Neysludrifin losun gróðurhúsalofttegunda gengur út á að hvert land beri ábyrgð á eigin neyslu. Í Svíþjóð voru uppi hugmyndir um að taka alla losun gróðurhúsalofttegunda með í bókhaldsreikninginn – líka losun vegna neyslu á innfluttum varningi og millilandaflugi. Svíþjóð hefði orðið fyrsta landið í heiminum til að setja slíkt loftslagsmarkmið.
Forsaga málsins er sú að árið 2020 skipaði sænska ríkisstjórnin þverpólitíska nefnd sem skila átti tillögum um hvernig hægt væri að minnka loftslagsáhrif sem almenn neysla veldur. Nefndin fékk tvö ár til verksins og í apríl 2022 tók þáverandi loftslags- og umhverfisráðherra, Annika Strandhäll, við tillögunum.
Jan Bertoft, sem þá var framkvæmdastjóri sænsku neytendasamtakanna Sveriges Konsumenter, fagnaði tillögunum enda höfðu samtökin lengi bent á nauðsyn þess að neysludrifin losun væri tekin með í loftslagsbókhald Svíþjóðar. Bertoft sagði við þetta tilefni; „Ef við ætlum að takast á við loftslagskrísuna verður að taka neysluna með í loftslagsmarkmiðin og við verðum líka að breyta neyslumynstrinu. Með tillögum nefndarinnar höfum við færst skrefinu nær því.“
Í frétt sænsku neytendasamtakanna segir að rúmlega 60% af neysludrifinni losun Svíþjóðar stafi af neyslu á innfluttri vöru og þjónustu og losun frá millilandaflugi. Þessi 60% hafa til þessa ekki verið hluti af loftslagsmarkmiði Svíþjóðar. Ný ríkisstjórn sem tók við valdataumum eftir þingkosningar haustið 2022 hafði hins vegar engan áhuga á málinu og varð því ekkert hvað þessum metnaðarfullu áformum.
Þegar talað er um neysludrifna losun (e. consumption based emission) í tilteknu landi er átt við alla losun koltvísýrings (CO2-ígilda) sem verður til vegna neyslu einstaklinga. Með „allri losun“ er líka átt við þá losun sem verður til við framleiðslu á innfluttum vörum. Neysludrifin losun mælir þannig losun þar sem neyslan á sér stað en ekki þar sem framleiðslan fer fram. Þegar neysludrifin losun er mæld er losunin í raun yfirfærð á neytandann.
Til einföldunar má taka dæmi: Losun vegna framleiðslu á bíl sem íslenskur neytandi kaupir er ekki reiknuð inn í losunarbókhald Íslands. Losun vegna jarðefnaeldsneytis sem bíllinn gengur fyrir fer hins vegar inn í losunarbókhaldið. Ef Ísland reiknaði út neysludrifna losun líkt og Svíþjóð ætlar að gera myndi Ísland einnig taka á sig ábyrgð vegna þeirrar losunar sem verður til vegna framleiðslu á bílnum. Eins og staðan er í dag lendir losun á innfluttum bíl í bókhaldi framleiðslulandsins. Ef neytandi á Íslandi kaupir rafmagnsbíl kemur það vel út fyrir losunarbókhald Íslands, en ekki losunarbókhald framleiðslulandsins.
Stjórnvöld víðast hvar hafa gefið neysludrifinni losun lítinn gaum. Þegar kemur að alþjóðlegum skuldbindingum í loftslagsmálum er það losun innanlands sem skiptir máli. Til dæmis hefur Ísland skuldbundið sig til að draga úr losun samkvæmt Parísarsáttmálanum og vísa því útblásturstölur aðallega til losunar frá vegasamgöngum, landbúnaði, stóriðju og urðun. Þessar mælingar taka ekki tillit til losunar vegna neyslu íslenskra neytenda á innfluttum varningi.
CO2-ígildi
Þegar talað er um C02 losun í þessari grein er vísað til CO2-ígilda, eða koldíoxíðígilda, en það er sú mælieining sem er notuð til að halda utan um losunartölur fyrir gróðurhúsalofttegundir. Þannig samsvarar eitt tonn af CO2-ígildi einu tonni af koldíoxíði eða því magni annarra gróðurhúsalofttegunda (t.d. metans, glaðlofts eða F-gasa) sem hefur sambærilegan hnatthlýnunarmátt (e. global warming potential).
Heimild: Loftslagsráð
Umhverfissamtök hafa lengi barist fyrir því að rík lönd axli ábyrgð og dragi úr neysludrifinni losun svo að loftslagsréttlætis sé gætt. Á það er bent að loftslagsbreytingar spyrja ekki um landamæri og þótt neysludrifin losun sé ekki talin með í alþjóðlegum skuldbindingum er ekki þar með sagt að líta megi framhjá henni.
Stór hluti þeirrar losunar sem Vesturlönd bera ábyrgð á verður til í fjarlægum löndum. Það er vegna þess að ríkari lönd hafa að miklu leyti fært framleiðslu, og þar með losun, úr landi, sem hefur leitt til þess að hægt hefur á staðbundinni losun. Evrópusambandinu hefur til dæmis tekist að draga úr losun á undanförnum árum en á sama tíma hefur losun margfaldast í mörgum Asíuríkjum. Ef neysludrifin losun er hins vegar talin með í losunartölum er kolefnissporið á hvern einstakling í Evrópusambandinu stærra en í Kína, eða 11 tonn CO2 á ári samanborið við 8 tonn CO2. Neysludrifin losun er því mikilvægt mælitæki til að geta séð svart á hvítu heildarlosun einstakra landa.
Áætlanir Svía um neysludrifin losunarmarkmið byggja meðal annars á viðamikilli skýrslu Chalmers tækniháskólans. Skýrsluhöfundar benda á að eina leiðin til að standast markmið Parísarsáttmálans sé að breyta neysluhegðun. Meðal annars þurfi að fjárfesta í umhverfisvænni tækni, minnka kjötneyslu og draga úr umferð. Fram kemur í skýrslunni að neysludrifin losun Svía hafi verið um 9 tonn CO2 á einstakling árið 2019. Eigi þau markmið sem ríki heims hafa sett sér í loftslagsmálum að nást þarf losun hins vegar að minnka í um 2,2 tonn CO2 á einstakling árið 2050. Til samanburðar var losun einstaklinga sem tilheyra ríkustu 10% jarðarbúa rúmlega 20 tonn CO2 árið 2015 og losun ríkasta 1% jarðarbúa rúmlega 70 tonn CO2 á einstakling sem tilheyrir þeim hóp. Í tillögunum til ráðherra er gert ráð fyrir að neysludrifin losun dragist saman um 66% fyrir árið 2045 og fari úr 9 tonnum í 2–3 tonn.
Samkvæmt rannsókn Fjárfestingabanka Evrópu frá árinu 2021 voru 76% Svía fylgjandi því að stjórnvöld myndu grípa til harðari aðgerða til að breyta neysluhegðun. Það gaf til kynna að Svíar væru í stakk búnir til að láta reyna á markmið um neysludrifna losun. Elisabetta Cornago, loftslagssérfræðingur hjá hugveitunni Centre for European Reform, sagði að með þessari ákvörðun sé Svíþjóð að setja enn meiri metnað í loftslagsmálin og það ýti við löndum sem vilja líta á sig sem fyrirmyndir í þeim efnum. Eins og áður segir varð þó ekki af þessu vegna stjórnarskipta.
Svæðisbundnar útblástursmælingar liggja til grundvallar þegar markmið um að minnka útblástur gróðurhúsalofttegunda hafa verið sett. Því má segja að Íslendingar hafi lifað í svo kallaðri lág-kolefnistálsýn því þrátt fyrir sérstöðu þegar kemur að endurnýtanlegri orku er lítið tillit tekið til þess útblásturs sem neysla einstaklinga á innfluttum vörum veldur.
Neysludrifin losun er almennt mikil á Vesturlöndum og í löndum heims þar sem efnahagsleg velsæld ríkir. Ísland er þar engin undantekning. Fyrsta greiningin á neysludrifinni losun Íslendinga var gerð árið 2017 af Clarke, Heinonen og Ottelin. Samkvæmt útreikningum þeirra var neysludrifin losun Íslendinga meiri en flestra annarra Evrópuríkja eða um 9 tonn CO2 á einstakling. Það var sambærilegt og hjá Frökkum og Svíum. Neysludrifin losun er ekki reiknuð inn í loftslagsmarkmið Íslands frekar en nokkurra annarra landa.
Jukka Heinonen er prófessor í umhverfis- og byggingaverkfræði við Háskóla Íslands og hafa rannsóknir hans m.a. sýnt fram á að neysludrifin losun Íslendinga er mjög mikil. Við spurðum Jukka af hverju það skipti máli að lönd mæli neysludrifna losun.
„Ef við horfum eingöngu á mælingar á svæðisbundinni losun í tilteknu landi þá endurspegla mælingarnar ekki þá losun sem íbúarnir bera ábyrgð á vegna innflutnings á neysluvörum. Þetta getur leitt til þeirrar blekkingar að tiltekin lönd sýna fram á samdrátt í losun en á sama tíma gæti losun á heimsvísu verið að aukast.“ Jukka segir íbúa á Norðurlöndum vera með tvisvar til þrisvar sinnum stærra kolefnisfótspor en að meðaltali á heimsvísu og Ísland er þar á topnnum. „Málið snýst líka um það hvaða tímapunkt við tökum sem útgangspunkt þegar horft er til markmiða um að draga úr losun til að standast markmiðið um 1,5 gráðu hlýnun. Ríkari lönd bera ábyrgð á lunganum af sögulegri losun gróðurhúsalofttegunda. Það er því eðlilegt að spyrja hvort við, ríkari lönd, höfum rétt til að nota stærra hlutfall af þeim kolefniskvóta sem eftir er eða hvort þessu ætti að vera öfugt farið – að við þyrftum að draga saman mun meira og hraðar en þau lönd sem hafa sögulega losað töluvert minna.“
Jukka bendir á að ef farið sé aftur í tíma sé augljóst að það eru ríku löndin og eftirspurn þeirra eftir vörum sem hefur leitt til þeirra loftslagsbreytinga sem við stöndum frammi fyrir. „Við erum í raun búin að eyða okkar loftslagskvóta. Spurningin er þá hvers vegna lönd sem hafa sögulega losað margfalt minna en ríkari lönd ættu að sætta sig við að mega ekki neyta líkt og við í ríkari löndum. Ef við öxlum ekki ábyrgð á okkar losun af hverju ættu þau að gera það? Þetta er auðvitað ein meginástæða þess að eftir áratuga samningaviðræður um loftslagsmál hefur enn ekki tekist að stöðva vöxt á útblæstri gróðurhúsalofttegunda.“
En telur Jukka að þróunin verði meira í átt að neysludrifinni losun, jafnvel að farið verði að skattleggja neysluvörur út frá kolefnisfótspori þeirra? „Það virðist vera stefnan. Nokkur lönd hafa nú þegar tekið fyrstu skrefin hvað varðar aðgerðir til að mæla neysludrifna losun og einnig má finna slíkt frumkvæði á vettvangi sveitarfélaga. Slík mæling er mjög mikilvæg.“ Hvað varðar kolefnisskatt á neysluvörur segir Jukka að það sé líklega framtíðin, sér í lagi þar sem afleiðingar og beinn kostnaður loftslagsbreytinga verði sífellt sýnilegri. Við séum þó langt frá því að geta sett skilvirka og sanngjarna kolefnisskatta á neysluvörur enn sem komið er. Flækjustigið við að reikna út losun fyrir hverja vöru sé einfaldlega of mikið. „Við slíka útreikninga þarf að taka tillit til fjölmargra þátta allt frá framleiðslustigi og þar til varan er komin í hendur neytenda. Einnig þyrfti í mörgum tilfellum að taka tillit til landnotkunar og samræmdar aðferðir við slíka útreikninga eru einfaldega ekki til í dag.“ Jukka bætir við að jafnvel þótt okkur tækist að setja á samræmt kerfi sem raunverulega mælir losun á einstaka vörum munu sterk hagsmunaöfl í hinum ýmsu geirum tryggja að þróunin á slíkri skattlagningu verði mjög hæg. Þar fyrir utan sé hæpið að breið pólitísk sátt náist um slíka skattlagningu í bráð.
Þetta vefsvæði er kostað af árgjöldum félaga í Neytendasamtökunum.
Ef þú ert ekki þegar í samtökunum biðjum við þig að íhuga að ganga í þau. Árgjaldið er 7.900 kr.