Smálánabaráttan

Neytendasamtökin hafa í gegnum árin staðið með neytendum gegn smálánaóværunni. Sú barátta hefur verið bæði löng og ströng.

Okurlán eru ekkert nýnæmi og fréttir af okurlánurum hafa skotið upp kollinum af og til. Í Morgunblaðinu 17. mars 1929 segir frá erfiðleikum fátækra iðjumanna sem reyna að „koma kofa yfir sig. …Rándýr bankalán fá þeir þegar best lætur, en annars okurlán hjá einstaklingum.“

Virðulegir broddborgarar ku hafa efnast vel á okurlánastarfsemi í gegnum tíðina. Eflaust er mörgum í minni umfangsmikið mál frá 1985 þar sem okurlánari var dæmdur á grundvelli laga 58/1960 um bann við okri, dráttarvöxtum ofl. fyrir að veita lán með allt að 203% ársvöxtum. Síðar var lögum breytt og ekkert hámark var á útlánavöxtum.

Árið 2009 hófst starfsemi svokallaðra smálánafyrirtækja sem nýttu sér þessa lagagloppu. Í viðtali í Morgunblaðinu 29. október 2009 sagðist Leifur S. Haraldsson, stofnandi og framkvæmdastjóri Kredia, hafa átt fundi með Fjármálaeftirlitinu og Neytendastofu til að ganga úr skugga um að starfsemin væri lögleg. Einnig kom fram að vextir smálánafyrirtækisins á ársgrundvelli væru allt að 607%, eða þrefalt hærri en dæmt var fyrir 25 árum fyrr.

Hvað eru smálán?

Smálán er yfirleitt notað um lán sem nema tiltölulega lágum upphæðum (10.000 kr.-50.000 hvert fyrir sig), þó lántökum sé kleift að taka fjölda slíkra lána, jafnvel innan sama dags, og safna þannig miklum skuldum. Allajafna þarf að greiða lánin til baka eftir 10-30 daga og ef greiðsla er ekki innt af hendi fyrir eindaga eru fyrirtækin fljót að innheimta kröfurnar með háum tilkostnaði, sem fellur á lántakann. Almennt hefur ekki verið í boði að semja um greiðslur fyrr en allt er komið í óefni og því grípa margir til þess ráðs að taka ný lán til þess að greiða eldri lán. Einnig hefur tíðkast að bjóða lántökum að greiða svokallað greiðslufrestunargjald sem er hlutfallslega mjög hátt. Þannig upphefst vítahringur sem mörgum hefur verið ákaflega erfitt að komast út úr. Þó okurlánastarfsemi hafi lengi viðgengist á Íslandi er hugtakið smálán yfirleitt notað um starfsemi þessarar fyrirtækja sem hófu starfsemi árið 2009 og síðar.

Erindi til ráðuneytis 2009 

Í upphafi fjölgaði smálánafyrirtækjunum ört. Lengi vel var þó óljóst hverjir stóðu raunverulega að baki fyrirtækjunum og fóru eigendur huldu höfði og vildu ekki láta bendla sig við þessa vafasömu starfsemi.

Neytendasamtökin sendu erindi til efnahags- og viðskiptaráðuneytisins í desember árið 2009 og kröfðust þess að gripið yrði til aðgerða gegn smálánafyrirtækjum. Erindið var ítrekað hálfu ári síðar og í júní 2010 barst loks svar frá ráðuneytinu. Í því bar ráðuneytið því meðal annars fyrir sig að EES-reglur kæmu í veg fyrir að settar væru skorður við starfsemi smálánafyrirtækja. Slíkt átti þó ekki við rök að styðjast enda settu margar Evrópuþjóðir þessum fyrirtækjum fastar skorður. Það var síðan ekki fyrr en árið 2013 sem Alþingi setti þak á kostnað smálánanna (lög um neytendalán nr. 33/2013). Samkvæmt lögunum mátti árleg hlutfallstala kostnaðar eða ÁHK, (þar sem allur kostnaður lánsins er settur inn í eina prósentutölu) ekki fara yfir 50% að viðbættum stýrivöxtum. Var þetta hámark sett til höfuðs okurlánastarfsemi og um að ræða mjög mikilvæga lagabreytingu. Neytendasamtökin töldu þó að miða hefði átt við lægri ÁHK en 50%. Þess má geta að við endurskoðun laganna árið 2019 var hámark ÁHK fært niður í 35% auk Seðlabankavaxta.

Ólögmætar lánveitingar

-           flýtigjald og rafbækur

Frá því að smálánastarfsemi hófst á Íslandi hafa eftirlitsstofnanir og dómstólar haft í nógu að snúast, enda reyndist fyrirtækjunum erfitt með að starfa innan ramma laganna. Þá var afar snúið að komast að raunverulegu eignarhaldi þeirra, enda virtust þau skipta sífellt um ham.

Kredia var fyrst smálánafyrirtækjanna og var fyrirferðamest. Neytendalán ehf. tók til starfa árið 2013 sem nokkurs konar hattur yfir lánaveiturnar Hraðpeninga, Múla og 1909. Fyrirsvarsmenn þeirra virðast hafa verið þeir Skorri Rafn Rafnsson og Óskar Þorgils Stefánsson, sjá nánar. Árið 2017 voru þessi fyrirtæki ásamt Kredia og Smálán komin undir væng E-content og síðar, hins „danska“ fyrirtækis Ecommerce 2020, sjá.

E-content ehf. innheimti svokallað flýtigjald samhliða lánveitingu. Gjaldið var töluvert hátt og þar með var lántökukostnaðurinn kominn langt umfram lögbundið hámark ÁHK. Neytendastofa komst að þeirri niðurstöðu árið 2015 að starfshættir E-content ehf. brytu gegn lögum um neytendalán og fór það mál fyrir héraðsdóm sem staðfesti ákvörðun Neytendastofu. Smálánafyrirtækin dóu þó ekki ráðalaus og fundu nýja ólögmæta leið til að innheimta okurvexti. Í stað þess að greiða flýtigjald þurftu lántakar nú að kaupa sérstakar rafbækur samhliða láninu. Neytendastofa komst að þeirri niðurstöðu að enginn munur væri á þessu tvennu enda væri kostnaður við rafbók jafn augljós hluti lántökukostnaðar og flýtigjaldið. Þegar ljóst var að starfshættir fyrirtækjanna myndu ekki breytast lagði Neytendastofa stjórnvaldssektir og dagsektir á fyrirtækið. E-content ehf. áfrýjaði málinu en bæði héraðsdómur og síðar Landsréttur staðfestu ákvörðun Neytendastofu.

Úr rafbókum í dönsk lán

Árið 2017 tók nýtt fyrirtæki við starfseminni; Ecommerce 2020 Aps, og var starfsemin flutt til Danmerkur, að nafninu til í það minnsta. Sjónvarpsþátturinn Kveikur á RÚV rakti eigendaslóðina til Tékklands og þaðan til Kredia Group í London, sem skipti um nafn árið 2020 og heitir nú Orka Ventures Ltd., en raunverulegur eigandi þess er Leifur Alexander Haraldsson þó aðrir smálánagóðkunningjar, Michal Mensik og Ondrej Smakal komi þar einnig við sögu.

Virðist sem Ecommerce2020 hafi árið 2019 eignast allar kröfur E-content ehf. Vextir voru áfram langt yfir löglegu hámarki en lánveitingin var nú sögð heyra undir dönsk lög. Í Danmörku er ekki hámark á ÁHK nema ákveðnum skilyrðum uppfylltum. Neytendastofa komst að þeirri niðurstöðu í ágúst 2019 að lánin brytu í bága við íslensk lög. Um væri að ræða lánastarfsemi sem félli undir íslensk lög en ekki dönsk enda voru lánin veitt í íslenskum krónum, markaðsefni beint til íslenskra neytenda og á íslensku. Eins og áður áfrýjaði Ecommerce 2020 niðurstöðunni til áfrýjunarnefndar neytendamála sem staðfesti ákvörðun Neytendastofu um mitt ár 2020. Héraðsdómur komst hins vegar að þeirri niðurstöðu árið 2022 að dönsk lög ættu við og sneri þar með ákvörðun Neytendastofu. Aldrei var látið reyna á það í Danmörku hvort lánveitingar Ecommerce2020 stæðust dönsk lög.

Erindi til ráðherra 2018

Neytendasamtökin sendu erindi til Atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytið í febrúar 2018, þar sem þess var krafist að stjórnvöld gripu til aðgerða og tryggðu að smálánafyrirtækin störfuðu lögum samkvæmt. Að mati Neytendasamtakanna var þessi skortur á neytendavernd óviðunandi og löngu tímabært að gripið yrði í taumana. Boðaði ráðherra í framhaldinu að settur yrði á fót samráðshópur sem finna ætti leiðir til spyrna við smálánastarfsemi. Umboðsmaður skuldara sendi frá sér tilkynningu þess efnis að hlutfall smálána af heildarskuldum umsækjenda um greiðsluaðlögun væri nú í fyrsta skipti hærrra en hlutfall fasteignalána og félagsmálaráðherra lýsti áhyggjum af stöðunni.

Neytendasamtökin gagnrýndu harðlega aðgerðarleysi stjórnvalda og þátt innheimtufyrirtækisins Almennrar innheimtu ehf., en fyrirtækið sá um alla innheimtu fyrir Ecommerce2020. Um sumarið 2019 gáfu forsvarsmenn Ecommerce2020 og Almennrar innheimtu það út að vextir á lánum hefðu verið lækkaðir til samræmis við íslensk lög, sjá. Voru vextir á útistandandi kröfum lækkaðir en að því er Neytendasamtökin komast næst fengu lántakar ekki endurgreidda ofgreidda vexti. Þá var innheimtukostnaður vegna krafna sem voru ólögmætar ekki felldur niður.

Ný löggjöf 2020

Starfshópurinn sem atvinnuvega- og nýsköpunarráðherra skipaði árið 2018 skilað tillögum sínum í janúar 2019. Frumvarp var lagt fram á þingi haustið 2019 og gerðu Neytendasamtökin viðamiklar athugasemdir við frumvarpið í umsögn sinni og komu með margar tillögur að úrbótum. Í desember 2019 samþykkti Alþingi lög sem settu smálánafyrirtækjum mun þrengri skorður. Í kjölfar gildistöku þeirra í ársbyrjun 2020 hætti Ecommerce2020 lánveitingum sínum.

Yfirlit yfir dóma og ákvarðanir

Hér má sjá yfirlit yfir ákvarðanir Neytendastofu, úrskurði áfrýjunarnefndar neytendamála og dóma. Eins og yfirlitið ber með sér hafa eftirlitsstofnanir og dómstólar haft í nógu að snúast með tilheyrandi kostnaði sem greiðist úr sameiginlegum sjóðum.

Kredia

Ákvörðun 28/2014 – Flýtigjald og útreikningur ÁHK. Brot og stjórnvaldssekt – Brot
Úrskurður 13/2014 – Ákvörðun staðfest
Dómur í máli E-1934/2015 (9. júní 2016) – Brot staðfest en sekt felld úr gildi

Ákvörðun 3/2015 – sekt fyrir brot gegn 28/2014
Úrskurður 3/2015 –vísað frá
Úrskurður 14/2015 - endurupptekið

Ákvörðun 16/2016 – Rafbækur, staðlaða og lánssamningur – Brot
Úrskurður 3/2016 – Staðfest að hluta

Smálán

Ákvörðun 28/2014 – Flýtigjald og útreikningur ÁHK – Brot
Úrskurður 13/2014 – staðfest
Dómur í máli E-1935/2015 (9. júní 2016)– Brot staðfest en sekt felld úr gildi

Ákvörðun 3/2015 – sekt fyrir brot gegn 28/2014
Úrskurður 3/2015 –vísað frá
Úrskurður 14/2015 – dagsektir felldar úr gildi

Ákvörðun 17/2016 – Rafbækur, staðlaða og lánssamningur – Brot
Úrskurður 3/2016 – Staðfest að hluta

Neytendalán

Ákvörðun 29/2014 – Flýtigjald og útreikningur ÁHK – Brot
Úrskurður 14/2014 - Staðfest

Ákvörðun 50/2015 – sekt fyrir brot gegn 29/2014
Úrskurður 16/2015 - Staðfest

Ákvörðun 7/2016 – Upplýsingar um þjónustuveitanda - Brot

E-content

Ákvörðun 59/2016 – Rafbækur, staðlaða og lánssamningur – Brot
Úrskurður 7/2016 – staðfest
Dómur í máli E-2895/2017 (27. febrúar 2019) – staðfest
Dómur Landsréttar í máli 227/2019 (29. nóvember 2019) – Staðfest (https://landsrettur.is/domar-og-urskurdir/domur-urskurdur/?Id=15efc836-c6fc-415a-bd4a-8bd81ee067bf&verdictid=dda96bec-3a15-48cc-ae99-e6514313c312)

Ákvörðun 26/2017 – sekt fyrir 59/2016
Úrskurður 5/2017 - staðfest

eCommerce 2020 ApS

Ákvörðun 31/2019 – lánssamningur, staðlað eyðublað og hámark áhk – Brot
Úrskurður 6/2019
Köbenhavns Byret BS-40341/2019-KBH (9. júlí 2020) – vísað frá DK
Dómur í máli E-5637/2020 (11. ágúst 2021) – felld úr gildi
Dómur Landsréttar í máli 646/2021 (18. nóvember 2022) – ákvörðun og úrskurður felld úr gildi

Núnú

Mál 2020/0747 – lánssamningur og staðlað eyðublað – Ekki tilefni til ákvörðunar
Ákvörðun 8/2022 – upplýsingar í auglýsingum - Brot

Mál 2021/0290 – skuldfærslur – Ekki tilefni til aðgerða eftir breytingar á skilmálum

Þáttur Almennrar innheimtu ehf.

Innheimta smálána var, frá árinu 2016,alfarið í höndum innheimtufyrirtækisins Almennrar innheimtu ehf. Þann 23. mars 2018 sendu Neytendasamtökin erindi á Almenna innheimtu en þá lágu fyrir ákvarðanir Neytendastofu, ákvarðanir áfrýjunarnefndar neytendamála og niðurstaða héraðsdóms um ólögmæti smálána sem þó voru ennþá innheimt af fullri hörku. Var þeirri spurningu beint til Almennrar innheimtu. hvort fyrirtækið teldi ekki ástæðu til að endurskoða innheimtu lána E-content ehf. þar sem staðfest hafði verið að lánin brytu í bága við lög. Engin svör bárust frá fyrirtækinu.

Innheimta undanþegin eftirliti

Þar sem Almenn innheimta var í eigu lögmanns var fyrirtækið ekki leyfisskylt og ekki undir eftirliti Fjármálaeftirlitsins. Það var þó að nafninu til undir eftirliti Lögmannafélags Íslands (LMFÍ). Í ljós hefur komið að LMFÍ hefur í raun engar valdheimildir og getur ekki farið í frumkvæðisathuganir. Eina úrræði þeirra sem telja á sér brotið er því að senda kæru til úrskurðarnefndar LMFÍ sem tekur á kvörtunum vegna starfa lögmanna. Neytendasamtökin sendu kæru fyrir nefndina fyrir hönd sinna skjólstæðinga þar sem kvartað var yfir innheimtu ólöglegra lána en kærunni var vísað frá vegna aðildarskorts. Því næst voru tvö mál einstaklinga send fyrir nefndina þar sem kvartað var yfir framferði eiganda stofunnar, bæði hvað varðar innheimtu lána sem fyrir lá að voru ólögmæt, skráningu á vanskilaskrá vegna þessara lána og innheimtu á vanskilakostnaði vegna sömu lána. Niðurstaða í öðru málinu var sú að Almennri innheimtu hafi ekki verið heimilt að skrá lántakanda á vanskilaskrá á sama tíma og fyrirtækið gat ekki veitt lántakanda umbeðnar upplýsingar um stöðu krafna. Hlaut lögmaðurinn, Gísli Kr. Björnsson, aðfinnslur vegna þessa. Í hinu málinu var niðurstaðan sú að lögmaðurinn hefði með háttsemi sinni brotið í bága við ákvæði bæði innheimtulaga sem og reglugerðar um hámarksfjárhæð innheimtukostnaðar og var lögmanni félagsins gert að sæta áminningu.

Almenn innheimta hélt áfram innheimtu aðgerðum gagnvart lántakanda þrátt fyrir úrskurðinn enda engin viðurlög við því. Þess utan stefndi lögmaðurinn lántakandanum og fór fram á að áminning úrskurðnefndarinnar væri dregin til baka. Lántaki, sem hafði enga aðkomu að úrskurðinum, var þannig gert að taka til varna í málinu. Viðkomandi hafði engan áhuga á að standa í málarekstri enda hafði niðurstaða úrskurðarnefndarinnar engin áhrif á hans mál þar sem nefndin tók ekki afstöðu til þess hvort innheimtufyrirtækinu hefði verið heimilt að innheimta lán sem dæmd höfðu verið ólögmæt. Var því samið  um að lögmaðurinn drægi stefnuna til baka gegn því að áminningin félli niður.

Þetta mál sýnir vel að eftirlit með innheimtustarfsemi á ekki að vera á hendi félagasamtaka. Neytendasamtökin hafa ítrekað sent erindi á stjórnvöld og kallað eftir því að allt eftirlit með innheimtustarfsemi sé á einni hendi, þ.e. hjá fjármálaeftirliti Seðlabankans.

Lögbannsbeiðni gegn Almennri innheimtu

Þar sem Almenn innheimta. hélt áfram að innheimta kröfur sem dómstólar höfðu dæmt að brytu gegn lögum um neytendalán fóru Neytendasamtökin fram á lögbann á innheimtu þeirra. Var krafan sett fram í október 2019. Sýslumaður hafnaði henni á þeirri forsendu að ekkert kæmi í veg fyrir að lánatakar sæktu sjálfir rétt sinn fyrir dómstólum, eitthvað sem Neytendasamtökin eru allsendis ósammála. Það er alls ekki á færi lántakenda að sækja rétt sinn með því að stefna fyrirtækjunum fyrir dómi. Fyrirtækin geta auðveldlega skipt um kennitölu, flutt úr landi eða lagt niður starfsemi. Þá eru kröfur í þessum málum, þótt þær nemi gjarnan hundruðum þúsunda, ekki það miklar að málarekstur borgi sig. Niðurstaðan var kærð til héraðsdóms, þar sem málið gleymdist og þurfti því að endurflytja það. Þegar niðurstaða dómara lá loks fyrir var hún á þá leið að vegna annmarka í lögum hefðu Neytendasamtökin ekki heimild til að leggja fram lögbannsbeiðni.  

Aðstoð til lántakenda

Neytendasamtökin höfðu mörg mál á sínu borði sem vörðuðu lántakendur sem höfðu ofgreitt háar upphæðir. Smálán voru síðan keyrð í innheimtu og nam innheimtukostnaður oft margföldum höfuðstól lánsins. Neytendasamtökin fengu aðstoð lögmanna til að senda kröfu á kröfuhafa en var þeim í öllum tilfellum hafnað.

Í september 2020 sendi Almenn innheimta ehf. lántökum eingreiðslutilboð. Gekk það út á að „klára fyrir fullt og allt“  skuld frá kröfuhafanum Ecommerce2020. Í ljósi afar umdeildra og á tíðum ólögmætra starfshátta Almennrar innheimtu hvöttu Neytendasamtökin lántaka til að fá nánari skýringar á þessu „kostaboði“. Var það meðal annars gert með frétt á vef samtakanna. Í ljós kom að einungis var verið að bjóða afslátt af einni kröfu en ekki heildarskuldinni. Almenn innheimta viðurkenndi mistök og lét af þessu athæfi.

Sparisjóður Strandamanna

Almenn innheimta ehf. hafði aðgang að greiðslumiðlunarkerfinu í gegnum Sparisjóð Strandamanna og gat þannig sent kröfur í heimabanka lántakenda. Neytendasamtökin kölluðu eftir því að Sparisjóðurinn hætti viðskiptum við Almenna innheimtu. Í framhaldinu ákvað sparisjóðurinn að slíta viðskiptatengsl við fyrirtæki sem notuðu innheimtukerfi sjóðsins til að innheimta smálán. Þar með hafði Almenn innheimta ekki lengur aðgang að greiðslumiðlunarkerfinu og gat ekki sent lántakendum greiðsluseðla.

Skuldfærslur af reikningum

Algengt var að smálánafyrirtækin skuldfærðu beint af bankareikningum fólks eða kreditkortum og var það gert á grundvelli mjög óskýrrar og víðtækrar heimildar í lánaskilmálum. Skuldfærslurnar voru tilviljanakenndar og jafnvel var verið að skuldfæra fyrir mjög gömlum skuldum. Þá voru mörg dæmi um skuldfærslur hjá lántakendum sem höfðu þegar greitt meira en þeim bar og áttu kröfu á kröfuhafa. Enginn skuldfærslusamningur lá fyrir um tilteknar upphæðir né hvenær skuldfærsla ætti að fara fram. Með aðstoð lögmanns tókst að greiða úr mörgum málum, en í upphafi vísuðu bankar og kortafyrirtæki til þess að um væri að ræða „samning“ milli lántaka og kröfuhafa og því lítið hægt að gera. Þegar lántakendur reyndu síðan að rifta þessum „samningi“ var þeim sagt að slíkt væri ekki hægt. Neytendasamtökin litu það alvarlegum augum að svo auðveldlega væri hægt að komast inn á bankareikninga fólks og jafnvel tæma þá án þess að fyrir liggi skýrt samþykki lántakanda.

Neytendasamtökunum stefnt

Eftir að fyrirtæki á Íslandi hættu samstarfi um innheimtu smálána, tók greiðslumiðlunarfyrirtækið Quickpay við greiðslumiðlun fyrir Ecommerce2020. Þar sem fyrirtækið er með aðsetur í Danmörku virtist enginn eftirlitsaðili hér á landi geta aðhafst nokkuð í þessum málum. Neytendasamtökin sendu því erindi á Quickpay og bentu á að Ecommerce2020 stundaði ólöglega lánastarfsemi. Í kjölfarið stefndi Eccommerce2020 formanni Neytendasamtakanna og samtökunum fyrir meiðyrði. Ecommerce2020 vann málið fyrir héraðsdómi en því var áfrýjað til Landsréttar. Formaður samtakanna og Neytendasamtökin voru sýknuð í Landsrétti og Ecommerce2020 gert að greiða samtökunum 1.000.000 kr. í málskostnað. Í febrúar  2024 var Ecommerce 2020 úrskurðað gjaldþrota.

Vanskilaskráning

Neytendasamtökin gagnrýndu þátt Creditinfo og samstarf fyrirtækisins við Almenna innheimtu enda töldu samtökin augljóst að innheimtan væri á mjög gráu svæði og oft á tíðum ólögmæt. Neytendasamtökin töldu Creditinfo fara gegn starfsleyfi sínu með því að setja fólk á vanskilaskrá vegna krafna sem byggðu á lánum sem brutu gegn lögum um neytendalán. Almenn innheimta hótaði lántakendum óhikað vanskilaskráningu og setti þá á vanskilaskrá, þrátt fyrir að lántakar ættu jafnvel kröfu á hendur lánveitanda. Creditinfo var því notað sem svipa til að knýja fram greiðslur sem í mörgum tilfellum voru óréttmætar.

Neytendasamtökin áttu í ítrekuðum samskiptum við forsvarsmenn Creditinfo og bentu á að óforsvaranlegt væri að kröfur frá Almennri innheimtu væru teknar til greina á vanskilaskrá. Eftir að stjórn Neytendasamtakanna sendi frá sér ályktun vegna þessa ákvað Creditinfo að skrá einungis höfuðstól lána sem væru í vanskilum, ekki áfallinn kostnað. Neytendasamtökin töldu þessa aðferð verulega sérkennilega því krafa verður ekki slitin í sundur með þessum hætti og ekki var hægt að greiða Almennri innheimtu einungis höfuðstól krafna, þvert á móti ráðstafaði Almenn innheimta innborgunum fyrst til greiðslu ýmiss kostnaðar. Var það skoðun samtakanna eftir þessi samskipti að margt í starfsemi Creditinfo væri ámælis- og athugunarvert. Sendu samtökin því, ásamt ASÍ, ítarlega umsögn um starfsleyfi Creditinfo til Persónuverndar. Einnig sendu samtökin kvörtun til Persónuverndar vegna starfshátta Creditinfo vegna skráningar krafna sem byggðu á ólögmætum lánum. Persónuvernd komst að þeirri niðurstöðu í júlí 2022 að Creditinfo hefði með vanskilaskráningum á þessum kröfum brotið gegn starfsleyfi sínu og lagði tæplega 40.000.000 kr. sekt á fyrirtækið, sjá.

BPO innheimta

Fyrri part árs 2021 keypti innheimtufyrirtækið BPO kröfusafn Ecommerce2020 og hóf að innheimta kröfurnar. Voru sendir út greiðsluseðlar með eindaga samdægurs sem kom lántakendum í opna skjöldu. Neytendastofa gerði athugasemdir við þessar innheimtuaðferðir og sektaði fyrirtækið í framhaldinu. BPO bauð lántakendum að greiða höfuðstól lánanna án innheimtukostnaðar og tók tillit til þess ef lántakendur höfðu ofgreitt ólögmæta vexti og var krafan þá skuldajöfnuð. Neytendasamtökin funduðu reglulega með forsvarsmönnum BPO með það að markmiði að leysa úr ágreiningsmálum.

Voru stjórnvaldssektir greiddar?

Neytendasamtökin óskuðu eftir upplýsingum um það hvort þær stjórnvaldssektir sem lagðar voru á E-content ehf. hafi fengist greiddar. Fyrsta fyrirspurnin var send til Fjársýslu ríkisins í febrúar 2018. Svör bárust seint og illa og voru á þá leið að persónuverndarsjónarmið stæðu í vegi fyrir því að hægt væri að upplýsa hvort eða að hversu miklu leyti sektir hefðu verið greiddar. Neytendasamtökin sendu því erindi til úrskurðarnefndar upplýsingamála. Töldu samtökin að ekki væri um að ræða viðkvæmar upplýsingar þar sem það var þegar opinbert að umræddar sektir voru lagðar á fyrirtækið. Þá eigi almenningur rétt á að vita hvort álagðar sektir skili sér yfirhöfuð í ríkiskassann. Úrskurðarnefnd skilaði áliti í mars 2020 og taldi að Fjársýslan hefði ekki rökstutt mál sitt nægjanlega og vísaði því aftur til stofnunarinnar. Fjársýslan vísaði þá til Ríkisskattstjóra sem hefði þessar upplýsingar undir höndum. Neytendasamtökin sendu þá annað erindi á úrskurðarnefndina sem komst að þeirri niðurstöðu að Ríkisskattstjóra bæri að afhenda samtökunum gögnin.
Gögnin sjálf dagsett 14.febrúar 2020 báru það með sér að eingöngu brotabrot af sektarfjárhæðinni hefði verið greidd. Aftur á móti fylgdu þær upplýsingar með gögnunum frá Ríkisskattstjóra að höfuðstóll sektanna hefði verið greiddur að fullu en dagsektir felldar niður. Það hafði þó ekki verið gert fyrr en eftir eftirgrennslan samtakanna og mörgum árum eftir að sektin var lögð á fyrirtækið. Þá kom ekkert fram um það hvernig fór með dráttarvexti sem safnast höfðu upp þau ár sem sektin var í vanskilum. Þegar NS óskaði eftir gögnum er staðfestu framangreindar upplýsingar var þeirri beiðni hafnað.
Hér má sjá yfirlit yfir stjórnvaldssektir sem hafa verið lögð á fyrirtækin í gegnum tíðina.

Þá má spyrja sig hvort Ecommerce 2020 hafi greitt stjórnvaldssektina, 7,5 mkr. , sem Persónuvernd gerði fyrirtækinu að greiða, en fyrirtækið var eins og áður segir tekið til gjaldþrotaskipta 2024.

Algjör skortur á neytendavernd

Neytendasamtökin líta það mjög alvarlegum augum að skipulögð brotastarfsemi gegn neytendum hafi viðgengist hér á landi til fjölda ára. Þekkja samtökin varla dæmi um annan eins skort á neytendavernd og hér um ræðir. Þegar vara eða þjónusta á neytendamarkaði uppfyllir ekki lög er salan stöðvuð og vörur jafnvel afturkallaðar ef svo ber undir. Ólögleg smálán voru hins vegar veitt svo að segja sleitulaust frá árinu 2013 fram til fyrri parts árs 2020 án þess að nokkur hafi fengið rönd við reist. Smálánafyrirtækin fóru úr einu plottinu í annað, skiptu um kennitölu þegar þess var þörf og áfrýjuðu öllum ákvörðunum Neytendastofu, jafnvel til Landsréttar, til að vinna sér tíma.

Fyrir liggur að stór hópur fólks varð fyrir fjárhagsskaða vegna ófullnægjandi úrræða, skorts á eftirliti og seinagangs í kerfinu. Stjórnvöld bera mikla ábyrgð á því. Neytendasamtökin sendu erindi á þrjú ráðuneyti (Forsætisráðuneytið, Atvinnuvegarráðuneytið og Félagsmálaráðuneytið) haustið 2019 og kölluðu eftir því að stjórnvöld kæmu þessum hópi til aðstoðar. Engin svör bárust og var erindið því ítrekað í desember sama ár og aftur um vorið 2020. Engin svör bárust við því. Engar raddir hafa verið uppi um sérstakan stuðning við þann hóp sem varð illa fyrir barðinu á smálánaóáraninni.

Á árunum 2019-2020 hjálpuðu Neytendasamtökin hundruðum lántakendum sem sátu fastir í vítahring okurlána og himinhárra innheimtugjalda. Í fæstum tilfellum var um félagsmenn að ræða en töldu samtökin mikilvægt að slá skjaldborg um þennan hóp. Miklir fjárhagslegir hagsmunir voru í húfi, óréttlætið æpandi og áttu lántakendur í fá önnur hús að vernda. Algengt var að innheimtukostnaður næmi margfaldri lánsupphæð. Aðgerðir Neytendasamtakanna snerust um að snúa vörn í sókn og var lántakendum ráðlagt að hætta að greiða af lánum og fara fram á skuldajöfnun þar sem það átti við. Engin dæmi voru um að lántökum væri stefnt sem bendir til að Ecommerce2020 hafi vitað að kröfurnar væru ekki réttmætar.

Neytendasamtökin beindu einnig sjónum að fyrirtækjum sem gerðu Ecommerce2020 kleift að herja á neytendur svo sem fjármálafyrirtæki sem sáu um greiðslumiðlun og Creditinfo. Ólögleg smálánastarfsemi heyrir vonandi sögunni til enda búið að stoppa í margar gloppur sem smálánafyrirtækin gátu nýtt sér. Enn er þó ekkert því til fyrirstöðu að lögmenn taki að sér stórtæka innheimtu án þess að lúta nokkru eftirliti. Þá er ekkert þak er á innheimtu líkt og í nágrannalöndunum og heimilt er að auglýsa dýr neytendalá ólíkt því sem þekkist í Danmörku.  Neytendasamtökin hafa ítrekað bent stjórnvöldum á að úrbóta sé enn þörf.

Stuðningur verkalýðsfélaga

VR lagði Neytendasamtökunum lið haustið 2019 þannig að samtökin gætu áfram sinnt þessum málum. Einnig fengu samtökin styrk frá BSRB og Eflingu. Í febrúar 2020 ákváðu Neytendasamtökin og Alþýðusamband Íslands að leggjast sameiginlega á árarnar til að uppræta smálánastarfsemi. Lagði ASÍ til fjármagn svo hægt væri að halda áfram að aðstoða lántakendur. Efling styrkti einnig samtökin í smálánabaráttunni. Það er ljóst að án stuðnings verkalýðshreyfingarinnar hefðu Neytendasamtökin ekki getað haldið uppi baráttu gegn smálánaskúrkum og kónum þeirra.

 

Deila:

Facebook
Twitter
Póstur

Fleira áhugavert

Ítarleg kortlagning hefur verið gerð á PFAS menguðum svæðum í Evrópu. Erfitt ef ekki ómögulegt getur reynst að hreinsa slík svæði.
Litarefni í mat gefa lífinu lit en þau eru jafn ólík og þau eru mörg. Sum eru náttúruleg á meðan önnur eru gerfiefni sem
Það færist í vöxt að fólk kaupi vörur af netinu í gegnum það sem kallast á ensku „dropshipping“, hvort sem fólk gerir sér grein

Takk fyrir áhugann!

 Þetta vefsvæði er kostað af árgjöldum félaga í Neytendasamtökunum.

Ef þú ert ekki þegar í samtökunum biðjum við þig að íhuga að ganga í þau. Árgjaldið er 7.900 kr.