PFAS-efnin sem aldrei eyðast

PFAS-efni eru skaðleg lífríki og heilsu fólks. Efnin eru þrávirk og hafa verið notuð í margvíslegum tilgangi í sjö áratugi. Krafa er um að efnin verði bönnuð.

Pönnur, stígvél, snyrtivörur, húðkrem, útifatnaður, viðarvörn, húsgögn matvælaumbúðir, skíðavax og tannþráður. Allt eru þetta dæmi um vörur sem geta innihaldið hin umdeildu PFAS-efni. Um er að ræða hóp þúsunda manngerðra efna sem talin eru skaðleg lífríki og heilsu fólks. Þessi vitneskja hefur lengi legið fyrir en samt er ekkert lát á notkun efnanna.

Þrávirk og skaðleg

PFAS-efni eru þrávirk, sem þýðir að með tímanum safnast þau upp í mönnum og dýrum. Þar sem efnin hafa verið notuð í neysluvörur í tæpa sjö áratugi finnast þau nú bæði í lífverum og í umhverfinu um allan heim. Skaðsemi efnanna hefur lengi legið fyrir en afar hægt gengur að banna þau. Helsta ástæða þess að efnin má finna í fjölmörgum neysluvörum er sú að þau hafa þá eftirsóknarverðu eiginleika að hrinda frá sér bæði vatni og fitu. Það er hins vegar hægt að framleiða flestar neysluvörur án þessara efna.

Mengun berst í íbúa

Það vakti ugg árið 2021 þegar fjöldi íbúa í bænum Korsør í Danmörku mældist með hátt hlutfall af PFAS-efnum í blóði. Um árabil hafði slökkvilið bæjarins æft sig með slökkvitækjum sem innihéldu tiltekna tegund PFAS-efna sem nefnist PFOS og hefur nú verið bönnuð. Efnið lak út í grunnvatnið og safnaðist upp í nautgripum sem voru á beit á nærliggjandi svæði. Efnið barst svo í íbúana sem borðuðu kjötið í góðri trú. Þegar sveitarfélagið uppgötvaði mengunina í jarðvegi voru íbúar bæjarins sendir í blóðprufu og í mörgum tilfellum var magn PFOS í blóði margfalt meira en viðmiðunarmörk segja til um.

Rammi:

PFAS er yfirheiti yfir stóran efnahóp sem á ensku nefnast per- and polyfluorinated alkyl substances. Stundum er talað um lífræn flúorsambönd en ekki skyldi rugla þeim saman við flúor, sem er til dæmis notaður í tannkrem.

Vilja PFAS-bann í Danmörku

Málið vakti gríðarlega athygli í Danmörku, eins og gefur að skilja. Dönsku neytendasamtökin Tænk hafa um alllangt skeið lagt mikla áherslu á baráttuna gegn skaðlegum efnum í neysluvörum. Það hafa þau gert með góðum stuðningi stjórnvalda og undanfarin ár hefur sjónum verið beint að PFAS-efnum. Nýlega afhenti Tænk danska umhverfisráðherranum, Magnus Heunicke, rúmlega 78.000 undirskriftir danskra neytenda sem krefjast banns á notkun PFAS-efna í neysluvörur í Danmörku. Nú þegar hafa Danir bannað PFAS-efni í pappír og pappírsumbúðum fyrir matvæli.

Fimm lönd grípa til aðgerða

Fyrr á árinu höfðu fimm lönd; Danmörk, Svíþjóð, Noregur, Holland og Þýskaland, lagt fram tillögu til Evrópusambandsins um bann við PFAS-efnum í öllum löndum sambandinu. Aldrei áður hefur verið lögð fram jafn stórtæk tillaga á sviði efnamála. Tænk fagna framtakinu enda sé eina ráðið að banna efnin, helst á heimsvísu. Þau kalla hins vegar eftir því að dönsk stjórnvöld banni PFAS-efni í Danmörku sem fyrst. Ekki sé hægt að bíða eftir ákvörðun Evrópusambandsins því heilsa fólks sé í húfi.

Furðar sig á andvaraleysi

Fram til þessa hafa einstök PFAS-efni verið bönnuð en það er einungis gert þegar fyrir liggur að efni sé skaðlegt. Þetta ferli tekur hins vegar allt of langan tíma. Philippe Grandjean er prófessor  í heilbrigðislæknisfræði við Syddansk-háskólann í Óðinsvéum og hefur til fjölda ára rannsakað skaðleg áhrif PFAS-efna á líkamann. Í samtali við neytendablaðið Tænk segir hann að efnin hafi verið notuð í vörur í yfir 70 ár og hafi því á löngum tíma safnast upp í umhverfi og fólki. Grandjean segir að útbreiddustu efnin séu svo að segja óniðurbrjótanleg og þar fyrir utan séum við í sífellu útsett fyrir fleiri PFAS-efni. Fyrstu rannsóknirnar á skaðlegum áhrifum PFAS-efna voru gerðar á sjöunda áratugnum en þeim var haldið leyndum. Nýjar rannsóknir sýna hins vegar að efnin eru skaðlegri heilsu en áður var talið, ekki síst heilsu barna. Grandjean furðar sig á því að stjórnvöld leggi ekki meiri áherslu á að banna þessi efni. Hann segir okkur lítið geta gert varðandi þau PFAS-efni sem þegar eru í líkama okkar en við getum hins vegar séð til þess að magnið aukist ekki.

Framleiðendur taka undir

Gæðakannanir neytendasamtaka hafa sýnt fram á að vel er hægt að framleiða vörur eins og tannþráð, útifatnað og steikarpönnur án PFAS-efna. Framleiðendur þurfa því ekki að örvænta og Dansk Industri, stærstu hagsmunasamtök fyrirtækja í Danmörku, segja útfösun efnanna mikilvæga. Samtökin telja þó eðlilegra að barist sé fyrir banni í öllu Evrópusambandinu en ekki bara í Danmörku. Þá séu dæmi um vörur þar sem þessi efni eru nauðsynleg, svo sem í lækningavörum.

Ekki skylt að merkja

PTFE (teflon) er algeng PFAS-tegund sem til dæmis má finna í málningu, viðarvörn, teflon-pönnum og -pottum og tannþræði. Framleiðendum er almennt ekki skylt að upplýsa hvort vörur innihalda efnin og þar af leiðandi verður sífellt algengara að sjá merkingar sem vísa til þess að vara sé án PFAS-efna. Þær gætu hljóðað svo: PFC free, Fluorine free og PFTE free.

Merkingin Teflon eða Gore-Tex er aftur vísbending um að vara innihaldi PFAS-efni. Tænk ráðleggur neytendum að sneiða hjá slíkum vörum í framtíðinni en ekki sé ástæða til að losa sig við þær sem fyrir eru. Vandamálið er ekki einstök neysluvara heldur samanlögð áhrif efnanna til lengri tíma.

Barist gegn DuPont

PFOA (eða C8) var lengi notað í teflonpönnur en efnið var bannað eftir að í ljós kom að það er eitrað og skaðlegt heilsu fólks. Myndin Dark Waters byggir á sönnum atburðum og sýnir erfiða baráttu lögfræðingins Rob Billot gegn efnarisanum DuPont. Myndin varpar ljósi á það hversu mikil ítök framleiðendur geta haft og hversu mikilvægt það er að stjórnvöld hugi fyrst og fremst að almannahagsmunum. Óhætt er að mæla með myndinni sem sýnd er á Netflix.

Deila:

Facebook
Twitter
Póstur

Fleira áhugavert

Litarefni í mat gefa lífinu lit en þau eru jafn ólík og þau eru mörg. Sum eru náttúruleg á meðan önnur eru gerfiefni sem
Það færist í vöxt að fólk kaupi vörur af netinu í gegnum það sem kallast á ensku „dropshipping“, hvort sem fólk gerir sér grein
Gjaldtaka og arðsemi íslensku bankanna - rýnt í ársskýrslur.

Takk fyrir áhugann!

 Þetta vefsvæði er kostað af árgjöldum félaga í Neytendasamtökunum.

Ef þú ert ekki þegar í samtökunum biðjum við þig að íhuga að ganga í þau. Árgjaldið er 7.900 kr.