Netsvik – hver er réttur þinn?

Neytendur sem lenda í fjársvikamálum gætu átt ríkari rétt en bankarnir vilja viðurkenna. Það fer eftir eðli svikanna.

Undanfarið ár hefur kvörtunum vegna fjársvikamála stórfjölgað og vekur eftirtekt hversu margslungin svikin eru. Málum sem ratað hafa á borð Neytendasamtakanna má skipta í eftirfarandi yfirflokka: svik í gegnum samskiptaforritið Messenger, tölvupóstasvik, ráðgjafasvik og kortaþjófnað. Í grunninn eiga sömu reglur við um endanlega ábyrgð, óháð því hvers konar svik er um að ræða.

Þegar notandi verður var við óheimila færslu ber honum að tilkynna viðskiptabanka sínum um hana og fara fram á leiðréttingu. Það á líka við þó notandi hafi í ógáti „heimilað“ færsluna. Bankanum ber síðan að skoða hvort færslan hafi verið réttilega framkvæmd og hvernig sannvottun færslunnar hafi farið fram.

Í grunninn ber bankanum að endurgreiða óheimilaðar færslur, svo framarlega sem hann grunar notandann sjálfan ekki um svik. Sé svo, ber bankanum að tilkynna grun sinn til Fjármálaeftirlitsins. Það fer svo eftir eðli svikanna og mati á gáleysi notanda hver ábyrgð bankans er. Hafi notandi lent í kortaþjófnaði ber hann alla jafna ábyrgð að fjárhæð 50 evrum á hverja færslu. Hafi notandi sýnt af sér stórkostlegt gáleysi, t.d. geymt upplýsingar um PIN-númer kortsins á kortinu sjálfu, kann ábyrgð hans að vera ríkari. Sé um ásetningsbrot eða sviksamlega háttsemi af hálfu notandans að ræða hvílir ábyrgð alla jafna alfarið á honum. Oft er tekið tillit til fleiri þátta og því mikilvægt að hvert svikamál sé skoðað fyrir sig. Í einhverjum málum sem samtökin hafa fengið til sín hafa bankarnir reynt að firra sig ábyrgð og ekki upplýst þolendur svika um allan rétt sinn. Beina Neytendasamtökin því til þeirra sem hafa lent í svikum að kanna rétt sinn.

Úrskurður í svikamáli

Fyrr í sumar úrskurðaði úrskurðarnefnd í viðskiptum við fjármálafyrirtæki í máli er varðaði kortaþjófnað. Í málinu hafði einstaklingur notað kort sitt til að greiða í stöðumæli erlendis. Óprúttnir aðilar komust yfir PIN-númer kortsins, hugsanlega með því að fylgjast með innslætti. Í kjölfarið var kortinu svo stolið og það nýtt til að framkvæma tólf greiðslur. Einstaklingurinn lokaði kortinu um leið og hann varð var við úttektirnar og hafði samband við bankann sinn. Fyrir nefndinni var deilt um hvort einstaklingurinn hefði brotið gegn skyldum sínum af ásetningi eða gáleysi. Taldi meirihluti nefndarinnar í málinu að þótt einstaklingurinn hefði sýnt af sér „vangæslu“ væri ekki talið að hann hefði sýnt af sér stórkostlegt gáleysi eða vanrækt skyldur sínar af ásetningi. Niðurstaðan var því sú að notandinn bar ábyrgð að fjárhæð 50 evrum en bankanum var gert að endurgreiða eftirstöðvar.

Að því er samtökin best vita tók bankinn þá ákvörðun að una ekki úrskurði nefndarinnar og málið er því enn óleyst. Einstaklingurinn hefur því þann eina og kostnaðarsama kost að sækja málið fyrir dómstólum vilji hann fá endanlega niðurstöðu í mál sitt. Neytendasamtökin harma það þegar fyrirtæki taka ákvörðun um að verða ekki við úrskurðum kærunefnda enda eru þær sérstaklega hugsaðar til að neytendur hafi raunhæf úrræði til að fá úrlausn í sín mál án þess að þurfa að sækja kostnaðarsamt dómsmál.

Deila:

Facebook
Twitter
Póstur

Fleira áhugavert

Litarefni í mat gefa lífinu lit en þau eru jafn ólík og þau eru mörg. Sum eru náttúruleg á meðan önnur eru gerfiefni sem
Það færist í vöxt að fólk kaupi vörur af netinu í gegnum það sem kallast á ensku „dropshipping“, hvort sem fólk gerir sér grein
Gjaldtaka og arðsemi íslensku bankanna - rýnt í ársskýrslur.

Takk fyrir áhugann!

 Þetta vefsvæði er kostað af árgjöldum félaga í Neytendasamtökunum.

Ef þú ert ekki þegar í samtökunum biðjum við þig að íhuga að ganga í þau. Árgjaldið er 7.900 kr.