Viðhorf ungra kvenna til fatakaupa

Þekking á umhverfismálum er að aukast en það þýðir þó ekki endilega að neyslan dragist saman.

Annað hvert ár er gerð stór norræn rannsókn þar sem þekking og viðhorf neytenda til umhverfismerkinga og sjálfbærni er metin. Niðurstöður síðustu rannsóknar, sem gerð var 2022, sýna meðal annars að þekking neytenda fer vaxandi.

Helstu áskoranir

Þegar þátttakendur voru beðnir að nefna helstu áskoranir í umhverfismálum nefndu flestir Íslendingar loftslagsbreytingar, því næst plastmengun og þá mengun í lofti, láði og legi. Þættir eins og líffræðilegur fjölbreytileiki, offjölgun mannkyns og ofnýting náttúrauðlinda eru hins vegar ekki jafn ofarlega á blaði. Ein spurningin snýr að því hvað fólk geri sjálft til að minnka umhverfisfótspor sitt. Langvinsælasta aðgerðin er flokkun á úrgangi og á það við um öll Norðurlöndin. Nokkuð hátt hlutfall Íslendinga nefnir einnig skil á fötum í fatasöfnun og að þeir forðist kaup á einnota vörum, kaupi ekki óþarfa, forðist óþarfa umbúðir og reyni að sporna gegn matarsóun. Heldur færri segjast nota umhverfisvæna samgöngumáta og er þar átt við göngu, hjólreiðar og almenningssamgöngur. Hlutfallslega fáir Íslendingar segjast spara rafmagn og kyndingu á heimilum, sem kemur kannski ekki á óvart, og einnig nefna fáir minni neyslu á rauðu kjöti sem lið í umhverfisvænni lífsstíl. Þá sögðu 20% aðspurðra að stjórnvöld og fyrirtæki væru ekki að gera nóg í umhverfismálum.

Fatasóun og nægjusemi

Það vekur athygli hversu margir nefna það skref að deila fötum, eða gefa þau í fatasöfnun, sem aðgerð til að minnka umhverfisfótspor. Íslendingar losa sig við 7–8.000 tonn af fötum og skóm á hverju ári sem gera að meðaltali 20 kíló á mann. Þótt það sé jákvætt að föt skili sér frekar í söfnun en í urðun er sjálfbærasta aðgerðin þó alltaf fólgin í því að kaupa minna og nýta betur.

Katla Eiríksdóttir skrifaði lokaverkefni sitt í umhverfisstjórnunarfræðum um viðhorf ungra kvenna á Íslandi til fatakaupa út frá hugtakinu nægjusemi. Á heimsvísu kaupa neytendur 80 milljarða nýrra klæða á ári hverju, sem þýðir að það er nær endalaus straumur af nýjum fötum inn í kerfið. Hér er því um verðugt rannsóknarefni að ræða.

 

Katla Eiríksdóttir

Spurð um helstu niðurstöður segir Katla að þrjú mismunandi viðhorf hafi verið ríkjandi á meðal þátttakenda hvað varðar nægjusemi og fataneyslu. Fyrst má nefna það viðhorf að forsendan fyrir nægjusemi sé að fötin þurfi að vera vönduð og dýr, með öðrum orðum að hraðtíska og nægjusemi fari ekki saman. Viðhorf tvö einkenndist af því að konum fannst þær fastar í ákveðnum vítahring þar sem ódýr föt gerðu það að verkum að þær ættu erfitt með að standast freistinguna. Þriðja viðhorfið snerist síðan um að nægjusemi væri ákveðið hugarástand sem næði til fleiri þátta en bara fataneyslu. Niðurstöðurnar sýndu einnig að flestir þátttakendur voru sammála um að mikilvægasta tól stjórnvalda í þessum málum væri aukin fræðsla um umhverfisáhrif fataneyslunnar.

Fastar í vítahring fataneyslu

„Það kom mér á óvart að allir þátttakendur áttuðu sig á umhverfis- og samfélagsvandanum sem fylgir því að kaupa ódýr föt. Þrátt fyrir það tilheyrðu margir viðhorfi tvö, þ.e. að vera fastir í vítahring fataneyslu. Það gefur því augaleið að fræðsla í þessum málum er ekki nóg. Það gæti þurft róttækari inngrip. Annað sem kom á óvart er að flestir voru sammála því að nægjusemi fælist ekki í að gefa föt til góðgerðarstarfa, sem er áhugavert miðað við fjöldann sem fer í gegnum t.d. Rauða Krossinn hér á landi.“

Neytendur ekki hlynntir inngripi

Katla skoðaði meðal annars hvort neytendum hugnaðist inngrip hins opinbera til að sporna gegn fatasóun. Í ljós kom að aðgerðir sem ganga út á mikil inngrip stjórnvalda mæltust ekki vel fyrir. Dæmi um slíkt væri að stjórnvöld myndu setja þak á það hversu margar flíkur einstaklingur mætti kaupa, eða hreinlega bann við kaupum á nýjum fötum. Sú aðgerð sem flestir tóku undir – og gæti flokkast sem mikið inngrip stjórnvalda – var þess efnis að setja ætti hærri skatt á föt sem eru framleidd á ósjálfbæran hátt og við slæmar aðstæður.

Katla segir það ekki koma á óvart að þátttakendum hugnist betur „veikari aðgerðir“, svo sem aukin fræðsla eða jafnvel styrkir til þeirra sem framleiða föt á sjálfbæran hátt hér á landi. Hún segir að niðurstöðurnar mætti nýta til að sýna fram á mikilvægi þess að skoða aðrar aðferðir en fræðslu þegar kemur að fataneyslu og nægjusemi því það er ennþá munur á þekkingu og hegðun neytenda (e. knowledge behaviour gap). „Með öðrum orðum, við virðumst almennt upplýst um vandann sem fylgir fatasóun og vitum að nægjusemi er mikilvæg en það nægir ekki til þess að við breytum um hegðun,“ segir Katla.

Svanurinn vel þekktur

Elva Rakel Jónsdóttir, framkvæmdastjóri Svansins á Íslandi, segir í samtali við Neytendablaðið að það sé margt bæði áhugavert og jákvætt í rannsókninni:  „Það er sérstaklega ánægjulegt hvað þekking Íslendinga á norræna umhverfismerkinu Svaninum er orðin mikil. Hún er nú svipuð því sem gerist á Norðurlöndunum en lengi vel var þekkingin minnst hér.“ Elva segir að það komi hins vegar á óvart að íslenskir neytendur þekkja aðeins betur til Evrópublómsins, sem er opinbert umhverfismerki Evrópusambandsins, en aðrar Norðurlandaþjóðir. „Við getum í raun ekki útskýrt hvað er gangi þar.“ Þekking Íslendinga er hins vegar marktækt minni á Fair trade merkingum og á merkingum fyrir lífræna framleiðslu.

Elva Rakel Jónsdóttir

Ekkert þol fyrir grænþvotti

Íslenskir neytendur virðast hafa mjög lítið þol fyrir grænþvotti. Tæplega sjö af tíu telja að fyrirtæki ýki oft hversu umhverfisvænar vörur þeirra eru. „Samkvæmt þessu treysta neytendur ekki órökstuddum yfirlýsingum fyrirtækja,“ segir Elva. „Þetta er líka vísbending um að neytendur séu farnir að treysta vottunum eins og Svaninum og geri kröfur um að fyrirtæki sem skreyta sig með umhverfisfjöðrum geti sannreynt fullyrðingarnar.“

Neytendablaðið vor 2023

 

Deila:

Facebook
Twitter
Póstur

Fleira áhugavert

Aukefni geta verið allt frá mjög umdeildum efnum sem eru leyfð í einstaka vörum yfir í mjög örugg efni. Kynntu þér málið.
Neytendasamtökin hafa í gegnum árin staðið með neytendum gegn smálánaóværunni. Sú barátta hefur verið bæði löng og ströng.

Takk fyrir áhugann!

 Þetta vefsvæði er kostað af árgjöldum félaga í Neytendasamtökunum.

Ef þú ert ekki þegar í samtökunum biðjum við þig að íhuga að ganga í þau. Árgjaldið er 7.900 kr.