Sæktu bætur án kostnaðar

Það er yfirleitt einfalt að sækja bætur vegna seinkunar á flugi og óþarfi að kaupa slíka þjónustu.

Þeim fyrirtækjum fjölgar sem bjóða farþegum aðstoð við að sækja staðlaðar skaðabætur vegna seinkunar eða aflýsingar á flugi. Algengt er að þóknunin fyrir viðvikið sé 25% auk virðisaukaskatts. Neytendasamtökin sjá ástæðu til að benda farþegum á að í flestum tilfellum er afar einfalt að sækja þessar bætur án nokkurrar aðstoðar.  

Það hefur færst í vöxt að lögmenn bjóði fram þjónustu sína við að sækja staðlaðar skaðabætur vegna seinkunar á millilandaflugi eða aflýsingar á flugi. Þóknun fyrir þjónustuna er yfirleitt hlutfall af þeim skaðabótum sem neytandinn á rétt á. Neytendasamtökin hafa í gegnum tíðina bent farþegum á að þeir geta auðveldlega sótt slíkar bætur sjálfir, sér að kostnaðarlausu. Flest flugfélög bjóða upp á mjög einföld form á netinu þar sem farþegi fyllir út nauðsynlegar upplýsingar. Það er síst minni fyrirhöfn fyrir farþega að koma upplýsingunum beint til flugfélags en að koma þeim til fyrirtækis sem síðan tekur þóknun fyrir að koma þessum sömu upplýsingum áfram til flugfélagsins. Það getur hins vegar verið snúið að finna skaðabótaformið á vefsíðum flugfélaga. Hér er hlekkur á Play og hér má finna hlekk á Icelandair.

Hér geta farþegar séð hvort og þá hversu miklar bætur þeir eiga rétt á.

Neytendasamtökin aðstoða félagsmenn við að leita réttar síns og sjá um milligöngu þegar þess er þörf.

 

Samgöngustofa tekur við kvörtunum frá flugfarþegum og leysir úr ágreiningi svo sem vegna seinkana í flugi. Það er neytendum að kostnaðarlausu að senda mál til Samgöngustofu. Hér má sjá eyðublaðið sem fylla þarf út og hér má sjá ítarlegar upplýsingar um réttindi farþega.

 

Evrópska neytendaaðstoðin (ECC) aðstoðar neytendur þvert yfir landamæri. Lendi neytandi, búsettur á Íslandi, í því að flugi hans er seinkað eða aflýst af völdum flugfélags í Evrópu getur hann leitað til ECC sér að kostnaðarlausu. Það sama gildir um neytendur búsetta innan Evrópusambandsins sem vilja sækja rétt sinn gagnvart flugfélagi sem starfar á Íslandi.
Sjá hér upplýsingar um þær reglur sem gilda um skaðabætur vegna seinkunar og aflýsingu á flugi.

 

 

Þá er rétt að ítreka að lokum að neytendur ættu alltaf að byrja á því að sækja rétt sinn til seljanda. Oft ganga þau samskipti vel fyrir sig og neytandinn fær úrbætur með lítilli fyrirhöfn. Gangi slíkt ekki er öllum heimilt að leita til Neytendasamtakanna og fá ráðleggingar. Ef mál eru mjög flókin getur verið ráð að leita til lögmanna og fyrirtækja sem sérhæfa sig í flugrétti. Í flestum tilfellum er þó einfalt og mun hagkvæmara að sækja bæturnar beint.

Deila:

Facebook
Twitter
Póstur

Fleira áhugavert

Aukefni geta verið allt frá mjög umdeildum efnum sem eru leyfð í einstaka vörum yfir í mjög örugg efni. Kynntu þér málið.
Neytendasamtökin hafa í gegnum árin staðið með neytendum gegn smálánaóværunni. Sú barátta hefur verið bæði löng og ströng.

Takk fyrir áhugann!

 Þetta vefsvæði er kostað af árgjöldum félaga í Neytendasamtökunum.

Ef þú ert ekki þegar í samtökunum biðjum við þig að íhuga að ganga í þau. Árgjaldið er 7.900 kr.