Þeir sem sleikja sólina ættu ávallt að nota sólarvörn til að verjast skaðlegum geislum sólar og hana ætti alls ekki að spara. Nauðsynlegt er að nota vel af sólaráburði og er ágætt að miða við að fullu lúku af kremi þurfi á allan líkamann.
Nota of lítið krem
Danir nota ekki nema einn þriðja af því magni sem nauðsynlegt er til að verja húðina en þetta sýnir ný rannsókn frá dönsku umhverfisstofnuninni. Til að tryggja næga vörn þarf að bera sólarvörn jafnt á húðina, þekja vel og helst fara tvær umferðir. Þá er ráðlagt að bera sólarvörn á húðina 20 mínútum áður en farið er út í sólina.
Ódýr krem koma vel út
Samkvæmt gæðakönnun á sólaráburði í danska neytendablaðinu Tænk er ekkert samhengi á milli verðs og gæða. Bestu einkunn fær sólarvörn Levevis og er hún jafnframt ódýrust. Krem frá Clinique, Piz Buin og Clarins verma hins vegar botninn. Talsmenn þessara fyrir tækja gagnrýndu könnunina og segja að eigin rannsóknir, sem uppfylla kröfur ESB, sýni að treysta megi því að sú vörn sem gefin er upp á umbúðum sé rétt. Tænk bendir á að kremin sem notuð eru í gæðakönnuninni séu keypt úti í búð. Hugsanlega geti það skipt máli en niðurstaðan sé skýr. Sum krem veita ekki þá vörn sem gefin er upp á umbúðum og neytendur ættu að geta treyst.
Þær tegundir sem fengu góða einkunn fyrir utan Levevis eru m.a. Garnier Ambre Solaire Sun Protection Milk Anti-dryness, Nivea Sun Protect & moisture og Suncircle Sun lotion sem er svansmerkt. Änglemark Sun lotion sem selt er hér á landi og ber svansmerkið fær einnig ágætis einkunn.