Neytendasamtökunum bárust nýlega tvö erindi frá félagsmönnum sem lent höfðu í tegund netsvika sem samtökin hafa ekki séð áður.
Í báðum tilfellum fengu félagsmennirnir sendar beiðnir um rafræna auðkenningu í símtæki sitt. Auðkenningarbeiðnir voru ekki staðfestar og féllu þar með á tíma. Í kjölfarið fengu einstaklingarnir smáskilaboð með yfirheitinu „Endurheimt, upplýsingar-is.“ Í skilaboðunum mátti finna hlekk sem unnt var að smella á til að fá nánari upplýsingar um þessar beiðnir.
Þegar smellt var á hlekkinn í smáskilaboðunum voru félagsmennirnir báðir beðnir að skrá sig inn með rafrænum skilríkjum til að nálgast nánari upplýsingarnar. Þar með gátu svikahrapparnir opnað heimabanka í nafni félagsmanna og fengið yfirdráttarheimild sem síðan var stungið undan. Um töluverðar upphæðir var að ræða í báðum tilvikum.
Svikin voru framkvæmd í sitt hvorum bankanum og taldi annar þeirra brotaþola ábyrgan og gerði honum að greiða „skuldina“ við bankann, en hinn bankinn taldi ljóst að um svik væri að ræða og felldi svikaskuldina niður.
Hvernig á að bregðast við?
Ætíð skal gæta fyllstu varkárni þegar beiðnir um auðkenningu berast í síma og aldrei samþykkja þær nema að vel athuguðu máli. Teljir þú þig í ógáti hafa staðfest auðkenningu með rafrænum skilríkjum er hægt að skoða alla notkun rafrænu skilríkjanna síðustu þrjá mánuði á mitt.audkenni.is og sjá hver hefur beðið um auðkenningu. Þá er einnig ráðlagt að hafa samband við Auðkenni svo fljótt sem auðið er.
Neytendasamtökin brýna fyrir neytendum að sýna aðgát við notkun rafrænna skilríka. Netsvik verða sífellt algengari og aðferðir þróast og breytast. Stundum þarf ekki nema lítið feilspor til að verða fyrir miklu tjóni.