frjálsan flutning vöru innan sambandsins. Einstök ríki geta því ekki skyldað seljendur til að setja loftslagsmerki á matvæli.

Í Frakklandi og Hollandi er loftslagsmerki einnig í bígerð, og í Evrópusambandinu eru uppi hugmyndir um sjálfbærnimerkingu á mat sem tekur mið af fleiri þáttum en kolefnissporinu. Var danski vinnuhópurinn sammála um að útreikningar sem liggja að baki loftslagsmerkingunni verði að byggja á alþjóðlegum og viðurkenndum aðferðum. Þannig megi tryggja að hægt verði að þróa merkinguna til samræmis við evrópskt eða alþjóðlegt loftslagsmerki þegar af slíku verður.

Að reikna út kolefnisspor

Markmiðið er að merkinguna verði hægt að nota á allar tegundir matvæla. Það er hins vegar áskorun að reikna kolefnisspor matvæla sem eru samsett úr mörgum hráefnum. Í stað þess að hver og einn framleiðandi þurfi að leggja í þá vinnu var ákveðið að setja upp gagnagrunn sem í er að finna upplýsingar um tiltekinn mat, t.d. ólífuolíu, hnetur og avókadó. Framleiðendur gætu svo nýtt gagnagrunninn til útreikninga á sínum vörum en þeim væri einnig frjálst að nota eigin útreikninga á samsettum matvörum svo framarlega sem þeir byggja á viðurkenndum aðferðum (A-LCA vistferilsgreiningu). Hið opinbera, ríki og sveitarfélög, gæti einnig nýtt sér gagnagrunninn við vistvæn opinber innkaup. Þessi vinna er þó dýr og hefur að sögn Camillu seinkað ferlinu.

Neytendur skortir upplýsingar

Í rannsókn sem Tænk gerði kom í ljós að 54% aðspurðra myndu velja loftslagsvænni vörur ef skýrar og trúverðugar upplýsingar lægju fyrir. Þá sögðust 75% eiga erfitt með að átta sig á loftslagsáhrifum einstakra matvæla ef einungis er horft á þær upplýsingar sem koma fram á umbúðum.

Athyglisverð tilraun var gerð þar sem þátttakendur voru beðnir að raða upp sjö fæðutegundum út frá áhrifum þeirra á loftslagið. Um var að ræða nautasteik, reyktan lax, ost, lifrarkæfu, kjúklingabringu, hummus, banana og gulrót. Aðeins tveimur af 1.144 þátttakendum tókst að raða tegundunum rétt upp og helmingur aðspurðra vissi að nautakjöt hefði hæsta kolefnissporið og gulrót það lægsta. Tilraunin sýnir hversu erfitt það getur verið fyrir neytendur að staðsetja mat á loftslagskvarðann.

Neytendablaðið haust 2023

 

Deila:

Facebook
Twitter
Póstur

Fleira áhugavert

Ítarleg kortlagning hefur verið gerð á PFAS menguðum svæðum í Evrópu. Erfitt ef ekki ómögulegt getur reynst að hreinsa slík svæði.
Litarefni í mat gefa lífinu lit en þau eru jafn ólík og þau eru mörg. Sum eru náttúruleg á meðan önnur eru gerfiefni sem
Það færist í vöxt að fólk kaupi vörur af netinu í gegnum það sem kallast á ensku „dropshipping“, hvort sem fólk gerir sér grein

Takk fyrir áhugann!

 Þetta vefsvæði er kostað af árgjöldum félaga í Neytendasamtökunum.

Ef þú ert ekki þegar í samtökunum biðjum við þig að íhuga að ganga í þau. Árgjaldið er 7.900 kr.