Þar liggur vafinn í bómull

Bómullarframleiðsla hefur lengi verið undir smásjánni enda saga hennar þyrnum stráð.

Óhætt að segja að saga bómullarinnar sé þyrnum stráð. Þrælahald, nauðungarvinna og barnaþrælkun hefur tengst bómullarframleiðslu í gegnum aldirnar. Þá er bómullarframleiðsla alla jafna mjög óumhverfisvæn en mikið vatn þarf til framleiðslunnar og eiturefnanotkun á bómullarökrum er með því mesta sem gerist. Vinna á bómullarökrum er mannaflsfrek og líkamlega erfið. Mikil notkun skordýraeiturs og varnarefna er auk þess skaðleg þeim sem vinna á akrinum Ef rignir á uppskerutíma þarf að bíða í nokkra daga eftir að plantan þorni og um leið og bómullin er opin og þurr þarf að tína hana svo fljótt sem auðið er. Víða er þessi vinna enn í höndum verkamanna þótt miklar tæknibreytingar hafi orðið á öllum stigum ræktunar.

Þrælkunarvinna á bómullarökrum

Þótt þrælahald á bómullarekrum hafi liðið undir lok í Bandaríkjunum eftir að borgarastríðinu lauk virðist þrælkunarvinna þó enn viðgangast. Í kringum 2010 komst Uzbekistan í heimsfréttir vegna barnaþrælkunar á bómullarökrum en Uzbekistan er einn stærsti bómullarframleiðandi í heimi. Í nýrri skýrslu frá Alþjóðavinnumálastofnuninni segir að tekist hafi að uppræta barnaþrælkun og nauðungarvinnu í Uzbekistan að langmestu leyti, að stjórnvöld séu hætt að þvinga fólk til vinnu á uppskerutíma og að laun hafi hækkað.

Nú síðast beinist athyglin þó að bómull frá Kína. Um 85% af bómullarframleiðslu í Kína fer fram í Xinjiang-héraði í norðurhluta landsins og er hún um 20% af allri bómullarræktun heimsins. Á síðasta ári sagði BBC fréttir af umfangsmikilli þrælkunarvinnu á bómullarökrum í Xinjiang. Hafa kínversk stjórnvöld verið sökuð um kerfisbundin mannréttindarbrot gegn Úrúgíum sem telja um helming íbúa héraðsins eða um 12 milljónir. Úrúgíar eru flestir múslímar og tala eigið tungumál sem líkist tyrknesku. Fréttir herma að hundruð þúsunda Úrúgía séu þvingaðir til að vinna við bómullartínslu á bómullarökrum en kínversk stjórnvöld hafa mótmælt öllum ásökunum. Í byrjun árs settu Bandaríkin innflutningsbann á bómull og vörur úr bómull frá Xinjiang-héraðinu og fleiri ríki, m.a. Ísland, hafa tilkynnt að þau muni beita Kína þvingunaraðgerðum vegna þessa máls.

Á milli steins og sleggju

Í fyrra gáfu bæði Nike og H&M út yfirlýsingu um að fyrirtækin keyptu ekki bómull frá Xinjiang og lýstu yfir áhyggjum af stöðu mála. Þessar fréttatilkynningar vöktu ekki mikla athygli á sínum tíma en á þessu ári varð fjandinn laus. Í framhaldi af viðskiptabanni Bandaríkjanna á bómull frá héraðinu og viðskiptaþvingunum sem beindust að kínverskum embættismönnum voru yfirlýsingar Nike og H&M rifjaðar upp á samfélagsmiðlum og fóru í framhaldinu á flug. Voru kínverskir neytendur hvattir til að smiðganga þessi fyrirtæki. Ríkissjónvarpsstöð Kína lagði sitt af mörkum til umræðunnar og sýndi að sögn hina sönnu mynd af bómullarökrum Xinjiang. Mátti sjá iðnvædda tínslu og ummæli Úrúgúabónda um að slegist væri um störfin. Vestrænir fataframleiðendur eru því á milli steins og sleggju ef svo mætti segja. Kínverskur neytendamarkaður er mjög mikilvægur, enda gríðarstór, en að sama skapi eykst krafa neytenda um ábyrga framleiðslu sem framleiðendur verða, og vilja eflaust einnig, taka tillit til.

Ný rakningartækni

Framleiðendur geta fengið upplýsingar um uppruna bómullar í gegnum vottorð frá seljendum. Hrávörumarkaður með bómull er hins vegar gríðarstór og bómull getur skipt oft um hendur, sem eykur hættuna á að rekjanleikinn glatist.

Í sænska neytendablaðinu Råd och Rön er sagt frá því að nýsjálenskt fyrirtæki, Oritain, hafi þróað aðferð til að rekja bómull frá flík til akurs. Grant Cochrane, forstjóri Oritain, segir það gert með því að greina bómullartrefjar úr flíkinni en hrávörur eins og bómull séu í raun með einskonar fingrafar eða kóða sem gefi mikilvægar upplýsingar um uppruna. Þessar upplýsingar varða m.a. samsetningu jarðvegs, veðurfar og ræktunaraðferðir og eru geymdar í  gagnagrunni fyrirtækisins, en einnig er stuðst við gögn sem eru öllum opin og aðgengileg.

Fyrirtækið gefur sig einnig út fyrir að rekja uppruna hunangs, kaffis, kjöts og lyfja en bómull sé þó einkar heppileg í þessu samhengi. Ræturnar fara djúpt ofan í jarðveginn og taka upp efni sem eru rekjanleg. Hægt sé að segja til um með 95% vissu hvar bómull er ræktuð og það komi sér vel ef framleiðendur vilja til dæmis tryggja að bómullin komi ekki frá Xinjiang eða Uzbekistan.

Besta lausnin að nýta vel

Það getur verið ómögulegt fyrir neytendur að afla sér upplýsinga um uppruna fatnaðar, jafnvel þótt einbeittur vilji sé til staðar. Vottanir geta vissulega hjálpað til og má nefna Svaninn, Evrópublómið, Better Cotton Initiative og Fairtrade, en einungis lítið brot af fatnaði og textíl er vottað. Öll framleiðsla, jafnvel sú sem er umhverfisvænni en ella, tekur þó sinn umhverfistoll og því er besta ráðið að neyta minna og nota það sem þegar hefur verið framleitt. Í Svíþjóð sýna nýjar rannsóknir að fólk er meðvitaðra um neikvæð áhrif fataframleiðslu nú en fyrir þremur árum. Þetta á ekki síst við um ungt fólk sem er mun meðvitaðra en þeir sem eldri eru. Ekki er vitað til þess að sambærileg rannsókn hafi verið gerð hér á landi á síðustu árum en gera má þó ráð fyrir að meðvitund um þessi mál hafi aukist.

Birtist í Neytendablaðinu haustið 2021

Deila:

Facebook
Twitter
Póstur

Fleira áhugavert

Það færist í vöxt að fólk kaupi vörur af netinu í gegnum það sem kallast á ensku „dropshipping“, hvort sem fólk gerir sér grein
Aukefni geta verið allt frá mjög umdeildum efnum sem eru leyfð í einstaka vörum yfir í mjög örugg efni. Kynntu þér málið.

Takk fyrir áhugann!

 Þetta vefsvæði er kostað af árgjöldum félaga í Neytendasamtökunum.

Ef þú ert ekki þegar í samtökunum biðjum við þig að íhuga að ganga í þau. Árgjaldið er 7.900 kr.