Póstgjaldafrumskógur

Kostnaður vegna sendinga frá útlöndum er óhóflegur og hindrar eðlilega samkeppni.

Það hefur lengi viðgengist að refsa neytendum með óhóflegum gjöldum kjósi þeir að kaupa varning frá útlöndum. Sé um ódýra sendingu að ræða geta gjöldin slagað hátt upp í verðmæti vörunnar og jafnvel í einhverjum tilfellum farið umfram það. Sú staðreynd virðist í sumum tilfellum koma á óvart, svo sem þegar um er að ræða sendingu sem kemst einfaldlega inn um bréfalúgu. Þarf því ekki að undra að Neytendasamtökunum berast ófáar kvartanir vegna hárra póstburðargjalda. Við tókum saman yfirlit yfir helstu gjöld sem innheimt eru vegna sendinga til Íslands og er óhætt að tala um gjaldafrumskóg í því samhengi.

Sendingargjald

Árið 2019 var Íslandspósti heimilað að innheimta sendingargjald að því gefnu að það taki mið af kostnaði við póstmeðferð, upphæð þess sé í samræmi við gæði þjónustu og gjaldið gegnsætt. Rökin fyrir hinu umdeilda gjaldi var tap Íslandspósts á móttöku sendinga frá Asíu. Að endingu var gjaldið þó lagt ofan á sendingar frá öllum löndum, ekki einungis frá Asíu. Neytendasamtökin hafa því ítrekað óskað eftir gögnum sem liggja til grundvallar endastöðvagjöldunum en fengið þau svör að þau séu ekki til. Samtökin telja að gjaldtakan geti brotið í bága við 17. grein póstþjónustulaga enda eigi gjöldin að byggja á raunkostnaði við að veita þjónustuna.

Sendingargjaldið umdeilda (einnig kallað endastöðvagjald) er fast og fer eftir uppruna sendingar. Berist sending frá Evrópu leggst 599 kr. gjald ofan á sendinguna og er það 50% hækkun frá því gjaldið var lagt á árið 2019. Sé sendingin frá landi utan Evrópu er gjaldið 799 kr. og hefur hækkað um 33% frá árinu 2019.

Neytendasamtökin mótmæltu því harðlega á sínum tíma að kostnaði vegna rekstrarvanda Íslandspósts væri velt á herðar neytenda með þessum hætti enda liggur ekki skýrt fyrir hvort sendingargjaldið sé byggt á raunkostnaði eða sé einfaldlega einn liður í að rétta við rekstur Íslandspósts. Þá telja samtökin að hin hái kostnaður við póstsendingar hamli eðlilegri samkeppni. Samtökin sendu erindi til Eftirlitsstofnunar EFTA (ESA) þar sem þau telja að sendingargjaldið geti brotið í bága við EES-samninginn. Málið er nú þar til skoðunar.

Umsýslugjald

Umsýslugjaldið er í grófum dráttum yfirheiti margvíslegrar þjónustu svo sem skráningar sendinga, geymslu fyrstu sjö daga frá móttöku og tilkynningar um sendingu.

Gjaldið getur verið breytilegt allt eftir því hvernig tilkynningu um sendingu er háttað eða allt frá 420 kr. til 1.145 kr.

  • Ef einstaklingur er skráður í sjálfvirka greiðslu er gjaldið 600 kr.
  • Ef einstaklingur fær tilkynningu í tölvupósti er gjaldið 840 kr.
  • Ef tilkynning er send í bréfpósti er gjaldið 1.1454 kr.

Ef viðskiptavinur er skráður inn á „Minn póstur“ er hægt að lækka kostnað við hverja sendingu með lítilli fyrirhöfn enda munar nokkur hundruð krónum á því að fá rafræna tilkynningu og með bréfpósti.

Móttakandi sendingar getur einnig sparað sér pening með því að gera tollskýrslu sjálfur. Það er þó eilítið flókið sem og tímafrekt og felur í sér takmarkaðan sparnað, sérstaklega fyrir þá sem skráðir eru í sjálfvirkar greiðslur eða „Minn póstur“.

 Aðflutningsgjöld

Aðflutningsgjöld standa fyrir virðisaukaskatt, vörugjöld sem og ýmis önnur opinber gjöld sem kunna að leggjast á sendingar til landsins. Í almennum sendingum til neytenda reynir yfirleitt eingöngu á virðisaukaskattinn en meginreglan er sú að tollafgreiða þarf allar sendingar sem berast frá útlöndum. Virðisaukaskattur er reiknaður af verðmæti sendingarinnar og öðrum áföllnum kostnaði svo sem sendingargjaldi. Varan ber þess utan þann virðisaukaskatt sem lagður er á í heimalandi vörunnar.

Geymslugjald

Geymslugjald er innheimt sé sending ekki sótt innan viku frá komudegi og er gjaldið 295. kr. fyrir hvern geymsludag.

Tollur lagður á gjafir

Þegar gjafir eru sendar á milli landa á ekki að leggja toll á þær svo framarlega sem verðmæti gjafarinnar er innan við 13.500 kr. Sé sending afgreidd sem gjöf og er innan framangreindra verðmætamarka er móttakan gjaldfrjáls, þ.e. það á í þeim tilfellum ekki að koma til aðflutnings-, umsýslu- eða endastöðvagjalda. Sending þarf að uppfylla ákveðin skilyrði til að mega kallast gjöf og þarf að vera send af ákveðnu tilefni. Skilyrðin eru eftirfarandi:

  • Verðmæti gjafarinnar má ekki vera meira en 13.500 kr. nema um sé að ræða brúðkaupsgjöf. Hún má vera dýrarari en innan eðlilegra og hæfilegra marka og send innan 6 mánuða frá brúðkaupi.
  • Viðtakandi þarf að geta sýnt fram á að um gjöf sé að ræða vegna sérstaks tilefnis.
  • Sendingin þarf að bera með sér að um sé að ræða gjöf og að tengsl séu á milli aðila.
  • Ljóst þarf að vera af samsetningu eða fylgiskjölum að gjöfin sé ætluð tveimur eða fleiri og hafi af hagkvæmnisástæðum verið pakkað saman til flutnings.
Nokrrar gjafir eða ein?

Einhver jólin barst samtökunum áhugavert póstmál sem varðaði sendingu sem innihélt nokkrar gjafir, eins og eðlilegt er á þessum árstíma. Gjöfunum var þó ekki pakkað sérstaklega inn og þar með ekki merktar hverjum og einum. Um var að ræða gjafir konu til barns, tengdabarns og tveggja barnabarna. Var ætlunin sú að foreldrarnir myndu sjálfir sjá um innpökkun gjafanna. Þrátt fyrir að sendingin innihéldi meðal annars föt í mismunandi stærðum, barnadót o.fl., sem var, að mati samtakanna, nokkuð bersýnilega ætlað ólíkum aldurshópum og kyni var það niðurstaða innflutningsdeildar Póstsins að þar sem gjafirnar voru ekki sérstaklega innpakkaðar væri um eina gjöf væri að ræða. Fór verðmæti gjafarinnar þar með yfir 13.500 kr. og var viðtakanda gert að greiða toll af sendingunni.

Fylgiskjöl og samsetning báru það þó með sér að innihald væri ætlað fleirum en einum aðila og hagkvæmnissjónarmið ættu að vera nokkuð auðséð. Þrátt fyrir það var litið á innihaldið sem staka gjöf. Neytendasamtökin ráðlögðu móttakanda gjafanna að kæra ákvörðunina til Tollstjóra.

„Dýrsótt“ kaffi

Málavextir í öðru máli voru þeir að félagsmaður átti vinkonu í Bretlandi sem hafði í nokkur skipti sent henni að gjöf kaffipakka sem fékkst ekki hér á landi. Vinkonan sá um að fylla út upplýsingar um innihald sem límdar voru utan á pakkann. Þar kom m.a. fram að innihaldið væri kaffi að verðmæti 8 pund og væri gjöf til móttakanda. Ábendingin varðaði þriðju kaffisendinguna en í fyrri tvö skiptin hafði verið farið eftir merkingum sendanda og sendingin afgreidd sem gjöf. Í þriðja skiptið hefur greinilega verið litið svo á að sendingin uppfyllti ekki öll framangreind skilyrði þeirrar afgreiðslu. Þegar tilkynning um sendingu barst var félagsmanni samtakanna því gert að greiða alls 1.335 kr. við afhendingu. Félagsmaður samtakanna taldi sendinguna undanþegna umræddum gjöldum þar sem um gjöf væri að ræða. Eftir tölvupóstasamskipti við starfsmenn póstins var loks fallist á að endurskoða gjöldin.

Óhófleg gjöld á smásendingar

Ljóst er að gjöld Íslandspósts, sem og óþarfa umsýsla með smásendingar, er langt umfram það sem eðlilegt má teljast. Það kemur niður á eðlilegum viðskiptum og samskiptum milli vina og vandamanna erlendis. Eftir að endastöðvagjaldið var lagt á hefur Íslandspóstur hagrætt stórum að eigin sögn, og skora Neytendasamtökin á fyrirtækið að leyfa neytendum að njóta þess með niðurfellingu endastöðvagjaldsins. Það er ekki trúverðugt að eini kostnaðarliður fyrirtækisins sem ekki hefur verið hægt að hagræða sé móttaka erlendra sendinga.

Þá hafa Neytendasamtökin margítrekað bent löggjafanum á nauðsyn þess að leggja ekki óþarfa steina í götu neytenda með óhóflegum gjöldum á smásendingar. Samtökin hafa þannig lagt til að smáræðissendingar (e. Bagatelle deliveries), til dæmis að lægra verðmæti en sem nemur 10.000 kr.,  verði undanþegnar öllum hindrunum og komugjöldum.

 

 

Deila:

Facebook
Twitter
Póstur

Fleira áhugavert

Það færist í vöxt að fólk kaupi vörur af netinu í gegnum það sem kallast á ensku „dropshipping“, hvort sem fólk gerir sér grein
Aukefni geta verið allt frá mjög umdeildum efnum sem eru leyfð í einstaka vörum yfir í mjög örugg efni. Kynntu þér málið.

Takk fyrir áhugann!

 Þetta vefsvæði er kostað af árgjöldum félaga í Neytendasamtökunum.

Ef þú ert ekki þegar í samtökunum biðjum við þig að íhuga að ganga í þau. Árgjaldið er 7.900 kr.