Fréttir

Neytendasamtökin og ASÍ stofna baráttuhóp gegn smálánastarfsemi

Drífa Snædal og Breki Karlsson

Alþýðusamband Íslands og Neytendasamtökin hafa ákveðið að leggjast sameiginlega á árarnar til að uppræta smálánastarfsemi. Ætla má að þúsundir einstaklinga og fjölskyldna hafi goldið það dýru verði að festast í neti smálánafyrirtækja sem níðast skipulega á þeim sem höllum fæti standa. Að stöðva þessa starfsemi er velferðarmál og barátta gegn fjárhagslegu ofbeldi!

Málsvarnarsjóður fyrir þolendur

ASÍ og NS hafa því stofnað baráttusamtök gegn smálánastarfsemi sem hafa það að markmiði að aðstoða þolendur smálánastarfsemi og girða fyrir það að slík starfsemi fái þrifist. Einnig verður stofnaður málsvarnarsjóður fyrir þolendur smálána sem hafa ofgreitt ólögleg lán.

Ásamt þessu munu samtökin kortleggja hvaða fyrirtæki það eru sem þjónusta smálánafyrirtæki og auðvelda starfsemina til þess að tryggja að almenningur sé upplýstur um hvaða fyrirtæki það eru. Þá munu samtökin þrýsta á að stjórnvöld axli ábyrgð og aðstoði þolendur með skipulögðum hætti og beiti sér markvisst gegn starfsemi smálána.

Það er óþolandi að fyrirtæki og fjármálastofnanir hafi séð sér hag í því að þjónusta og aðstoða smálánafyrirtæki. Þar má nefna CreditInfo sem hefur skráð ólögleg lán á vanskilaskrá og Almenna innheimtu ehf. sem innheimtir smálán af fordæmalausri hörku. Þá eru fleiri fyrirtæki og sem styðja við smálánafyrirtæki til skoðunar. 

Um 25% rekja skuldavanda til smálána

Neytendasamtökin hafa um árabil háð þessa baráttu og safnað gríðarlegri reynslu og þekkingu á umhverfinu sem þessi fyrirtæki þrífast í og alvarleg hversu áhrif smálánastarfsemi getur haft á líf einstaklinga og fjölskyldna. Samkvæmt könnun aðildarfélaga ASÍ meðal félagsmanna sinna geta 25% þeirra sem lenda í skuldavanda rakið orsökina til smálána. Alþýðusamband Íslands mun leggja fjármagn og starfskrafta í þessa baráttu enda kemur starfsemin niður á félagsmönnum í verkalýðshreyfingunni og þeim sem höllum fæti standa í samfélaginu.

Þau fyrirtæki, félagasamtök og einstaklingar sem vilja leggja baráttunni lið eru hvött til að hafa samband við Neytendasamtökin eða Alþýðusambandið.

Fréttir í sama dúr

Opnunartími yfir hátíðirnar

Droppshipping – ekki er allt sem sýnist

Afstaða stjórnmálaflokkanna til neytendamála

Breytingar á búvörulögum gegn stjórnarskrá

Aðalfundur Neytendasamtakanna 2024

Ályktanir aðalfundar

Takk fyrir áhugann!

 Þetta vefsvæði er kostað af árgjöldum félaga í Neytendasamtökunum.

Ef þú ert ekki þegar í samtökunum biðjum við þig að íhuga að ganga í þau. Árgjaldið er 7.900 kr.