Skaðleg efni í snyrtivörum

Ýmis algeng efni sem notuð eru í snyrti- og húðvörur eru óæskileg og sum geta beinlínis verið skaðleg.

Ýmis algeng efni sem notuð eru í snyrti- og húðvörur eru óæskileg og sum geta beinlínis verið skaðleg. Nú gætu lesendur spurt með réttu hvers vegna slík efni séu þá ekki bönnuð. Málið er ekki alveg einfalt. Aragrúi kemískra efna er nú á markaði og hafa mörg hver ekki verið rannsökuð með tilliti til áhrifa á heilsu fólks og umhverfi. Ástæðan er sú að lengi vel þurftu framleiðendur ekki að sýna fram á að ný efni væru örugg og hafa neytendur og umhverfið þurft að greiða dýru verði fyrir það kæruleysi. Regluverkið hefur verið lagað til muna og í dag eru kröfur til framleiðenda mun strangari auk þess sem stöðug vinna er í gangi við að meta þau efni sem eru í umferð. Þó eru ennþá alltof mörg kemísk efni í neysluvörum sem sérfræðingar telja að fólk ætti að forðast.

Claus Jørgensen, verkefnastjóri hjá Tænk Kemi

Danir í forystu

Dönsku neytendasamtökin Forbrugerrådet Tænk hafa um árabil staðið fyrir vitundarvakningu um skaðleg efni í neysluvörum. Í dag fer baráttan fram undir merkjum Tænk Kemi sem sett var á laggirnar árið 2015 með veglegum styrk frá stjórnvöldum. Markmið Tænk Kemi er að fræða neytendur um skaðleg efni í neysluvörum, gera rannsóknir á neysluvörum með tilliti til efnainnihalds og berjast fyrir því að skaðleg efni verði bönnuð.

Claus Jørgensen er verkefnastjóri hjá Tænk Kemi og hefur unnið að þessum málum frá árinu 1998. Í samtali við Neytendablaðið segir hann að margt hafi breyst til batnaðar á þessum tíma, bæði séu neytendur orðnir mun upplýstari og löggjöfin alltaf að batna og meiri ábyrgð sett á framleiðendur að sýna fram á að efni séu skaðlaus. Jørgensen segir að dönsk stjórnvöld hafi að mörgu leyti verið leiðandi í þessum málum. Hann rifjar upp þegar Danir tóku forystu í baráttunni við paraben, sem eru algeng rotvarnarefni í snyrtivörum: „Framleiðendur voru ekki par hrifnir af gagnrýni okkar á þessum tíma og þau voru ófá símtölin þar sem við fengum að heyra það. Nú 20 árum síðar hefur verið staðfest að þessi efni eru hormónaraskandi og ekki ólíkegt að sumar tegundir, svo sem Butylparaben, verði á einhverjum tímapunkti alfarið bönnuð.“

Jørgensen nefnir einnig þalöt til sögunnar, efni sem eru notuð sem mýkingarefni í plast. Árið 1999 setti Danmörk bann á notkun allra tegundir þalata í vörum sem ætlaðar eru börnum yngri en þriggja ára og er enn í dag með strangari lög en Evrópusambandið, sem hefur til þessa bannað sex tegundir þalata í þessum sömu vörum. Jørgensen segir það sjaldan hafa gerst að vísindamenn hafi varað við ákveðnu efni og síðar hafi komið í ljós að áhyggjurnar reyndust ekki á rökum reistar. Það væri því eðlilegt að neytendur nytu vafans í meira mæli og varúðarreglan væri ávallt höfð að leiðarljósi.

A-, B- og C-merkingar á vörum

Til að létta neytendum lífið hefur Tænk Kemi búið til merkingarkerfi með bókstöfunum A, B og C, sem segja til um hversu mikið af óæskilegum efnum er í snyrti- og húðvörum. Horft er til efna sem annað hvort er vitað með vissu – eða grunur leikur á – að séu hormónaraskandi, ofnæmisvaldandi, krabbameinsvaldandi eða skaðleg umhverfinu. A merkir að varan innheldur engin óæskileg efni, B þýðir að varan er að mestu laus við óæskileg efni en inniheldur eitt eða fleiri ilmefni og C merkir að varan innheldur eitt eða fleiri efni sem rétt væri að forðast.

Efnin skapa ekki endilega hættu ein og sér en samanlögð notkun þeirra yfir tíma getur haft neikvæð áhrif og er þá gjarnan talað um svokölluð kokteiláhrif.

Ólík innihaldsefni eftir löndum

Í samvinnu við neytendasamtök víða um heim ákvað Tænk Kemi að rannsaka hvort innihaldsefni í snyrtivörum – tilteknum þekktum vörumerkjum – væru þau sömu óháð því hvort varan væri keypt í Danmörku, Pakistan eða Brasilíu. Í samstarfi við 33 neytendasamtök víðsvegar um heiminn var innihaldslýsing á 39 húð- og snyrtivörum grannskoðuð og niðurstaðan var nokkuð óvænt. Í ljós kom að nákvæmlega sama vara getur innihaldið mismunandi efni allt eftir því hvar hún er seld.

Jørgensen segir að markmiðið hafi ekki síst verið að vekja athygli á öllum þeim varasömu efnum sem finna má í húð- og snyrtivörum. Langflestar vörur sem voru skoðaðar fengu C í einkunn og alls fundust 65 óæskileg efni í 39 vörum. Ein vara, maskari sem seldur var í Svíþjóð og á Spáni, innihélt efni sem er bannað og hefði því ekki átt að vera í sölu. Jørgensen segist ekki hafa búist við að sjá svo mikinn mun á einstaka vörum milli landa en til dæmis hafi sjampó frá Head and shoulders fundist í 13 mismunandi útgáfum. Ekki er alveg ljóst hvað skýrir þetta; hugsanlega er framleiðslan aðeins mismunandi eftir mörkuðum en einnig lítur út fyrir „uppskriftum“ sé breytt nokkuð ört.

Kemiluppen appið
  • þannig forðast þú óæskileg efni

Smáforritið Kemiluppen kom út árið 2015 en það hjálpar neytendum að forðast óæskileg efni í snyrti- og húðvörum. Strikamerki vörunnar er skannað með farsíma og þá birtast á skjánum upplýsingar um það hvort varan flokkast sem A, B eða C. Þar sem markaðurinn með snyrti- og húðvörur hérlendis er mjög líkur þeim danska eru væntanlega flestar vörur nú þegar í gagnagrunni Kemiluppen.

Sjá meira um Kemiluppen hér.

Neytendablaðið vor 2021

Deila:

Facebook
Twitter
Póstur

Fleira áhugavert

Litarefni í mat gefa lífinu lit en þau eru jafn ólík og þau eru mörg. Sum eru náttúruleg á meðan önnur eru gerfiefni sem
Það færist í vöxt að fólk kaupi vörur af netinu í gegnum það sem kallast á ensku „dropshipping“, hvort sem fólk gerir sér grein
Gjaldtaka og arðsemi íslensku bankanna - rýnt í ársskýrslur.

Takk fyrir áhugann!

 Þetta vefsvæði er kostað af árgjöldum félaga í Neytendasamtökunum.

Ef þú ert ekki þegar í samtökunum biðjum við þig að íhuga að ganga í þau. Árgjaldið er 7.900 kr.