Títandíoxíð – bannað í mat en leyft í lyfjum

Umdeilt litarefni er bannað í matvælum en efnið er mjög algengt í lyfjum. Hvernig stendur á því?

Frá árinu 2022 hefur verið bannað að nota hvíta litarefnið E171 (títandíoxíð) í matvörur og fæðubótarefni. Efnið hefur lengi verið umdeilt en það innheldur nanóagnir sem geta haft eituráhrif á erfðaefni. Þá benda rannsóknir til þess að títandíoxíð geti skaðað þarmaflóruna með ófyrirséðum afleiðingum. Matvælaöryggisstofnun Evrópu komst að þeirri niðurstöðu að vegna margra óvissuþátta geti efnið ekki talist öruggt til neyslu jafnvel í mjög litlu magni. Títandíoxíð hefur því verið bannað í matvælum frá árinu 2022.

Þetta umrædda litarefni er þó mikið notað í lyfjaiðnaði. Nú spyrja lesendur eflaust í forundran hvernig geti staðið á þessu. Hvernig má það vera að efni sem er bannað í mat er leyft í lyfjum? Í stuttu máli eru rökin þau að títandíoxíð er svo algengt í lyfjum að bann við notkun þess myndi valda víðtækum lyfjaskorti í Evrópu. Lyfjaiðnaðurinn fékk því undanþágu frá banninu.

Gæti valdið lyfjaskorti

Talið er að títandíoxíð sé notað í um þriðjungi allra lyfja í töfluformi en umfangið liggur þó ekki fyrir. Það gæti verið meira, en víst er að títandíoxíð er eitt allra algengasta hjálparefnið í lyfjum. Fyrir utan að vera öflugt hvítt litarefni halda lyfjaframleiðendur því fram að títandíoxíð hafi mjög mikilvæga eiginleika sem erfitt sé að ná fram með öðrum efnum. Þeir snúa ekki síst að húðun á töflum og pillum en títandíoxíð er það sem kalla mætti „þekjandi“ og veitir sem dæmi góða vörn gegn skaðlegum geislum sólar. Það er einmitt ástæðan fyrir því að efnið er notað í sólarvörn.

Lyfjastofnun Evrópu tók tillit til athugasemda framleiðenda og fór fram á það við framkvæmdastjórn Evrópusambandsins að lyf yrðu undanskilin banninu. Ekki sé augljóst hvaða efni gætu komið í stað títandíoxíðs og það gæti tekið mörg ár að finna út úr því. Benti stofnunin á að títandíoxíð sé svo algengt í lyfjum að ef það yrði bannað kæmi til víðtæks lyfjaskorts í Evrópu. Útskipting títandíoxíðs í lyfjum sem hafa markaðsleyfi kallar auk þess á endurskoðun og mat á hverju lyfi fyrir sig. Slík endurskoðun gæti tekið mörg ár. Til að bæta gráu ofan á svart yrði Evrópa eina svæðið í heiminum þar sem títandíoxíð væri bannað í lyfjum en mörg mikilvæg lyf eru framleidd utan Evrópu. Alls óvíst er að framleiðendur myndu leggja í þá vinnu að finna staðgöngukost einungis fyrir Evrópumarkað. Yfirvöld í Kanada, Bandaríkjunum, Nýja Sjálandi, Bretlandi og Japan hafa metið efnið öruggt til neyslu og banna það því ekki í matvælum eins og Evrópusambandið.

Framkvæmdastjórnin bíður nú eftir uppfærðu mati frá Lyfjastofnun Evrópu og mun í framhaldinu tilkynna um ákvörðun sína. Líklega verður það þó ekki fyrr en á næsta ári. Mun framkvæmdastjórnin þurfa að meta hvort títandíoxíð gegni svo mikilvægu hlutverki í lyfjum að það vegi þyngra en hugsanleg hætta af neyslu þess. Talið er að nærtækast sé að skipta títandíoxíði út fyrir kalsíumkarbónat sem nú þegar er notað sem hjálparefni í mörg lyf og fæðubótarefni. Neytendasamtökin munu fylgjast grannt með þróun mála.

Deila:

Facebook
Twitter
Póstur

Fleira áhugavert

Hið ósanngjarna ábyrgðamannakerfi fékk viðgengist allt of lengi í íslensku samfélagi. það reyndist mörgum dýrkeypt.
Neytendur geta í flestum tilfellum borið ágreining undir úrskurðarnefndir, en það er ekki svo ef málið snýr að heilbrigðisþjónustu.
Mikil áhersla er lögð á réttindi og öryggi notenda heilbrigðisþjónustu í Finnlandi. Net umboðsmanna og raunhæf úrræði grípa fólk sem lendir í vanda.
Finnsku neytendasamtökin hafa um árabil sinnt ráðgjöf til notenda heilbrigðisþjónustunnar.

Takk fyrir áhugann!

 Þetta vefsvæði er kostað af árgjöldum félaga í Neytendasamtökunum.

Ef þú ert ekki þegar í samtökunum biðjum við þig að íhuga að ganga í þau. Árgjaldið er 7.900 kr.