Skilavöru fargað

Það getur verið auðveldara fyrir fyrirtæki að farga skilavöru en að koma henni aftur í sölu.

Það er óneitanlega þægilegt að geta keypt föt á netinu án þess að þurfa að fara út úr húsi. Það er ekki síður hentugt að geta skilað fötunum og fengið endurgreitt án þess að gefa upp nokkra ástæðu. Réttur neytenda, þegar netkaup eru annars vegar, er mjög ríkur, sem er vel. Netkaupum fylgja þó óvæntar skuggahliðar. Það á ekki síst við um  fataframleiðendur sem eiga það til að farga vörum í stað þess að koma þeim aftur í sölu.

Meira skilað ef keypt er á netinu

Það er ekki alltaf svo að varningur, sér í lagi skór og fatnaður, sem keyptur er á netinu falli í kramið. Það getur verið erfitt að meta stærðir, snið, efni og saumaskap í gegnum skjáinn. Löggjöfin tekur tillit til þess að við netkaup er ekki hægt að skoða vöruna, þreifa á henni og máta. Neytendur hafa því 14 daga til að ákveða hvort þeir vilja skila vörunni og fá endurgreitt.

Áætlað er að neytendur skili innan við 10% af vörum sem keyptar eru í verslunum. Í rannsókn sem birtist í tímaritinu Nature er talið að þegar netkaup eru annars vegar geti hlutfallið verið allt að 40%. Þessi vöruskil hafa neikvæðari umhverfisáhrif en ætla mætti.

Skilavörum fleygt

Fyrirtækið Optoro, sem sérhæfir sig í öfugu vöruflæði (e. reverse logistics), áætlar að á árinu 2020 hafi losun koltvísýrings vegna netvöruskila vegið 16 milljónir tonna. Það jafngildir útblæstri 3,5 milljóna bíla á ári. Þegar vörur hafa verið sendar aftur til seljanda, með ærnum umhverfistilkostnaði, er þó ekki víst að þær fari aftur í sölu. Það getur nefnilega verið ódýrara að farga skilavöru en að koma henni aftur inn í sölukerfið. Optoro áætlar að á árinu 2020 hafi 2,6 milljónir tonna af skilavörum verið urðuð í Bandaríkjunum.

Brugðist við raðskilum

Í ljósi þess hversu auðvelt er að skila flíkum sem keyptar eru á netinu er ekki óalgengt að fólk panti nokkrar mismunandi stærðir, máti í rólegheitum heima hjá sér og skili svo þeim flíkum sem ekki passa. Þessi hegðun hefur leitt af sér hugtakið raðskilari (e. serial refunder) en það er neytandi sem stundar það að kaupa föt eða annan varning á netinu en skilar svo megninu aftur. Stundum er markmiðið með kaupunum ekki annað en að ná mynd af herlegheitunum til að sýna sig á samfélagsmiðlum.

Svo rammt kveður að vöruskilum að sumar netverslanir hafa brugðið á það ráð að innheimta sérstakt vöruskilagjald. Þar á meðal er tískurisinn Zara en einnig má nefna Next, Everlane, Uniqlo, Sports Direct og Bohoo. Ástæðan er sú að vöruskil eru kostnaðarsöm fyrir seljendur, sér í lagi ef vörurnar eru mjög ódýrar. Þegar flík er skilað þarf að tryggja að hún sé söluhæf og það getur þurft að gera við flíkina, hreinsa hana og strauja. Þá þarf að pakka henni á nýjan leik, merkja og koma í rétta hillu í rétt vöruhús. Fyrirhöfnin er slík að það getur verið einfaldara og ódýrara fyrir seljanda að hreinlega henda flíkinni beint á haugana. Skilagjaldið er þá dregið af sendingarkostnaði en margir seljendur bjóðast til að greiða sendingarkostnaðinn þegar vöru er skilað.

„Talið er að kostnaður í Bretlandi vegna skilavöru sé 60 milljarðar sterlingspunda á ári, þar af er þriðjungur vegna netkaupa.“

Fötin passa ekki

Christine Marzano, stofnandi og forstjóri tískutæknifyrirtækisins BODS, segir í samtali við breska Vogue-tímaritið að langalgengasta ástæða þess að fötum er skilað, eða í 70% tilfella, sé sú að þau passa illa. Ástæða þess að margir neytendur kaupa fjölda stærða til að prófa heima sé sú hversu erfitt er að átta sig á stærðum og sniðum. Fólk gerir sér þó almennt ekki grein fyrir að skilavörur geti endað í brennslu eða urðun.

Marzano segir að ráðast verði að rótum vandans. Seljendur verði að veita neytendum betri upplýsingar um snið og stærðir, svo sem með því að sýna fötin á fyrirsætum með margs konar líkamsvöxt. BODS gengur þó skrefinu lengra og hefur hannað fatamátunartækni sem gerir fólki kleift að útbúa sína eigin tölvugerðu sýndarveru svo það geti séð svart á hvítu hvernig fötin muni passa. Forritið býr til sýndarveruna út frá málum eða myndum sem viðskiptavinur hleður niður af sjálfum sér. Viðskiptavinurinn – í líki sýndarveru – getur nú mátað þau föt sem honum líst á og séð hvernig ólík snið og mismunandi stærðir passa í raun.

Seljendur geta gert betur

„Sýndarmátun“ er án efa framtíðin, en þar til tæknin nær fótfestu er ýmislegt sem fata-netverslanir geta gert til að auðvelda neytendunum valið. Breska undirfatakeðjan Figleaves tók upp á því að bjóða viðskiptavinum sínum að spjalla við mátunarsérfræðing á Skype fyrir kaup. Þessi tilhögun hefur skilað sér í mun minni vöruskilum að sögn fyrirtækisins. Fáar verslanir veita svo góða þjónustu, en ýmsar aðrar leiðir eru færar. Til dæmis er mikilvægt fyrir neytendur að geta skoðað flíkur frá ólíkum sjónarhornum og því fleiri myndir af flíkinni því betra, ekki síst nærmyndir. Þá ættu allar netverslanir að vera með töflu yfir stærðir því engin samræming er til staðar og „medium“ í einu vörumerki getur jafngilt „small“ í því næsta. Stundum er tekið fram í hvaða stærð flíkin er sem fyrirsætan klæðist og jafnvel hversu há fyrirsætan er, sem getur verið mjög hjálplegt.

Því betri og ítarlegri sem upplýsingar frá seljendum eru því meiri eru líkurnar á vel heppnuðum kaupum og minni vöruskilum. Neytendur geta lagt sitt af mörkum með því að beina viðskiptum til seljenda sem veita góðar upplýsingar og hafa skýra umhverfisstefnu.

Neytendablaðið haust 2022
Heimildir: vogue.co.uk, The Guardian, Good housekeeping

 

Deila:

Facebook
Twitter
Póstur

Fleira áhugavert

Litarefni í mat gefa lífinu lit en þau eru jafn ólík og þau eru mörg. Sum eru náttúruleg á meðan önnur eru gerfiefni sem
Það færist í vöxt að fólk kaupi vörur af netinu í gegnum það sem kallast á ensku „dropshipping“, hvort sem fólk gerir sér grein
Gjaldtaka og arðsemi íslensku bankanna - rýnt í ársskýrslur.

Takk fyrir áhugann!

 Þetta vefsvæði er kostað af árgjöldum félaga í Neytendasamtökunum.

Ef þú ert ekki þegar í samtökunum biðjum við þig að íhuga að ganga í þau. Árgjaldið er 7.900 kr.