Rafmögnuð tannhirða

Eru hátæknisnjallburstar betri kaup en gamli góði tannburstinn? Við því er ekkert einhlítt svar.

Saga rafmagnstannburstans er ekki ýkja löng. Árið 1954 fékk svissneski uppfinningamaðurinn Dr. Phillipe-Guy Woog einkaleyfi á Broxodent, fyrsta nothæfa rafmagnstannburstanum. Sá galli var þó á gjöf Njarðar að við notkun þurfti burstinn að vera tengdur beint í rafmagn sem takmarkaði notagildið. Á sjöunda áratugnum hannaði General Electrics fyrsta „þráðlausa“ rafmagnstannburstann en hann var dýr, klunnalegur og erfiður í meðförum. Rafhlöðuendingin var svo lítil að burstinn þurfti að vera í nær stöðugri hleðslu og, það sem verra var, líftími rafhlöðunnar var mjög stuttur. Henni var ekki hægt að skipta út og því þurfti að kaupa nýjan bursta þegar rafhlaðan gaf sig. Þetta er reyndar vandamál með marga bursta enn í dag.

Tveir risar á markaði

Árið 1992 leit Sonicare rafmagnstannburstinn dagsins ljós, eftir áralangar rannsóknir. Hollenska alþjóðafyrirtækið Philips keypti Sonicare árið 2000 og ári síðar var Sonicare mest seldi rafmagnstannburstinn í Bandaríkjunum. Annað stórfyrirtæki, Procter & Gamble, keypti Gillette árið 2005, en Gilette átti Oral-B, helsta keppinaut Sonicare. Þessi tvö vörumerki, Oral-B og Phillips Sonicare, hafa síðan háð nokkurs konar rafmagnstannburstastríð og deila að mestu með sér markaðinum í dag. Bæði fyrirtækin hafa varið milljónum Bandaríkjadala í hönnun og þróun. Sumar nýjungar sem kynntar hafa verið til sögunnar eru einfaldar, svo sem tímastillir sem lætur vita þegar hinar ráðlögðu tvær burstunarmínútur eru liðnar og ljós sem gefur til kynna að hleðsla sé í gangi. Aðrar eru flóknari, svo sem „ultrasonic“ tannburstahaus sem titrar á hærri tíðni en mannseyrað nemur og þrýstiskynjari sem lætur vita, með ljósi eða hljóði, ef burstað er of fast eða of laust.

Endalaust úrval – hvað er málið?

Markaðurinn fyrir rafmagnstannbursta stækkar dag frá degi og úrvalið er svo mikið að undrum sætir. Einn og sami framleiðandi er jafnvel með tugi mismunandi útfærslna af því sem lítur út fyrir að vera einn og sami burstinn.

Tim Harford, hagfræðingur og þáttastjórnandi „More or Less“ á BBC, segir í samtali við tæknitímaritið Wired UK að fyrirtæki freistist eðlilega til að vera með mikið úrval og breitt verðbil. „Procter & Gamble og Philips vilja selja þér tannbursta sem kostar 300 sterlingspund en ef þú vilt ekki eða getur ekki borgað svo mikið vilja þau frekar að þú eyðir 20 pundum en engu. Markmiðið er að hver viðskiptavinur borgi eins mikið og hann er reiðubúinn að gera.“ Harford segir það ekki ganga að stilla tveimur sambærilegum tannburstum hlið við hlið og verðleggja annan hátt og hinn lágt. Fyrirtækin reyni því að finna út hversu mikið viðskiptavinurinn er tilbúinn að borga með því að bjóða upp á margar tegundir með mismunandi möguleikum. Einhverjir munu alltaf kaupa ódýrustu tegundina en ef fólk vill eyða í hátæknisnjallbursta er sá möguleiki líka í boði.

Gæðakönnun á burstum

Fyrr á árinu birti sænska neytendablaðið Råd och Rön gæðakönnun á rafmagnstannburstum.  Rannsóknin fólst fyrst og fremst í því að meta hversu vel tannburstinn hreinsar burt tannsýklu. Tannsýkla er skán sem myndast á tönnum (úr matarleifum, bakteríum og munnvatni) og er ekki hægt að skola burt með vatni. Tannsteinn myndast ef tannsýklan er látin óáreitt og aukast þá líkur á tannskemmdum en með góðri tannhirðu er hægt að halda tannsýklu í skefjum.

Rannsóknin gekk þannig fyrir sig að 20 þátttakendur voru fengnir í verkið og máttu þeir ekki bursta tennurnar í 8 tíma. Því næst skoluðu þeir munninn með þar til gerðu litarefni og burstuðu svo tennurnar samkvæmt leiðbeiningum í tvær mínútur. Þátttakendur fengu ekki að horfa í spegil samhliða burstun svo þeir sæju ekki litarefnið á tönnunum. Sérfræðingur mátu síðan hversu vel tókst til við að hreinsa burt tannsýkluna. Aðrir þættir sem fengu vægi voru m.a. þægindi við notkun, rafhlöðuending, hleðslutími og þrýstiskynjari.

Alls voru 17 tannburstar skoðaðir og af þeim voru níu Oral-B burstar sem tilheyra hinum og þessum vörulínum. Hæstu einkunn fékk Oral-B iO series 7, 8 og 9 en titilinn „Bestu kaup“ fékk tannbursti frá Jordan (Smile Plus), sem fékk góða einkunn og var jafnframt mun ódýrari en Oral-B iO vörulínan. Tannbursti frá Phillips Sonicare (Prestige) lenti í sjöunda sæti en fékk þó bestu einkunn fyrir „þrif á tönnum“. Hann þótti hins vegar ekki jafn meðfærilegur í notkun og Oral-B iO og Jordan-burstinn, sem dró heildareinkunn niður. Verstu einkunn fengu tvær tegundir frá Silk'n.

Rafmagns eða venjulegur?

Lesendur gætu spurt sig hvort það sé þess virði að eyða fleiri þúsundum króna, tugum þúsunda jafnvel, í rafmagnstannbursta eða hvort gömlu góðu tannburstarnir standi fyllilega fyrir sínu. Er tannburstun virkilega svo flókin að gervigreind þurfi að koma við sögu? Gæðakönnunin sænska svarar því ekki, enda einungis verið að meta hvaða rafmagnstannbursti skilar hlutverki sínu best. Fræðimenn hafa þó reynt að svara þessari spurningu og um það er m.a. fjallað í fyrrnefndri grein í Wired UK.

Peter Robinson, yfirmaður tannlæknadeildar háskólans í Bristol hefur, ásamt fleiri fræðimönnum gert safngreiningu (meta-analysis) þar sem rýnt er í allar rannsóknir sem gerðar hafa verið á þessu sviði og studdust við viðurkennda aðferðafræði. Í því skyni var stuðst við Cochrane-gagnabankann, sem er mjög virtur vísindagagnagrunnur. Niðurstaðan sýni að rafmagnstannburstar gefa aðeins betri raun en hefðbundnir burstar. Þegar meta á hvaða tegund rafmagnstannbursta er best, til dæmis hvort dýrari burstar séu betri en ódýrari, vandast málið. Rannsóknir gefa til kynna að tannburstahaus sem snýst skili betri árangri en haus sem hreyfist fram og til baka en munurinn er of lítill til að vera marktækur. Engar rannsóknir eru til sem sýna fram á að dýrari tannburstar séu betri en ódýrari. Fridus van der Weijden, prófessor í tannlækningum við háskólann í Amsterdam, segir rafmagnstannbursta óumdeilanlega þess megnuga að fjarlægja alla tannsýklu ef rétt er að verki staðið og því sé það í raun notandinn sem sé „vandamálið“. Sé dýrari bursti með alls kyns tæknibrellum líklegri til að fá eigandann til að bursta tvisvar á dag í tvær mínútur í senn megi halda því fram að dýrari bursti sé þess virði.

Hátækniburstar ekki betri

Á vefsíðunni electricteeth.co.uk má finna áhugaverðan fróðleik og samanburð á rafmagnstannburstum. Electricteeth valdi Oral-B Smart 1500 tannbursta ársins 2022 en helstu kostir eru meðal annars þessir: Lítill bursti sem nær að hreinsa vel á stöðum sem alla jafna er erfitt að ná til, viðvörunarljós ef burstað er of fast, hleðsla sem dugar í tvær vikur og sanngjarnt verð (innan við 15.000 kr á Amazon). Kjósi fólk heldur Philips Sonicare er 4100 vörulínan sambærileg.

Philips Sonicare 9900 fær svo titilinn „Most features“ eða flestir notendamöguleikar. Electricteeth mælir almennt ekki með snjalltannburstum (þ.e. burstum með bluetooth tækni) en telja Sonicare 9900 bestan þeirrar gerðar. Burstinn er dýr og með óþarflega mörgum fídusum. Hann fer hins vegar mjög vel í hendi, auðvelt er að halda honum hreinum og hann veitir notandanum eins góðar upplýsingar og tannburstum er yfirhöfuð fært. Athygli vekur að þessi sama tegund fékk bestu einkunn fyrir hreinsun tanna í sænsku könnuninni og hæstu einkunn af öllum Sonicare tegundunum.

Umhverfisvænn rafmagnstannbursti
- er það til?

Rannsókn á umhverfisáhrifum tannbursta, sem gerð var árið 2020, sýndi fram á að neikvæð umhverfisáhrif rafmagnstannbursta eru 11 sinnum meiri en bambustannbursta. Ástæðan er sú að rafmagnstannburstar eru langoftast úr plasti og þeim fylgja rafhlaða og hleðslutæki, sem flækir endurvinnsluferlið. Það fer mun meiri orka í að framleiða rafmagnstannbursta en hefðbundna bursta og sumar tegundir koma með alls kyns plastaukahlutum eins og ferðahulstri og statífi til að festa símann á spegil, að ógleymdu öllu umbúðafarganinu. Philips Sonicare og Oral-B, sem hafa tögl og hagldir á rafmagnstannburstamarkaðinum hafa varið háum fjárhæðum í þróun og hönnun en ekki er að sjá að umhverfisáherslan hafi ráðið för.

Electricteeth tilnefnir tannbursta frá Suri sem besta kostinn út frá umhverfissjónarmiðum og á vefsíðu Suri má sjá hið snjalla slagorð „We will not brush the problem aside“. Fyrirtækið hverfist í raun um að framleiða rafmagnstannbursta með eins litlum neikvæðum umhverfisáhrifum og hægt er og að allir íhlutir séu endurvinnanlegir. Burstahausinn er gerður úr sterkju og burstahárin úr laxerolíu (castor-oil). Notendur eru hvattir til að senda fyrirtækinu notaða hausa til endurvinnslu og séu þeir í Bretlandi eða í Bandaríkjunum er sendingin á kostnað fyrirtækisins. Handfangið á burstanum er úr áli, sem er auðveldara að endurvinna en plast, og framleiðslan er kolefnisjöfnuð að fullu. Suri-burstinn mun vera hannaður með það í huga að ef hann bilar sé auðvelt að gera við hann. Electricteeth segir burstann vel hannaðan og hann þrífi tennurnar þokkalega vel en ókostur sé að þrýstiskynjara vantar og verðið sé í hærri kantinum.

Tannburstasóun

Tannburstar úr plasti, eins og við þekkjum þá, voru ekki framleiddir að neinu ráði fyrr en eftir seinni heimsstyrjöld. Síðan þá hafa verið framleiddir tugir ef ekki hundruð milljarða tannbursta. Líftími tannbursta er stuttur því mælt er með því að skipta þeim út á 3–4 mánaða fresti. Talið er að í Bandaríkjunum sé einum milljarði tannbursta hent á hverju ári. Á Íslandi – samkvæmt sömu útreikningum – er magnið á einu ári rúmlega milljón burstar. Því er gjarnan haldið fram að hver einasti tannbursti sem hefur verið framleiddur sé ennþá til á jörðinni, þ.e. í landfyllingum og á höfum úti. Þótt eitthvert magn hafi eflaust farið í brennslu er þetta ekki fjarri lagi og lýsandi fyrir þann umhverfisvanda sem þessi sjálfsagða neysluvara hefur skapað.

Margir hafa tekið bambusburstum fagnandi því þeir eyðast á nokkrum árum, ólíkt plastburstum. En þótt þeir séu vissulega langtum umhverfisvænni er líftími þeirra eftir sem áður stuttur. Þegar burstahausinn verður lúinn er ekki annað til ráða en að henda öllum burstanum þrátt fyrir að handfangið sé enn brúklegt. Þróunin í þessum efnum hefur verið furðu hæg því það er ekki flókið að framleiða tannbursta með útskiptanlegum burstahaus. Í fyrra kynnti Colgate slíkan bursta til leiks, Colgate Keep, sem er með handfangi úr áli. Oral-B Click, Goodwell og Radius eru af sama meiði, svo dæmi séu nefnd. Með því að skipta út burstahausnum, en ekki öllum burstanum, er hægt að minnka plastsóun til muna. Ef burstahausinn er þess utan úr bambus, lífplasti eða öðru endurvinnanlegu efni næst verulegur umhverfisávinningur. Þessar lausnir eru þegar til en þrátt fyrir það er gamli plasttannburstinn alltumlykjandi.

Neytendablaðið haust 2022

 

Deila:

Facebook
Twitter
Póstur

Fleira áhugavert

Litarefni í mat gefa lífinu lit en þau eru jafn ólík og þau eru mörg. Sum eru náttúruleg á meðan önnur eru gerfiefni sem
Það færist í vöxt að fólk kaupi vörur af netinu í gegnum það sem kallast á ensku „dropshipping“, hvort sem fólk gerir sér grein
Gjaldtaka og arðsemi íslensku bankanna - rýnt í ársskýrslur.

Takk fyrir áhugann!

 Þetta vefsvæði er kostað af árgjöldum félaga í Neytendasamtökunum.

Ef þú ert ekki þegar í samtökunum biðjum við þig að íhuga að ganga í þau. Árgjaldið er 7.900 kr.